15.12.1965
Efri deild: 30. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 473 í B-deild Alþingistíðinda. (286)

89. mál, innflutnings- og gjaldeyrismál

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það er kannske ástæða til þess að þakka hæstv. síðasta ræðumanni fyrir hugmyndir að nýjum sköttum, hvort sem inn á þær brautir verður farið eða ekki. En það er a. m. k, gott til þess að vita, ef hann og hans flokkur, þegar þar að kemur, tekur við fjármálunum, að það verða þá einhver bjargráð, sem kannske varða veginn inn á „hina leiðina“. En sleppum því.

Hv. þm. sagði, að það væri einkennilegt, að ég skyldi ekki sem fjmrh. tala fyrir þessu máli, heldur hæstv. viðskmrh. Ég býst við, að hann geri sér fulla grein fyrir því sem mjög lærður lögfræðingur, að það lá í rauninni í eðli málsins, því að hér er í rauninni um að ræða málefni, sem að forminu til heyrir undir hæstv. viðskmrh., löggjöfin um gjaldeyris- og innflutningsmál, en alls ekki af því að ég væri að koma af mér einhverri skyldu, sem mér væri óljúft að gangast við. Ég skal fúslega gangast við því og tel það ekkert launungarmál, og ekki mun hæstv. viðskmrh. neitt hafa verið að leyna því heldur, að hér er auðvitað um að ræða tekjuöflunarmál fyrir ríkissjóð. Það liggur í augum uppi, og það hefur verið skýrt frá því og engin dul á það dregin, að þetta frv., sem hér er um að ræða, kemur í staðinn fyrir farmiðaskattinn, sem fyrirhugaður var. Ég man ekki nákvæmlega þau orð mín, sem hann vitnaði til, að ég hefði fullyrt, að frá þeim skatti yrði alls ekki horfið, og þar af leiðandi þori ég ekki að hafa uppi nein andmæli gegn því. En það er auðvitað alltaf hæpið að taka of djúpt í árinni, og ég vil ógjarnan gera það og tel það miður farið, ef ég hef sagt það afdráttarlaust, vegna þess að eins og ég sagði við 1. umr. fjárl., var farmiðaskatturinn ein af þeim hugmyndum, sem frammi voru um, hvernig ætti að jafna halla fjárlaganna. Ég tók það hins vegar skýrt fram í fjárlagaræðu minni, að það væri ekki um að ræða neina úrslitakosti, ef mönnum sýndist við nánari athugun, að aðrar leiðir væru þar færari, þá væri að sjálfsögðu ekkert trúaratriði fyrir mig nein viss tegund af þeim tekjuöflunarleiðum, sem þar væru farnar. Og það hefur komið á daginn, að af ýmsum ástæðum hefur verið talið heppilegra að fara þessa leið, sem hér hefur verið valin. Skal ég ekki fara út í þá sálma að öðru leyti en því, að persónulega get ég lýst því yfir, að ég álít, að farmiðaskatturinn sé mjög eðlilegur og réttlátur skattur, að svo miklu leyti sem skattar geta nokkurn tíma verið það. Menn eru yfirleitt aldrei sérlega af þeim hrifnir, hvers eðlis sem þeir eru. En hvað um það, það varð niðurstaðan samt að fara þessa leið, sem hér hefur verið valin. En sé það eitthvað á huldu fyrir hv. þm., sem hv. 3. þm. Norðurl. v. vildi álita, hvers eðlis þetta mál væri, þá taldi ég mér skylt að taka það fram, að hér er auðvitað beinlínis um að ræða fjáröflun til að leysa vanda ríkissjóðs

Það kemur mér að sjálfsögðu ekkert á óvart, enda í samræmi við afstöðu hv. framsóknarmanna í sambandi við afgreiðslu fjárl. nú, að þeir hafa verið andvígir öllum úrræðum til þess að jafna halla fjárlaga, þannig að það út af fyrir sig vekur ekkert undrun mína, að hv. þm. lýsir því yfir, að hann og hans flokkur sé andvigur þessu máli. Út í þá sálma skal ég ekkert frekar fara.

Varðandi það atriði, að hv. þm. taldi, að það væri einhver blekking í því fólgin hjá hæstv. viðskmrh. að segja, að hér væri um smávægilegt gjald að ræða — (Gripið fram í) ja, smávægilegt gjald, afgreiðsluþóknun, eða hvað það er kallað, að þetta væri smávægilegt gjald, sem um væri að ræða í þessu sambandi, þá er það óneitanlega smávægilegt gjald, þegar við athugum það, að það er reiknað með gjaldeyrissölu á 7000 millj. kr., sem þetta komi niður á, þannig að hugleiðingar um það, að annaðhvort sé hér um að ræða, eins og kom fram í hv. Nd., fyrsta skref til gengislækkunar eða hér sé um að ræða einhver stórfelld áhrif til hækkunar á vöruverði í landinu, eru náttúrlega hvorar tveggja alveg út í hött.

Ég sé ekki ástæðu, herra forseti, til að orðlengja frekar um þetta mál, en vil segja það eitt, og taka undir það með hv. þm., sem hann sagði í lok síns máls, að vissulega vonum við öll, að hvorki þetta né aðrar ráðstafanir, sem nauðsynlegt er að gera í okkar efnahagsmálum vegna þeirrar þróunar, sem í þeim hefur verið. þurfi að leiða til gengisbreytingar. Ég hygg, að allir hv. þm. séu sammála um það, og þetta frv. er að sjálfsögðu ekkert spor í þá átt. Hér er um að ræða, svo sem hæstv. viðskmrh. sagði, — við getum sagt: smávægilegt afgreiðslugjald, svo að ég noti hans orð, sem er heimilað innan ramma Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem að öðru leyti hefur mjög strangar reglur um það, að þess sé gætt, að ekki sé farið inn á neinar þær aukaálögur á gjaldeyri, sem taldar verði til gengisbreytingar.

Ég held svo, að ég hafi ekki ástæðu til að orðlengja frekar um málið, en vonast til þess, að hv. 3. þm. Norðurl. v. telji, að ég hafi nægilega viðgengizt þessu frv., til þess að hann geti verið ánægður með þau orð mín, sem ég hef hér mælt.