09.02.1966
Sameinað þing: 26. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í D-deild Alþingistíðinda. (2881)

74. mál, verkefna- og tekjustofnaskipting milli ríkisins og sveitarfélaganna

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það er ekki ætlun mín að fara að gera hér aths. við ræðu hv. 1. þm. Norðurl. e., enda situr það sízt á mér, af því að allmikið af því, sem hann sagði, tók hann upp úr ræðu, sem ég hafði flutt á þingi sveitarfélaga eða ráðstefnu þeirra, og að öðru leyti það, sem hann hafði til þessara mála að leggja og rökstuddi sína till. með, get ég fullkomlega tekið undir, enda er hann manna kunnugastur málefnum sveitarfélaga og hefur þar lengi verið í forsvari. Ástæðan til þess, að ég stend hér upp, er aðeins til þess að gera grein fyrir því, hvað gerzt hefur í þessum málum.

Hann vék að því, að þing það, sem hann minntist á, eða ráðstefna sveitarfélaganna um fjárhagsmál þeirra, hefði tekið undir þá þáltill., sem þeir hv. þm. Framsfl. nokkrir hafa hér flutt og er hér til umr., og má segja, að það sé rétt og satt. En ég vil þó, vegna þess að hann vitnaði í ræðu mína, sem flutt var að morgni þess dags, sem þessari þáltill. var útbýtt í Alþ., taka það skýrt fram, svo að það valdi ekki misskilningi, að ég er ekki með því að halda fram, að þeir hafi ekki haft alveg sína sjálfstæðu skoðun um það mál, en hafi ekki sótt neina vizku til mín um það. En þó vildi svo til, að í þessari sömu ræðu, sem hv. þm. vitnaði í, komst ég svo að orði, með leyfi hæstv. forseta, eftir að hafa vikið að þeim samskiptum, sem hv. þm. hér alveg réttilega gerði grein fyrir:

„Sú spurning hlýtur að sjálfsögðu að vakna, hvort þessi hlutverkaskipting sé eðlileg, bæði að því er greiðsluhlutfall snertir og þá eigi síður hitt, hvort ekki gæti verið heppilegra, að samaðild þessi væri á færri sviðum, þannig að annar hvor þessara aðila tæki að sér að öllu leyti að greiða kostnað við vissa þjónustu eða framkvæmdir og hinn aðilinn við aðrar. Hef ég heyrt raddir um þetta efni frá ýmsum sveitarstjórnarmönnum, og er ég að sjálfsögðu reiðubúinn til að hafa forgöngu um athugun þessa máls í samvinnu við Samband ísl. sveitarfélaga, ef forráðamenn sambandsins óska eftir því. Getur raunar verið, að af ríkisins hálfu verði talið nauðsynlegt að athuga ýmsa þætti þessara mála, en ég tel æskilegt, að sú athugun sé í náinni samvinnu við sveitarfélögin.“

Sveitarfélagaþingið gerði síðan þá ályktun, sem hv. þm. hér réttilega vitnaði til, og í framhaldi af þeirri ályktun og með hliðsjón af því, sem ég hafði lýst í minni ræðu, fól ég tveimur embættismönnum, annars vegar úr fjmrn. og hins vegar úr félmrn., að hefja viðræður við stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga til þess að kanna nánar hugmyndir sambandsstjórnarinnar og skoða það, hvaða leiðir kæmu helzt til greina í þessum efnum.

Ég hygg sannast sagna, að af hvorugum aðilanna, hvorki af hálfu ríkisins né af hálfu sveitarfélaganna, hafi það verið hugsað nákvæmlega niður í kjölinn, hvernig hagkvæmast væri að koma þessu fyrir, og það var þess vegna mjög æskilegt að taka viðræður upp á því stigi, að þetta væri kannað af hálfu rn. annars vegar og sveitarfélagasambandsins hins vegar.

Þetta vildi ég aðeins upplýsa, áður en þessi till. er tekin til meðferðar í n., og teldi mjög æskilegt, að till. yrði rædd, sem ég geri ráð fyrir raunar, að n. muni gera, við stjórn Sambands ísl. sveitarfélaga, því að ég er ekki alveg viss um á þessu stigi, áður en þessi mál eru rædd innan þessara samtaka, — og þar veit ég m.a. að hv. 1. flm. hennar hefur góða aðstöðu til þess að koma sínum sjónarmiðum að, — er ég ekki viss um, hvort það væri æskilegt, að

Alþ. fastmótaði þau vinnubrögð, sem eftir yrði farið í þessum efnum. Ég tel það grundvallarþýðingu, að þarna sé lögð traust undirstaða að aðferð í vinnubrögðum, og ég er a.m.k. á þessu stigi ekki sannfærður um það, að þessi leið sé æskileg, þótt okkur greini alls ekki á um það, að rétt sé og nauðsynlegt, að athugun þessarar fjölþættu verkaskiptingar fari fram, m.a. til þess að gera sér grein fyrir, hvort hægt er að koma þessu fyrir með einfaldari hætti.

Þetta taldi ég rétt, herra forseti, aðeins að kæmi hér fram, til þess að menn vissu, að það hefur þegar hafizt athugun málsins, og það verður þá skoðað á grundvelli þess, sem þegar kann að hafa gerzt í því, hvort hyggilegt sé að velja þá leið, sem hér er lagt til, eða halda athuguninni áfram eitthvað fyrst um sinn á embættismannagrundvelli, ef svo má segja, eins og nú þegar hefur verið lagður, því að í það hafa af ríkisins hálfu verið settir þeir menn, sem fróðastir eru og færastir til þess og þekkja bezt til samskipta ríkis og sveitarfélaga.