10.11.1965
Sameinað þing: 10. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í D-deild Alþingistíðinda. (3092)

52. mál, rannsóknarskip í þágu sjávarútvegsins

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Ég vil í tilefni af því, að þetta mál liggur nú hér fyrir, lýsa yfir undrun minni yfir því, hvernig haldið hefur verið á þessu máli nú um langa hríð. Það er búið að vefjast fyrir stjórnarvöldum landsins nú í nærri 8 ár að gera kaup á fiskirannsóknarskipi, þó að búið væri að tryggja öruggan tekjustofn til að standa undir þeim hluta, sem líkur bentu til að ríkið yrði að greiða í sambandi við skipskaupin. Ég beitti mér fyrir því á árinu 1958, að tekinn væri upp sérstakur tekjustofn í þessu skyni, og þá þegar var sá undirbúningur kominn í gang í sambandi við málið, sem gerði það kleift að ganga frá kaupum á þessu skipi á tiltölulega stuttum tíma, ef skilningur og vilji hefði verið fyrir hendi. Það hefur því allan þennan tíma ekki staðið á því, að það væru til fjármunir af hálfu ríkisins til að leggja í skipið. En það er eitthvað annað, sem hér hefur tafið. Nú sjá menn, að til eru um 14 millj. kr. í sjóði, en sú fjárhæð gerir fyllilega frá hálfu ríkisins að vera nægileg til að gera kaup á slíku skipi með þeim almennu útborgunarreglum, sem eru í sambandi við skipakaup erlendis frá, því að hvaða einstaklingur svo að segja sem er hefur átt auðvelt með að geta fengið lán upp í 70% af andvirði skipanna, og líklega hefði ríkið átt að geta það líka.

Ég vil vænta þess, að núv. hæstv. sjútvmrh. sjái, hve illa hefur verið haldið á þessu máli nú um langa hríð, og hann taki nú rögg á sig og hrindi málinu í framkvæmd. En jafnhliða því legg ég áherzlu á það fyrir mitt leyti, að það verði einnig ráðizt í kaup á síldarleitarskipi. Hér er um tiltölulega auðveldan hlut að ræða, og kæmu þar bæði til greina skip, sem fáanleg eru innanlands, og einnig erlendis frá, og meira að segja sum þau skip, sem hafa verið í þjónustu ríkisins og þyrftu ekki ýkjamikilla breytinga við til að geta þjónað þessu starfi allvel, ef ríkið legði fram nokkra fjárhæð til umbóta á slíkum skipum. En það er alveg augljóst mál, að það þarf nú þegar á sérstöku síldarleitarskipi að halda, sem er við slík störf árið um kring.

Ég vænti svo þess, að hæstv. sjávarútvegsmálaráðherra sjái um það að gera reka að því að undirskrifa kaupsamning á fiskirannsóknarskipi og einnig að semja um kaup á sérstöku síldarleitarskipi.