31.03.1966
Neðri deild: 62. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í B-deild Alþingistíðinda. (507)

136. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Guðlaugur Gíslason:

Herra forseti. Hv. 2. landsk. drap hér á það réttilega, að það mundi vera undir velvilja hæstv. fjmrh., hvort þarna yrði um nokkrar aukauppbætur að ræða eða ekki, ef þessar till. yrðu samþ. Þetta er alveg rétt. Ég tel þess vegna, að þar sem aðeins er um heimildarákvæði að ræða, megi fjmrh. mjög gjarnan einnig fá heimild til þess að athuga, hvort ekki sé ástæða til þess að greiða einnig uppbætur á fisk veiddan á tímabilinu frá 1. jan. til 30. júní. Það er hans að dæma um, hvort ríkissjóður er bær um það eða hvort fjármagn er til þess, og ef það skyldi sýna sig, að fjármagn væri til til þess, tel ég það mjög eðlilegt, að hann fái einnig heimild til þess að greiða uppbætur fyrir þetta tímabil eins og síðari hluta ársins. Ég gat þess, að Fiskifélagið hefði veitt mér þessar upplýsingar um, að greiddar hefðu verið 14.4 millj. í uppbætur á línu- og handfærafisk árið 1965. Ég skal geta þess til viðbótar, sem mér láðist að geta áðan, að sá aðili, sem ég þar talaði við og fékk þessar upplýsingar hjá, taldi, að þegar öll kurl væru komin til grafar, gætu þessar uppbætur kannske farið upp í 15 eða 15.1 millj., að hann gizkaði á, þannig að þarna er raunverulega um 7—8 millj. kr. afgang að ræða, ef miðað er við áætlunarupphæðina 22 millj. kr.