09.12.1965
Neðri deild: 27. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í B-deild Alþingistíðinda. (273)

89. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það væri auðvitað tilefni til að segja margt um þær ræður, sem hér hafa verið fluttar af hálfu hv. stjórnarandstæðinga, en ég skal ekki lengja þessar umr. mikið.

Hv. 11. þm. Reykv. flutti hér, eins og vænta mátti, hógværa ræðu og dró fram ýmis atriði, sem við að vísu höfum heyrt hér í umr. um ýmis mál áður á þinginu, en raunar með hógværari hætti, sem hann flutti það, heldur en ýmsir flokksbræður hans hafa gert. Því miður verð ég þó að láta í ljós vonbrigði yfir því, að jafnglöggur maður skuli vilja taka upp málflutning eins og hann þó beitti hér. Ég efast ekkert um það, að hv. þm. hefur áhuga á því og fullan skilning a.m.k. á nauðsyn þess að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög. Ég veit það jafnframt, að hv. þm. veit það mætavel, að greiðsluhallalaus fjárlög er ekki hægt að afgreiða nú án þess að afla nýrra tekna, það er útilokað. Og enda þótt væri nú gripið til þeirra aðgerða, sem hann og hans flokkur talar um og telur að þurfi að gera til umsköpunar á íslenzku efnahagskerfi og raunar hv. 5. þm. Austf. að nokkru leyti minntist einnig á og hefur áður gert hér, breytir það í engu neinu um fjárþörf ríkissjóðs, eins og sakir standa nú, ef menn eru andvígir því að létta af ríkissjóði útgjöldum. Og meginhluti hinna nýju útgjalda stafar að vísu af auknum rekstrarkostnaði, það er rétt, en það er vegna launahækkana, sem auðvitað verður að standa andspænis og við getum engu breytt um, og ég geri raunar ekki ráð fyrir því, þótt hv. stjórnarandstæðingar kæmust hér til valda, að þeir gætu fært til baka slíka kostnaðarliði, svo sem kauphækkanir og annað þess konar, þannig að það drægi úr útgjöldum ríkissjóðs. Öll slík nýsköpun, sem þeir boða í þessu efni, yrði þá væntanlega að horfa til framtíðarinnar og forðast það öngþveiti, sem þeir tala um, ef ekki yrði snúið við. Allt það horfir til þess, sem kemur, en ekki til þess vanda, sem við stöndum andspænis hér vegna kostnaðarauka, sem orðið hefur. Og óvefengjanlegt er, að ríkissjóður getur ekki, nema þá með því að stöðva fjárframlög sín til margvíslegra hluta, sem enginn hv. þm. hefur gerzt talsmaður fyrir, staðið undir þeim kvöðum, sem á hann eru lagðar, nema afla nýrra tekna. Það er ósköp einfaldur hlutur að telja hér upp 15–20 gjöld eða ég man ekki, hve mörg þau voru, sem hv. þm. talaði um, að ríkisstj. hefði lagt á borgarana. Ég held sannast sagna, að það sé sameiginlegt varðandi öll þessi gjöld, að sennilega hefur hv. Framsfl. verið á móti þeim. En hann var með öllum útgjöldunum, hann var bara á móti því að afla tekna til þeirra. Ég man um marga þessa skatta, — við skulum taka dæmi eins og iðnlánasjóðsgjald, — jú, jú, menn vildu gjarnan, t.d. hv. framsóknarmenn, afla meiri tekna í iðnlánasjóð, en það átti einfaldlega að gerast með því að láta ríkissjóðinn borga það, og auðvitað hefðum við þá staðið andspænis því, eins og ástatt er nú, að það hefði orðið að afla nýrra tekna fyrir ríkissjóðinn með einhverjum öðrum leiðum en fara út í þessa gjaldheimtu, og svona hygg ég, að megi telja upp flest þessara gjalda. Ég er ekkert hrifinn af öllum þessum smágjöldum og skal fallast á það með hv. þm., að það eru margvíslegir ókostir á því og það væri mikil þörf á því að taka til heildarendurskoðunar alla okkar gjaldheimtu. Það er ég honum efnislega sammála um. En að halda því fram, að þetta hafi ekki verið nauðsynleg gjöld, miðað við þær nýju þarfir, sem menn stóðu hér andspænis og í flestum tilfellum allir viðurkenndu, hvar sem þeir stóðu í flokki, held ég, að hljóti að vera mönnum ljóst, að er ekki frambærilegt.

Það má auðvitað vel halda því fram, að nýir skattar magni dýrtíð að vissu marki. En hins vegar held ég, að staðreyndin sé sú, eins og ég hef áður lagt áherzlu á, að vandi ríkissjóðs kemur yfirleitt alltaf eftir á, þannig að sá vandi, sem við erum að glima við núna og hefur verið um langan aldur, stafar af því, að það hefur átt sér stað verðbólguþróun, sem komið hefur hart við ríkissjóðinn og hann neyðzt þess vegna til að afla nýrra gjalda til að mæta því, og þannig er það með fjárlög okkar fyrir árið 1966, að við stöndum andspænis þegar orðnum hlutum og verðum að mæta þeim. Það er alveg hárrétt, að viss tekjuöflun í þessu sambandi hefur, miðað við það kerfi, sem við búum við, viss verðaukaáhrif. Fram hjá því verður ekki gengið. Sumir hafa jafnvel haldið því fram, að það væru gallarnir við þessa nýju tekjuöflun ríkisstj., að hún hefði ekki nægileg verðaukaáhrif, vegna þess að hún kæmi ekki fram með fullum þunga í vísitölunni. En ég held, að það liggi nokkuð ljóst fyrir, að ef hún gerði það, væri til lítils unnið, vegna þess að hvert prósent í kauphækkun kostar ríkissjóð mikið fé.

Ég skal ekki ræða mikið þessi almennu atriði, en vildi aðeins leggja áherzlu á þetta, sem raunar ætti ekki að þurfa og ég veit, að þessi hv. þm. og hv. 5. þm. Austf. einnig veit, að fram hjá því verður ekki komizt nú að afla nýrra tekna til að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög, og ég hef ekki heyrt neinn, ekki einu sinni af hálfu hv. stjórnarandstæðinga, halda því fram, að það væri ekki rétt stefna, og meira að segja hafa sumir þeirra haldið því fram, að það væri teflt á of tæpt vað hjá ríkisstj. um afgreiðslu fjárl. Og hv. framsóknarmenn tóku þá afstöðu, sem ég er alls ekki að lasta, að flytja ekki brtt. við útgjaldahlið fjárl.. vegna þess að þeir vildu ekki með því stuðla að því, að fjárlög væru afgreidd með greiðsluhalla. En það er ekki fullt samræmi í því að hafa slíka afstöðu, en neita þó að horfast í augu við þær staðreyndir, sem við blasa einnig, að til þess að þetta verði auðið, verður að afla þeirra tekna, sem ríkisstj. hefur farið fram á. Við getum deilt um það, hvernig eigi að afla þeirra, og menn geta haft mismunandi skoðanir á því. En það er ekki hægt að vera einfaldlega á móti öllum þessum leiðum án þess að segja þá, með hvaða hætti þetta á að gerast. Það er ekki hægt að vera á móti smáskattaleiðinni, ef menn fordæma hana, nema þá þeir vilji fara út í einhverja stórskatta. Það er ekki hægt eins og sakir standa.

Varðandi svo þetta gjald, sem hér er um að ræða, þennan skatt, sem vissulega er lítill og auðvitað er fjarri lagi að halda fram að hafi áhrif til gengislækkunar, — það hefur hæstv. viðskmrh. rækilega útskýrt, — að það eigi sérstaklega að falla frá honum, þá er ég ekki alveg viss um, að það sé raunveruleg skoðun hv. framsóknarmanna, að umfram allt eigi að falla frá þessum skatti. Þeir hafa verið á móti öllum þeim till., sem fluttar hafa verið um það að afla ríkissjóði tekna eða létta af honum útgjöldum, og ég hefði haldið, a.m.k. miðað við þá till., sem þeir fluttu við 2. umr. fjárl., að þetta væri ekki endilega sá skatturinn, sem þeir legðu mesta áherzlu á, að fallið væri frá. Auðvitað veit ég, að hv. þm. er það glöggur maður, að hann veit, að 10 millj. kr. greiðsluafgangur á fjárl. við 2. umr. fjárl., — ég er ósköp hræddur um, að hann eigi eftir að fjúka, og það er vitanlegt, að ýmis útgjöld bíða, sem verður ljóst um, þegar frv. kemur til 3. umr. Og það er jafnframt ljóst og hefur ekki verið gagnrýnt af neinum, að áætlanir þær um tekjur ríkissjóðs á næsta ári, að svo miklu leyti sem hægt er að gera nákvæmar áætlanir, eru í hámarki, og það hefur ekki verið dregin undan þar nokkur króna, miðað við þær áætlanir, sem Efnahagsstofnunin hefur gert, þannig að hér teflum við auðvitað á fremstu nöf, og mundi ég miklu fremur vilja játa þá gagnrýni, sem hv. stjórnarandstæðingar hafa borið fram á fjárlagaafgreiðsluna, að hún væri ógætileg að þessu leyti, heldur en hitt, að teknanna þyrfti ekki með.

Varðandi farmiðagjaldið vil ég taka það fram, að það hefur ekki verið nákvæmlega sagt frá í blöðum þeim orðum, sem ég hef látið um það falla. Auðvitað gerði maður sér grein fyrir því í stórum dráttum, hvað það gjald mundi gefa, og vissum úrræðum til að leggja það á. Hitt er alveg rétt, og má leggja mér það til lasts eftir atvikum, að á þessu gjaldi eru ýmsir annmarkar. Það er eftir því, hvernig á að leggja það á. og það kom fram á því ýmiss konar gagnrýni og ábendingar um einstök atriði í því sambandi, sem gerðu það að verkum, að það yrði jafnvel talið nauðsynlegt að hafa þar undanþágur meiri en upphaflega var gert ráð fyrir, þegar ég gerði grein fyrir þessum tekjustofni. Ég skal fúslega játa á mig þá sök, ef menn telja það nokkra sök, að ég hafi lagt til. að þetta gjald væri á lagt, og ég skal jafnframt taka það fram enn, að ég álit, að þetta gjald sé mjög sanngjarnt og eðlilegt, og get þar vísað til þess, sem ég sagði í minni fjárlagaræðu, og málefnalega stendur mín skoðun í því efni algerlega óbreytt. Hér var auðvitað um hreinan lúxusskatt að ræða. En það má segja, að það sé á vissan hátt gleðiefni fyrir okkur, að þróunin í þjóðfélaginu sé orðin þannig, að það sé talið eðlilegt, að allur þorri þjóðfélagsborgara geti veitt sér það að fara til útlanda. Fyrir ekki mörgum árum var almennt í vissum blöðum talað um lúxusflakk til útlanda, og þótti þá sem það væri mikill munaður, og vissulega er þetta einhver mesti munaður, sem við veitum okkur, það skulum við játa. Hitt er svo allt annað mál, að vilja gjarnan veita sér þennan munað. En þegar er verið að leita að úrræðum til þess að afla nýrra tekna, er kannske ekki óeðlilegt, að slíkra leiða sé leitað, og það skal jafnframt játað, að það hefur komið fram á þessu gjaldi ýmiss konar gagnrýni og það m, a. innan stjórnarflokkanna, það er líka rétt, þannig að það er þarna samspil ýmissa orsaka, sem veldur því, að það hefur verið horfið frá þessu gjaldi og inn á þá leið, sem hér hefur verið gerð grein fyrir. Þessi leið hefur aldrei verið mér neitt trúaratriði, eins og ég gerði grein fyrir við 1. umr. fjárl., heldur taldi að sjálfsögðu ríkisstj. sér þá þegar skylt að benda á leiðir, sem hún teldi færar til þess að afgreiða greiðsluhallalaus fjárlög, en ekki það, að hún teldi ekki með nokkru móti hægt að hugsa sér, að það væru einhverjar aðrar leiðir til, sem gæti verið almennari samstaða um. Þetta er nú efni málsins.

Hv. 11. þm. Reykv. sagði, að ríkisstj. væri sómi að því að hverfa frá því, sem sýndi sig af almennri gagnrýni að væri rangt, og auðvitað er sjálfsagt að breyta til, ef menn telja, að rangt hafi verið gert. Það er ég honum algerlega sammála um. Um þau dæmi, sem hann nefndi í þessu sambandi, að ríkisstj. hefði hörfað annars vegar vegna kaupbindingarl. á sínum tíma og hins vegar vegna síldveiðideilunnar í sumar, veit hv. þm. það eins vel og ég, að sá tilgangur, sem að var stefnt með báðum þessum lögum, náðist með öðrum hætti með samkomulagi, og það getur aldrei verið neitt höfuðmál að þvinga endilega í gegn löggjöf, ef hægt er að leysa mál með friðsamlegum hætti og samkomulagi. Þetta vitum við öll, og ég tel, að það hefði verið miður farið að vera að knýja fram lög eins og t.d. kaupbindingarl., eftir að það lá ljóst fyrir, að það var hægt að ná samkomulagi um, að breytingar yrðu ekki gerðar eða kröfur fram bornar eða knúin fram verkföll á þeim tíma, sem þessi binding átti að gilda.

Varðandi svo það, sem bæði hv. 11. þm. Reykv. og hv. 5. þm. Austf. tóku fram, að kröfugerðin stefni afkomu okkar atvinnuvega í hættu, er ég þeim báðum algerlega sammála um það og ég er þeim sömuleiðis sammála um það, að dýrtíðaraukningin er alvarleg og það er hin mesta nauðsyn að spyrna þar gegn fótum. Ég er hins vegar ekki sammála hv. 5. þm. Austf. um það, að ríkisstj. hafi enga tilburði sýnt í þessu efni. Það hefur verið tekið upp víðtækara samstarf við launþegasamtök en nokkru sinni áður, að ég hygg, í raunveruleikanum hefur verið upp tekið til þess að reyna að fá þar einhverja samstöðu til þess að taka á kjarna málsins, því að eins og ég sagði í fjárlagaumr., tjóar auðvitað ekki, að við tölum hér um dýrtíð og andstöðu gegn dýrtíð og annað þess konar, ef við viljum ekki í alvöru horfast í augu við kjarna dýrtíðarvandamálsins og þess samspils, sem þar er um að ræða, heldur reynum að blekkja okkur með því, að það sé hægt að leysa þetta mál með einhverjum einföldum leiðum, sem helzt komi ekki við neinn. Það er auðvitað algerlega út í hött. Við leysum ekki vandann þannig. En það er hárrétt, sem 5. þm. Austf. sagði, að það er fyrst og fremst hinn mikli afli og hið góða verðlag okkar útflutningsvöru, sem hefur komið í veg fyrir stórfelld vandræði hjá útflytjendum, vegna þess að dýrtíðin hefur aukizt meira en góðu hófi gegnir. Þetta er hárrétt. Og það er auðvitað tímabundið, hvað slíkt getur gengið, þannig að ríkisstj. getur áreiðanlega tekið undir það og hefur reyndar æ ofan í æ gert, að hún varaði við þeim afleiðingum, sem samspil kauphækkana og verðhækkana til skiptis hlýtur að hafa og valda okkur hinum mestu erfiðleikum. Þetta er hins vegar ekki íslenzkt vandamál sérstaklega. Það leysir auðvitað ekki okkar vanda að standa andspænis því. En það virðist svo, að jafnvel erlendis víða sé þróunin að verða stórstígari en hefur áður verið í ýmsum löndum. En það breytir ekki hinu, að það væri mjög ömurlegt, einmitt vegna þess, hvað við búum við mikið góðæri, ef við gætum ekki haldið svo á okkar efnahagsmálum, að það væri hægt að tryggja traustan grundvöll framleiðslunnar og eðlilega þróun í útgjaldamálum ríkisins og efnahagsmálum þjóðarinnar yfirleitt. Undir þetta skal ég fullkomlega taka. En það tjóar ekki, eins og ég hef áður sagt, að leyna fyrir sér kjarna málsins og tala almennt um þetta, eins og þetta sé hægt að gera með einhverjum einföldum hætti, sem ekki snerti neinn, og vilja ekki horfast í augu við þann vanda, sem þegar er við að fást og er sannarlega ekki nýr í sambandi við okkar fjárlagaafgreiðslu nú. Það er gamalt mál. Og ég man eftir, að á sínum tíma meira að segja var það vandamál svo mikið hjá vinstri stjórninni, að þá var lagt fram fjárlagafrv., án þess að það væri talinn möguleiki þó að gegna þeirri — ég vil segja frumskyldu ríkisstjórnar, að gera grein fyrir því, hvernig hún ætlaði sér að jafna hallann á fjárlögum. Ég er ekki að saka hana um það, að þessi halli hafi verið. Það leiddi af þróuninni, sem þá var, alveg eins og það leiðir af þróuninni nú, að við stöndum andspænis halla, en að sjálfsögðu kemst ríkisstj. ekki hjá því að jafna þann halla og gera tillögur um það. Hún verður að sæta þeirri gagnrýni, sem hún fær. En ef menn vilja vera ábyrgir, eins og hv. stjórnarandstæðingar tala um í öðru orðinu, tjóar ekki aðeins að tala um það í öðru orðinu, en vilja svo ekki viðurkenna staðreyndir í hinu.