22.02.1966
Neðri deild: 44. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í B-deild Alþingistíðinda. (518)

122. mál, skógrækt

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Á síðasta Alþ. flutti Oddur Andrésson, varaþm., ásamt fleirum till. um það að skora á ríkisstj. að hlutast til um, að flutt verði frv. til l. um skjólbelti. Frv. það, sem hér er til umr., er samið í tilefni þessarar þál. og hefði vitanlega getað orðið án hennar, en till. rak eigi að síður á eftir, að þetta frv. er til orðið.

Það hefur lengi verið í norðanverðri og vestanverðri Evrópu unnið að því að koma upp skjólbeltum til þess að auka gróðurinn. Er talið, að skjólbeltin geri mikið til þess að auka gróðurinn, auka vöxtinn og þá sérstaklega þar, sem veður eru óstöðug og kuldasamt. Það er talið, að hitastigið verði hærra á hinu skýlda svæði en á berangri, að minni hætta sé á næturfrostum í hinu skýlda svæði, að hiti jarðvegsins í 15—20 metra dýpi verði hærri á hinu skýlda landi, að gróður verði öruggari og örari vegna örari starfsemi plöntunnar í skjóli en þegar næðingur er og að áhrifa skjólbeltanna gæti meira, þar sem er óstöðug veðrátta, vindasamt og kuldasamt, en þar sem veðrátta er stöðug og hlýviðri, og það er þess vegna, sem í norðanverðri Evrópu hefur sérstaklega verið ástundað að gera skjólbelti.

Í seinni tíð hafa Íslendingar gert sér ljóst, hvers virði það er fyrir þjóðina að vernda gróðurinn og auka gróðurinn, að koma í veg fyrir það, að jarðvegurinn fjúki í burt, eins og hann hefur gert öldum saman. Það er vitað, að á landnámsöld og áður var landið miklu gróðursælla en það hefur verið í seinni tíð, að þá var samfelldur gróður allt upp í 600 m hæð, og það var ekki fyrr en landið hafði verið í byggð nokkurn tíma, að uppblásturinn fór að gera vart við sig. Fróðir menn hafa talið, að svo hafi verið komið okkar málum um síðustu aldamót, áður en sandgræðslan tók til starfa, að ef ekki hefði verið hafizt handa, hefðu heil héruð lagzt í auðn og síðar á fáum öldum hefði sá gróður og jarðvegur, sem í landinu er, horfið víðast hvar, en eftir hefði staðið jarðvegslaus klettaeyja hér norður í hafi. Þetta hefði orðið ömurlegt hlutskipti. En nú dettur engum í hug, að þetta verði, vegna þess að það hefur verið spyrnt við fótum, sandgræðsla ríkisins hefur unnið þrekvirki í meira en hálfa öld, og nú er komin sókn í stað undanhaldsins og jarðvegurinn og gróðurinn verndaður. Á síðasta þingi voru sett lög um gróðurvernd og landgræðslu, og í seinni tíð hefur verið aukið það fé, sem varið er til gróðurverndar, uppgræðslu og ræktunar. Skógræktin hefur einnig fengið talsvert fé til umráða, enda eru flestir sammála um, að hún gegni í meginatriðum því hlutverki að binda gróðurinn, vernda jarðveginn, skapa skjól og gera allan vöxt jurtanna örari og loftslagið betra en áður.

Um skjólbelti er lítið að ræða hér á landi enn sem komið er. Þótt aðeins hafi verið byrjað á því á stöku stað, er það tæplega umtalsvert enn sem komið er. En skjólbeltin hafa eigi að síður miklu hlutverki að gegna hér í framtíðinni, ekki síður en á hinum Norðurlöndunum og víðar í Norður-Evrópu. Það er enginn vafi á því, að skjólbeltarækt hér á landi getur orðið mjög þýðingarmikil. Þess vegna er það gott, að þetta frv. er fram komið. Það verður vonandi gert að lögum. Reynslan sýnir svo, hvernig bezt verður að haga sér í þessari starfsemi. Hún sýnir, hverju þarf við að bæta síðar meir, og hún sýnir einnig, hvað rétt verður að verja miklu fjármagni til þessara mála, þegar stundir líða.

Frv. þetta er í 10 greinum og skv. 1. gr. frv. er lagt til, að ríkissjóður styrki ræktun skjólbelta, eftir því sem fé verður veitt til á fjárlögum hverju sinni. Og skv. 2. gr. er kveðið svo á, að skógræktarstjóri hafi yfirumsjón þessara mála. 3. gr. kveður svo á, að allir ábúendur lögbýla, garðyrkjubýla og félagsbundin samtök um ræktun korns og garðávaxta geti komið til greina til þess að njóta styrks. Þá er gert ráð fyrir því, að þessir aðilar skuli hafa til umráða minnst 10 hektara lands í samfelldri ræktun.

Skv. 4. gr. er styrkur því háður, að skógarvörður og héraðsráðunautur hafi mælt með landinu, sem tekið er til ræktunar. Og þá er kveðið svo á, að það skuli ekki veittur styrkur, fyrr en vissum áfanga er náð, þannig að það sé sýnilegt, að rétt hafi verið að farið, og það, sem gert hefur verið, beri árangur.

Þá er ákveðið í 5. gr., hvernig skuli með fara girðingar og annað, sem þessi mál snerta, og að það sé hægt að endurkrefja styrkinn, ef misbrestur verður á vörzlu skjólbelta, þannig að því sé spillt, sem áður hefur verið gert.

Í 6. gr. er ákveðið, hversu styrkurinn megi nema miklum kostnaði, en það er gert ráð fyrir, að hann megi vera 1/3 af girðingarkostnaði og helmingur af gróðursetningarkostnaði.

Þá er ekki mikið meira um frv. að segja. Það skýrir sig sjálft og ætti því ekki að vera þörf að hafa fleiri orð um það að svo stöddu, en ég er einn í hópi þeirra, sem gera sér vonir um, að lagasetning á þessum grundvelli geti orðið til þess að örva hér ræktun og margs konar gróður og þess vegna beri að lögfesta þetta frv.

Herra forseti. Ég vil leggja til, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. landbn.