10.03.1966
Efri deild: 48. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 658 í B-deild Alþingistíðinda. (474)

136. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forsetl. Það er í framhaldi af síðustu orðum hv. þm., hv. 4. þm. Norðurl. e., er hann segir, að það komi sér mjög spánskt fyrir sjónir, eins og hann segir, eða hann lýsir furðu sinni á því, að ráðh. skuli vísa til aðila úti í bæ um hluti, sem eigi að vera og séu löggjafaratriði og á valdi Alþ. að ákveða. Nú gerði ég það ekki. Ég vísaði ekki til neinna aðila um það. Hins vegar vil ég minna hv. þm. á það, af því að við áttum þá báðir hlut að máli um slíka samningagerð við þáv. hæstv. ríkisstj. og milligöngu hennar um ákveðna samninga hér árið 1955. hverjum augum hann hefði litið það, ef sú hæstv. ríkisstj., sem þá sat að völdum, hefði í einhverju breytt því, sem okkur var lofað, mér og honum, sem áttum þá sameiginlega sæti í samninganefnd verkalýðsfélaganna, um ákveðin atriði, sér í lagi í sambandi við atvinnuleysistryggingasjóð. — hverjum augum hann hefði litið það, ef ríkisstj. hefði ekki staðið við þau loforð. Það, sem hér hefur gerzt, er, að ríkisstj. hefur lofað því að beita sér fyrir samþykkt þeirra frv. við þá samningsaðila, sem hér áttu hlut að máli og ég hef margtekið fram. Geri ríkisstj. það ekki, munu aðilar áreiðanlega telja sig óbundna af þessu samkomulagi. Samkomulagið grundvallast á því, að þessi frv. verði samþ. Það er það fyrirheit ríkisstj.. sem er verið að standa við með flutningi þessa frv. Nákvæmlega eins og við hefðum þá orðið hjartanlega sammála um að meta það brigð, ef ekki hefði verið staðið við þau loforð, sem voru gefin í hinni stóru og miklu vinnudeilu, sem þá var háð, mundu aðilar á sama hátt meta þetta í dag. Ég vitna nú til þessa atriðis, af því að við áttum sérstaka og ágæta samvinnu um að knýja þessi loforð fram þá, og við hefðum verið hjartanlega sammála um að meta það brigð og svik við það samkomulag, sem þá var gert, hefði ekki verið við þetta staðið. Það er nákvæmlega sama sagan, sem hér er að endurtaka sig.