18.02.1966
Efri deild: 38. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 714 í B-deild Alþingistíðinda. (538)

106. mál, atvinnuleysistryggingar

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Síðari hluta árs 1955 var hér á landi mikil vinnudeila og um leið ein sú lengsta og víðtækasta deila, sem nánast tók til landsins alls. Við lok þessarar áhrifamiklu kjaradeilu var samið um eitt mikilvægt nýmæli í kjarasamningum hér á landi. Þáverandi hæstv. ríkisstj. gaf samningsaðilum fyrirheit um að beita sér fyrir lagasetningu um, að stofnaður skyldi sérstakur atvinnuleysistryggingasjóður, sem hálfu ári seinna eða hinn 7. apríl 1956 var endanlega staðfest með lagasetningu um atvinnuleysistryggingasjóð, og eiga lög þessi því nú um þessar mundir 10 ára afmæli. Óhætt er að fullyrða, að án tilkomu þessara laga um sjóðinn hefði þá ekki verið samið um þá kauphækkun, sem endanlega var þó um samið. Af þessu tilefni vil ég gefa eftirfarandi upplýsingar, sem ég hef reynt að afla mér nú um starfsemi sjóðsins til síðustu áramóta. En til 31. des. 1965 hafði sjóðsstjórnin samþykkt verðbréfakaup og lán eins og hér segir:

1) Bréfakaup og óbein fyrirgreiðsla vegna íbúðarlána 230.6 millj. kr.

2) Hafnarbótalán 83.2 millj.

3) Til fiskiðnaðar 85.1 millj.

4) Vegna annars iðnaðar 38.2 millj.

5) Til félagsheimila verkalýðsfélaganna 26.8 millj.

6) Lán til Reykjavíkurborgar, aðallega hitaveitulán. 38.2 millj., og önnur smærri lán 13.5 millj.

Samtals hefur því sjóðurinn lánað í þessu skyni 515.6 millj. kr. En sjóðurinn stendur nú þannig í dag, að í verðbréfum eru 399,5 millj., í bönkum og lögbundnum sjóðum 237,2 millj. og í innheimtu — þar af er gert ráð fyrir, að 60% verði innheimt við reikningslok — um 100 millj. Sjóðurinn stendur því í dag skv. þessu yfirliti í 736,7 millj. kr.

Af þessu yfirliti má glögglega sjá, að sjóðurinn hefur veitt mikilsverða fjárhagsaðstoð til atvinnu- og félagsmála. — aðstoð, sem fullyrða má að hefði orðið á ýmsan veg annan, svo að ekki sé meira sagt, ef sjóðsins hefði ekki notið við.

Í þeim umr., sem fram fóru við stofnun sjóðsins hér á hv. Alþ., í dagblöðum og á mannfundum. var mikil áherzla á það lögð, að æskilegasta hlutverk sjóðsins yrði það að koma með fjárveitingum sínum í veg fyrir atvinnuleysi. Þessu hlutverki hefur sjóðsstjórnin gegnt samkv. gildandi lagaákvæðum á þann hátt, sem framangreint yfirlit her með sér, auk sjálfra atvinnuleysisbótanna. Í upphaflegum lögum um sjóðinn, sem enn eru óbreytt að öllu öðru leyti en því, að árið 1958 var samþ. breyt. á stjórnaraðild sjóðsins, var gert ráð fyrir endurskoðun laga um hann innan tiltekins tíma. Með bréfi, dags. 28 sept. 1960, skipaði þáv. félmrh. Emil Jónsson. 5 manna n. til að endurskoða lögin. N. starfaði lengi og vann að mjög ýtarlegri endurskoðun á hinum einstöku ákvæðum l. Samkomulag náðist hins vegar ekki um afgreiðslu frv. N. samdi samt sem áður frv. og

skilaði því til rn. um miðjan marz 1964, en tveir nm., þ.e. fulltrúar Alþýðusambandsins og vinnuveitenda, skiluðu hvor um sig séráliti og gerðu grein fyrir sérskoðunum sinum. Þessi sérálit svo veigamikilla aðila um grundvallaratriði hafa til þessa komið í veg fyrir flutning þessa frv.

En helztu breytingar umrædds frv. frá gildandi lögum voru þessar: 1) Hálfar vaxtatekjur leggist við stofnsjóðinn. 2) Lögbinda beri reglur um ráðstöfun á handbæru fé sjóðsins. 3) Auk þeirra verkalýðsfélaga, sem l. ná nú til, skyldu þau enn fremur gilda um félög verzlunarfólks. 4) Einfaldari reglur um færslu tekna sjóðsins á sérreikninga verkalýðsfélaganna. 5) Rýmkuð skilyrði fyrir bótarétti, m.a. með breyttum ákvæðum um biðtíma. 6) Upphæð atvinnuleysisbóta verði hin sama og upphæð slysabóta. 7) Felld er niður krafa gildandi l. um ríkisábyrgð á lánum til sérreikninga, þegar stofnfé á sérreikningi er þrotið til bótagreiðslna. 3) Ýmsar minni háttar breytingar, m.a. til samræmis við skattalög o.s.frv.

Svo sem fyrr er greint, er það ágreiningur Alþýðusambandsins og vinnuveitenda, sem torveldað hefur flutning þessa frv., þótt almennt feli það í sér allveigamiklar endurbætur frá gildandi l. Eðlilegt virðist að reyna enn að brúa það bil, sem þarna er á milli, en óeðlilegt er að taka upp umr, hér nú um þessi ágreiningsatriði.

Svo sem í upphafi var sagt, ólu margir með sér þær vonir, að sjóðurinn, gæti, er honum yxi fiskur um hrygg, komið með lánastarfsemi sinni í veg fyrir atvinnuleysi. Það hefur hann vissulega gert, svo sem fyrrgreint yfirlit ber með sér. Ýmsum og þá fyrst og fremst forsvarsmönnum verst stæðu sveitarfélaganna og framámönnum verkalýðsfélaga í þeim héruðum hefur hins vegar fundizt sem forsendur fyrir lánum úr sjóðnum eða sjálf lánaskilyrðin væru of þröng. Sérstaklega er þar átt við það. að engin heimild er í l. um að mega veita beina styrki eða vaxtalaus lán til þeirra staða, sem átt hafa við verulegt og langvarandi atvinnuleysi að stríða. Samkv. gildandi l. má því aðeins veita lán, að sett sé fyrir því öruggt veð eða trygging og/eða ríkisábyrgð. Staðreynd er það hins vegar, að einmitt þeir staðir, sem átt hafa við langvarandi atvinnuleysi að stríða, eru jafnframt verst settir með útvegun fullnægjandi veða eða trygginga og ábyrgða. 1 umr. um það frv., sem hér liggur fyrir til umr. og aðdraganda þess hefur einnig verið bent á þann möguleika. að atvinnuleysistryggingasjóður lánaði atvinnubátasjóði slík lán upp að fyrir fram ákveðnu marki, en sá sjóður hefur lagaheimild til slíkra styrkja og gæti endurlánað hlutaðeigandi aðilum.

Niðurstaðan af hugleiðingum þessum er það frv., sem hér er nú til umr. Eins og þar kemur fram, yrði með samþykkt þess rýmkaður að nokkrum mun möguleikinn fyrir lántöku fyrrgreindra aðila, þótt viðurkenna verði, að ekki sé þar fullnægt óskum margnefndra byggðarlaga. Þá er í frv. einnig gert ráð fyrir, að fella megi niður vexti og afborganir af lánum um lengri eða skemmri tíma, og einnig, að ekki þurfi aðrar tryggingar fyrir lánum þessum en

einfalda ábyrgð hlutaðeigandi sveitarfélags. Tvímælalaust er hér því um að ræða stóraukið hagræði þeirra sveitarfélaga, er undir heimild þessa falla.

Mál þetta var á undirbúningsstigi borið undir stjórn atvinnuleysistryggingasjóðs, og kom þar ekki fram sérstök andstaða við frv., eins og það er nú flutt. Vitað er, svo sem fyrr er fram komið, að ýmsar fleiri breytingar eru nauðsynlegar taldar á frv., eins og t.d. hækkun bóta vegna atvinnuleysis upp í allt að sömu upphæð a.m.k. og slysabætur, og margar fleiri breytingar hafa heyrzt nefndar. Það hefur hingað til tekizt að halda allgóðum frið um 1. um atvinnuleysistryggingar og alla framkvæmd þeirra, sem er út af fyrir sig ómetanlegt. Þess vegna er a.m.k. nú af rn. hálfu ekki lagt til, að lengra sé gengið en frv. ber með sér. N. sú, sem frv. fær nú til meðferðar, gerir að sjálfsögðu sínar athuganir á málinu, og er rn. fúst til þess að veita henni þá aðstoð eða upplýsingar, sem mögulegt er.

Ég legg svo áherzlu á, að frv. fái sem skjótasta afgreiðslu, og tel ekki þörf á að ræða það efnislega frekar en þegar er gert, þar sem sjóðsstjórnin er einmitt um þessar mundir að gera áætlun um útlán þessa árs og því nauðsynlegt, að hún viti sem fyrst niðurstöður málsins hér á hv. Alþ.

Herra forseti. Ég legg til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. heilbr. og félmn.