31.03.1966
Neðri deild: 62. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 697 í B-deild Alþingistíðinda. (508)

136. mál, ráðstafanir vegna sjávarútvegsins

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Út af þeim ummælum, sem hv. 3. þm. Sunnl. hafði hér áðan, vil ég vekja athygli hv. þm. á því, að ef fjmrh. telur og ríkisstj., að hún geti ekki notað heimildina í ríkari mæli en það að greiða 3—4 millj. kr. í uppbætur á handfæra- og línufisk, og eftir að sú till. er komin fram frá 6 af 7 nm. í sjútvn. að greiða þessar uppbætur frá 1. júlí til áramóta, en ef till. hv. 3. þm. Sunnl. yrði samþ. og ekki yrði hér um meira fé að ræða en þetta, verður maður að segja eins og er, að þessar uppbætur eru lítils virði, ef þær eiga að koma á allt árið.

En það, sem öllu máli skiptir, er það, hvað er réttlátt að gera í þessu máli og hvað ekki. Við höfum lýst því yfir, flm. till., hv. 2. landsk. þm. og ég, að við teljum, að þessar uppbætur eigi að ná til þess tímabils, eftir að stórfelld hækkun varð á útgerðarkostnaði, eftir að samningar voru gerðir við verkalýðsfélögin, og þess vegna sé margfalt meiri þörf á því að bæta upp þann hluta ársins, eftir að hækkanir urðu, og kæmi þá útgerðinni, sem stundaði þessar veiðar, að meiri notum en útþynna þessa litlu fjárhæð á allt árið. Ég vænti þess því, að hv. þd. skilji það, að með þessari till. okkar höfum við farið fram á, að það verði greiddar um það bil 3 1/2 millj. kr. til útgerðarmanna, sem stundað hafa handfæra- og línufisk síðari hluta ársins. Okkar upprunalega till. var miðuð við 1. okt., og vildum við miða hana við haustið. Sjútvn. hefur aftur flutt hér brtt., sem ég fyrir mitt leyti get mjög vel fellt mig við, að miða þessar uppbætur við 1. júlí. Það kemur útgerðinni og sjómönnum að sama skapi miklu betur, að þeir fái uppbætur, eftir að stórfelld breyting varð á útgerðarkostnaði og hækkun á vöruverði gagnvart sjómannastéttinni og útgerðarmönnum líka, heldur en þynna þessa till. út upp á allt árið, eins og hv. 3. þm. Sunnl. leggur til.