28.03.1966
Neðri deild: 60. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 692 í B-deild Alþingistíðinda. (498)

136. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Frsm. minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Ég hef skilað sérstöku nál. á þskj. 370 um mál þetta. Í því nál. kemur fram, að ég er ekki andvígur þeim greiðslum, sem gert er ráð fyrir að ríkissjóður inni af höndum til útgerðarinnar samkv. þessu frv. Mér er ljóst, að ríkisstj. hefur átt aðild að samkomulagi við samtök útvegsmanna um þessar greiðslur, og það verður ekki undan því vikizt að standa við það samkomulag, sem þar hefur verið gert. Það er ekki gott að gera sér fyllilega grein fyrir því, hvort bein þörf hefði verið á að greiða þessar fjárhæðir allar, en það tel ég ekki skipta hér höfuðmáli. Ríkisstj. hefur hins vegar látið þess getið í sambandi við flutning þessa frv., að hún hugsi sér að fella niður ýmsar niðurgreiðsluupphæðir á vöruverði og standa þannig fyrir því að hækka vöruverð í landinu með þeim afleiðingum, sem það hefur. Ég er algerlega mótfallinn þessum fyrirhuguðu ráðstöfunum ríkisstj., sem hún tengir við þetta frv., og af því taldi ég nauðsynlegt að víkja að því sérstaklega í nál. og gera þar fulla grein fyrir því, að ég er andvígur þessum ráðstöfunum, sem ríkisstj. þykist þurfa að grípa til í sambandi við samþykkt þessa frv. En að öðru leyti mun ég ekki greiða atkv. gegn frv., af því að suma liði þess gæti ég stutt, en aðrir eru þess eðlis, að ég dreg nokkuð í efa, að rétt hefði verið að samþykkja þá.

Ég hef áður lýst því hér, að ég tel, að það sé mjög óheppilegt að haga stuðningsgreiðslum til togaraútgerðarinnar í landinu á þann hátt, sem gert hefur verið. Ég tel, að það ætti að greiða mun hærri bætur fyrir þann útgerðartíma togaranna, sem þeir eru reknir fyrir innanlandsmarkað, en fyrir þann tíma, sem þeir eru reknir beinlínis fyrir útsiglingar. Og ég tel einnig, að það hefði verið þörf á því að hafa annan hátt á um dreifingu þess fjár, sem á að ganga til frystihúsanna, en gert er ráð fyrir í þessu frv. En þegar þetta mál hefur verið hér til afgreiðslu áður, hefur ekki þýtt að sýna brtt. í þá átt, og hef ég því ekki flutt neinar hrtt. við þessa grein frv. að þessu sinni.

Um þá till., sem flutt er hér af tveimur hv. þm. á þskj. 385 um að veita sérstaka heimild til þess að greiða viðbótaruppbætur á línu- og handfærafisk fyrir síðustu mánuði s.l. árs, vil ég segja það, að till. um þetta efni hefur ekki verið rædd í sjútvn., og ég teldi eðlilegt, að till. væri því tekin aftur til 3. umr. og n. fengi tækifæri til að ræða þessa till. Hins vegar skal ég lýsa því yfir, að ég er meginefni till. samþykkur.

Ég tel ofur eðlilegt, að það séu greiddar nokkru hærri uppbætur fyrir þessa síðustu mánuði en fyrri mánuði ársins, og með sérstöku tilliti til þess, að það var sannanlega varið lægri fjárhæð í þessu skyni en ráð var fyrir gert, tel ég ofur eðlilegt, að heimild í þá átt, sem felst í þessari till., sé veitt. En hvort þessa heimild á að binda nákvæmlega við 3 síðustu mánuði ársins eða kannske eitthvað lengri tíma, það er mál, sem þyrfti að athuga betur.

Ég hef þetta svo ekki lengra um afstöðu mína til málsins. Ég mun ekki greiða atkv. gegn frv.. tel ýmsa þætti þess þannig, að það sé eðlilegt að samþykkja þá, en er ekki fullkomlega samþykkur öllum þáttum frv., en er fyrst og fremst andvígur því, hvernig ríkisstj. hugsar sér að afla fjár í þessu skyni.