27.04.1966
Sameinað þing: 41. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í D-deild Alþingistíðinda. (3226)

111. mál, bifreiðaferja á Hvalfjörð

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er vissulega rétt, að Hvalfjörður er leiðinleg lykkja á leið margra frá Reykjavík og norður um land og til Vestfjarða. En þó er naumast hægt að telja hann torfæru lengur fyrir þann, sem ferðast vill um landið, og mörg er torfæran verri á íslenzku vegakerfi heldur en þessi leið. Samt fagna ég því, að athugun sé gerð á því, hvernig megi auðvelda umferðina og fullnægja betur þörfum umferðarinnar á þessu svæði, og þótti fróðlegt að heyra þá áætlun, sem hæstv. samgmrh. gerði hér grein fyrir varðandi hugmyndina um ferju yfir Hvalfjörð, 113 millj. kr. stofnkostnaður og 1314 millj. kr. rekstrarkostnaður. Þetta eru háar upphæðir miðað við það litla fjármagn, sem íslenzka ríkið getur lagt til vegamála í heild, og hygg ég því, að það gæti talizt nokkuð mikið átak til þess að leysa þó ekki meiri vanda en hér er um að ræða að verja eitthvað á 2. hundrað millj. kr. í stofnkostnað til þess að koma þarna á ferjusambandi. Nú er þessari umferðarþörf aðallega mætt með því að reka fólksflutningaskip milli Akraness og Reykjavíkur, og að öðru leyti ganga vöruflutningar landleiðina fyrir Hvalfjörð. Að því er snertir Akranes, sem á ríkra hagsmuna að gæta í sambandi við þetta mál, er sem sé skipinu haldið uppi með miklum halla, aðallega til þess að annast fólksflutningana. Vöruflutningarnir hafa farið í þann farveg, að vörur eru fluttar með stórum vöruflutningabílum landleiðina fyrir Hvalfjörð, og sú leið er valin fremur en að flytja vörurnar með skipinu, sem þó er haldið úti. Næstu árin verður þetta áreiðanlega svona.

Mér dettur í hug, að hægt væri að leysa a.m.k. verulegan þátt þessa vandamáls með öðru móti, þ.e.a.s. koma greiðara fólksflutningasambandi á milli Reykjavíkur og Akraness og komast þannig fram hjá Hvalfirði með því að fara fram hjá farartálmunum, eins og hv. fyrirspyrjandi sagði, en fara upp í loftið til þess að komast fram hjá þessum farartálmum, og þá dettur mér í hug farartæki, sem Íslendingar eiga ákaflega erfitt með að tileinka sér að nota, þ.e.a.s. þyrilvængjan, sem hvorki kostaði flugvallargerð Akranesmegin né hér, gæti tekið sig upp og lyft sér yfir þetta fjarðarsvæði, sem hér er um að ræða, og a.m.k. haldið uppi sambandi milli Reykjavíkur og Akraness á hálftíma fresti, án þess að dýr mannvirki væru gerð og án þess að þar kæmi til annað en stofnkostnaður slíkrar þyrilvængju og rekstrarkostnaður hennar, sem ég get varla ímyndað mér að væri eins mikill og úthald þess skips, sem hér er haldið uppi eingöngu vegna fólksflutninganna. Ég held því, að landfræðileg aðstaða, sem hér er, þessi langi fjörður, þessi langa lykkja á landleiðinni, en örstutt bil milli Reykjavíkur og Akraneskaupstaðar, bjóði því heim a.m.k., að þessi úrlausn málsins væri reynd, og ég held, að það væri ekki mjög áhættusamt fyrirtæki að reyna þetta. Ég a.m.k. leyfi mér í sambandi við þetta mál að varpa fram þeirri hugmynd, hvort hæstv. ríkisstj. vildi ekki athuga þá lausn, að tekið væri upp fast samband með þyrilvængju til fólksflutninga frá Reykjavík til Akraness. Maður getur sagt að vísu, að það sé aðallega til að leysa samgöngumál Akurnesinga og Reykvíkinga, en allmikið fjölmenni er það, sem fengi úrlausn á þessum samgönguvandamálum með þessu móti. En einnig gætu margir af þeim, sem færu milli Norðurlands og Reykjavíkur og Vestfjarða og Reykjavíkur, e.t.v. kosið það að fara eingöngu með bifreið sína til Akraness og ganga svo að henni þar aftur, en vippa sér yfir sundið í loftinu.