17.03.1966
Efri deild: 51. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 670 í B-deild Alþingistíðinda. (480)

136. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Umfram þær umr., sem fram fóru hér við 1. umr. málsins, tel ég ekki þörf mikilla aths. við þær ræður, sem síðan hafa verið haldnar, en vildi þó leitast við að svara tveim fsp., sem sérstaklega var til mín beint.

Það var í fyrsta lagi sú fsp. hv. 5. þm. Reykn.. hvort þeim, sem við samningsborðið sátu í yfirnefnd verðlagsráðs sjávarútvegsins, hafi verið frá því skýrt, hvaða leið ríkisstj. ætlaði til lausnar þeim fjárhagsvanda, sem samkomulagið hljóðaði um. Ég hygg, að þetta sé nokkuð efnislega rétt eftir haft um spurninguna. Þessu er til að svara, að ég hef reynt að afla mér upplýsinga um þetta síðan, að samningsaðilum öllum var greinilega frá því skýrt, að um þrjár leiðir væri að velja, eins og frá er skýrt í lok grg. fyrir þessu frv., og einhverja þessara leiða yrði ríkisstj. að fara. En það, hver af þessum þremur leiðum yrði valin, mun hins vegar nm. ekki hafa verið tilkynnt um, enda kom málið ekki í hendur ríkisstj., fyrr en samninganefndirnar eða yfirnefnd verðlagsráðsins hafði gengið frá sínu samkomulagi, sem var að áskildu því, að ríkisstj. féllist á staðfestingu á því samkomulagi, sem m.a. feist í þessu frv., þannig að það er alls ekki um nein griðrof að ræða hér eða farið á bak við þá aðila, sem þarna eiga hlut að máli, því að þeir víssu, að einhverja af þessum þremur leiðum yrði að velja.

Í öðru lagi er spurt að því: Verður skipting hagræðingarfjárins með sama hætti og verið hefur undanfarin ár? Þá er því til að svara samkv. því, sem ég hef nýjastar upplýsingar um, að í öllum viðræðum yfirn. var gengið út frá því, að skiptingin yrði óbreytt um þessa hluti. Breyting frá því, sem gilt hefur á s.l. ári, gæti því hæglega af a.m.k. öðrum aðilanum, þ.e.a.s. fiskkaupandanum, verið talin rof á endanlegri niðurstöðu þess samkomulags, sem gert var. Og þessu svaraði ég reyndar við fyrri umr. málsins, því að þetta atriði bar þá einnig á góma, að ég teldi, að ekki væri unnt að fara inn á neinar verulegar eða meiri háttar breytingar á skiptingu þessa fjár frá því, sem áður hefur gilt, ef það reyndist svo, að yfirn. hefði gengið út frá því, að sömu reglur giltu áfram. Og það hef ég fengið staðfest nú, að í öllum viðræðum n. var gengið út frá því, að skiptareglurnar yrðu óbreyttar.

Þessum tveimur atriðum vildi ég svara. Mér er einnig kunnugt um það, að á meðan á umr. yfirnefndarinnar og viðræðum aðila stóð, kom upp sú till. þar, að féð, hið umrædda hagræðingarfé, rynni allt til stofnlánadeildar sjávarvegsins. Þessu var mjög kröftuglega mótmælt af fiskkaupendum í n., og þeir lögðu á það áherzlu, eins og ég áðan sagði, að skiptareglurnar yrðu þær sömu og skiptingin yrði falin þeim sömu aðilum og verið hefur undanfarin ár. Ég tel að öðru leyti ekki þörf á að bæta við þær skýringar mínar, sem ég gaf við 1. umr. málsins, og það, sem kom þá fram hjá hæstv. fjmrh., því að þar tel ég, að flestum þeim atriðum, sem fram komu í framsöguræðum hv. stjórnarandstæðinga nú, hafi verið svarað.