15.12.1965
Neðri deild: 31. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 485 í B-deild Alþingistíðinda. (304)

91. mál, fjárhagur rafmagnsveitna ríkisins

Frsm. meiri hl. (Davíð Ólafsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft þetta mál til athugunar, og m.a. komu á fund n. þeir Jakob Gíslason raforkumálastjóri og Jón Sigurðsson deildarstjóri í atvmrn., sem hafa mikinn kunnugleika af þessum málum, og veittu n. ýmsar upplýsingar um ýmis fjárhagsatriði rafmagnsveitna ríkisins, sem snerta þetta frv. N. varð hins vegar ekki sammála um afgreiðslu frv., og mæli ég því hér fyrir hönd meiri hl., en nál. meiri hl. er að finna á þskj. 181.

Þannig er, að á undanförnum árum hafa rafmagnsveitur ríkisins og héraðsrafmagnsveitur ríkisins verið reknar með miklum halla og vaxandi halla, sem mun nú, eftir því sem upplýst er í aths. við frv., vera kominn yfir 50 millj. kr. á ári. Þessi halli hefur ýmist verið jafnaður með lántökum eða hann hefur komið fram í skuldasöfnun við ríkissjóð eða ríkisábyrgðasjóð, þar sem ríkisábyrgðasjóður hefur orðið að taka á sig greiðslu vaxta og afborgana af lánum, sem tekin hafa verið vegna rafmagnsveitna ríkisins. Á þennan hátt hafa hins vegar safnazt allmiklar upphæðir vanskilaskulda og óumsaminna skulda.

Skuldir rafmagnsveitna ríkisins og héraðsrafmagnsveitna ríkisins eru áætlaðar við árslok 1965 samtals um 847 millj. kr. Þar af eru erlend lán 439 millj. kr. og innlend föst, umsamin lán 143 millj. kr. önnur innlend lán eru svo 264 millj. kr., en af þessari síðasttöldu upphæð eru lán veitt úr ríkissjóði skv. heimild í 22. gr. fjárl. um 57 millj. kr., um 99 millj. kr. lán af eigin fé raforkusjóðs og loks 97 millj. kr. skuld við ríkisábyrgðasjóð, sem fallið hefur á sjóðinn, vegna þess að rafmagnsveitur ríkisins hafa ekki getað staðið í skilum með sín lán.

Þessi þróun rekstrarhalla og skuldasöfnunar verður að teljast óviðunandi fyrir slík fyrirtæki sem hér er um að ræða, og það er ánægjulegt, að nú skuli þó sýndur nokkur vottur þess að koma fjárhag þessara mikilvægu þjónustufyrirtækja á heilbrigðan grundvöll, en að því stefnir það frv., sem hér liggur fyrir. En ráðstafanir þær, sem þar er gert ráð fyrir, munu verða til þess að bæta fjárhag rafmagnsveitna ríkisins og héraðsrafmagnsveitna ríkisins. Þar er um að ræða ferns konar ráðstafanir, þar sem þrjár þeirra gera ráð fyrir eftirgjöfum á höfuðstól eða frestun á greiðslum afborgana og vaxta af þeim skuldum, sem ég gat um hér að framan, þ.e.a.s. 252 millj. af þeim 254, sem voru skuldir innanlands og mátti telja lausaskuldir eða óumsamdar skuldir, þ.e. eftirgjöf á höfuðstól og vaxtagreiðslum af lánum ríkissjóðs samkv. 22. gr., frestun á greiðslum fyrst um sinn á afborgunum og vöxtum af lánum raforkusjóðs, en það er þó gert ráð fyrir því, að þær upphæðir komi inn í raforkusjóð aftur síðar meir, þegar rafmagnsveitur ríkisins og héraðsrafmagnsveitur ríkisins eru þess umkomnar að greiða þær skuldir, því að það er ekki ætlazt til þess, að raforkusjóður líði fyrir það, þannig að hann missi algerlega það fé, sem þarna hefur verið úr honum greitt, og loks eftirgjöf á greiðslum höfuðstóls og vaxta af skuld við ríkisábyrgðasjóð, þar er um algera eftirgjöf að ræða. Í fjórða lagi er svo gert ráð fyrir því, að rafmagnsveitur ríkisins og héraðsrafmagnsveitur ríkisins fái auknar tekjur, er nægi til að greiða rekstrarhalla veitnanna. Um þetta atriði var þegar getið í aths. við þann lið í fjárlfrv., sem fjallar um rafmagnsveitur ríkisins. Þessi tekjuauki er ætlað að fáist samkv. 4. gr. frv., en samkv. ákvæðum þeirrar gr. er þeim fyrirtækjum, sem selja raforku í heildsölu, gert að greiða verðjöfnunargjald til rafmagnsveitu ríkisins og héraðsrafmagnsveitna ríkisins og miðist gjaldið við magn afls og orku, sem hlutaðeigandi aðili hefur til sölumeðferðar. Það er gert ráð fyrir, að þessar tekjur verði á árinu 1966 35 millj. kr., en síðan er gert ráð fyrir árlegri endurskoðun verðjöfnunargjaldsins og sé með þeirri endurskoðun komið í veg fyrir, að gjaldið hækki með vaxandi raforkusölu, eins og tekið er fram í aths. við frv., þannig að heildargjaldið miðist við 35 millj. kr.

Eins og ég gat um áður, munu þessar ráðstafanir verða til þess að bæta fjárhag rafmagnsveitna ríkisins og héraðsrafmagnsveitna ríkisins og vinna á móti þeirri hallarekstrarþróun, sem verið hefur hjá þessum fyrirtækjum og verður að teljast óeðlileg og óviðunandi. Með þessum ráðstöfunum telur meiri hl. n. að stefnt sé í rétta átt og leggur því til, að frv. verði samþ., en gerir þó tillögur um tvær breyt., sem ekki hrófla við meginefni frv. Þær till. er að finna á þskj. 182.

Hin fyrri fjallar um breyt. á 10. gr. frv., þeirri gr., sem fjallar um gerðardóminn, 4. mgr. þeirrar gr., þar sem gert er ráð fyrir breytingunni, að gerðardómurinn starfi, eins og þar segir, á þeim stað, þar sem mæling sú, sem ágreiningurinn ris um, fer fram, og setur sér sjálfur starfsreglur. Um þetta vildi ég segja það, að ég mundi vilja taka þessa till. aftur til 3. umr. til nánari athugunar með tilliti til þess, að nákvæmar verði orðað, hvað við er átt, þegar talað er um „á þeim stað“, en átt er við, að það sé í því lögsagnarumdæmi, þar sem mæling sú, sem ágreiningur rís um, fer fram. Mun meiri hl. n. taka þetta til athugunar fyrir 3. umr., þannig að þessi brtt. er þá tekin aftur til 3. umr.

Seinni brtt., nr. 2 á þessu sama þskj., er við 11. gr. frv., þar sem bætt er við greinina, eins og hún er núna, að reglugerðin, sem gert er ráð fyrir að ráðh. sé heimilt að setja, þar sem nánari ákvæði verði sett um verðjöfnunargjaldið samkv. l., sú reglugerð skuli sett að fengnum till. Sambands ísl. rafveitna. Þar er um að ræða samtök, sem allar rafmagnsveitur, einnig rafmagnsveitur ríkisins, eru aðilar að, og það þykir ekki óeðlilegt, að þegar settar verði nánari reglur um framkvæmd þessara laga, verði leitað álits þessa aðila, Sambands ísl. rafveitna.

Meiri hl. n. leggur til, að frv. verði samþ. með þessum breytingum.