28.02.1966
Neðri deild: 47. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 605 í B-deild Alþingistíðinda. (385)

123. mál, útflutningsgjald af sjávarafurðum

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Það var ofur augljóst af þeirri yfirlýsingu, sem ég áðan gaf, að þá var verið að svara erindum tveggja þeirra samtaka, sem þar voru tilgreind. Erindi um þetta efni höfðu þá ekki borizt og hafa ekki borizt enn frá öðrum aðilum en Sjómannasambandi Íslands og Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands. Í þessari yfirlýsingu var lofað að reyna að ná samkomulagi um þetta tiltekna atriði. Og æskilegustu leiðina til samkomulags frá félagslegu sjónarmiði tel ég hiklaust vera þá, að sjómenn gætu borið gæfu til þess að vera sem mest í einum allsherjarsamtökum; sem færu með þeirra málefni. En áður en lagabreyting um þetta efni á sér stað og meðan á könnunin stendur, verður áreiðanlega aðalverkefni þeirra athugana það, með hverjum hætti eðlilegast verður að skipta því fé, sem samkomulag yrði um, að til þessara samtaka sjómanna rynni.