02.12.1965
Sameinað þing: 15. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í B-deild Alþingistíðinda. (62)

1. mál, fjárlög 1966

Matthías Bjarnason:

Herra forseti. Ég skal aðeins segja hér örfá orð út af ræðu hv. 3. þm. Vesturl. Í þær tölur, sem ég fór hér með til samanburðar við fjárlög 1958 og til samanburðar við það fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir til umr., tók ég aðeins örfá atriði að gefnu tilefni í frumræðu hv. þm. hér í dag. Hann fór að reikna út aftur hlutfallstölu í fjárveitingum og tók þar til viðbótar fleiri atriði. Hann hefði gjarnan mátt taka með og minna á framlög til félagsmála, en þau eru nú 872.9 millj., en voru 1958 106.4 millj. Annars er ekki það sem gildir og hinn rétti útreikningur að segja, hvaða hlutfall er á hinum ýmsu greinum fjárl. nú eða 1958, heldur er rétti samanburðurinn sá, hvað voru margar kr. til þessa eða hins 1958 og nú, og taka svo síðan tillit til þeirra verðbreytinga, sem hafa orðið á peningum síðan. Og þegar ég segi það, að styrkir til byggingar allra skóla í landinu eru í fjárlfrv. nú 99.23 millj. kr., en voru á árinu 1958 13.359 millj. kr., tel ég, að núv. ríkisstj. geti verið hæstánægð með þann samanburð, hvernig svo sem þessi hv. þm, reynir að reikna út hlutföllin á hinum ýmsu gr. fjárl. Hann sagði það margoft nú í sinni ræðu, að ég hefði verið ánægður með þetta eða hitt, eins og hann tiltók. Ég sagðist vera hæstánægður með þann samanburð, sem ég gerði á hinum einstöku liðum. Hins vegar tók ég það fram í minni ræðu, að ég hefði talið, að mörg framlög mættu gjarnan vera hærri, en það er takmörkum háð, hversu hátt er hægt að fara og hversu mikið er hægt að gera í framkvæmdum í þjóðfélaginu hverju sinni. Þetta er það sama og hefur alltaf gerzt áður, því að við Íslendingar viljum flýta okkur mikið, gera mikið og byggja upp sem allra hraðast. En um það verður ekki deilt, að á þessum síðustu árum hefur meira verið gert í þessu þjóðfélagi, bæði af ríkinu, sveitarfélögum, félagasamtökum og einstaklingum, en nokkru sinni fyrr. Um það getum við verið sammála, ef við viljum vera sanngjarnir, að þetta er staðreynd, sem við megum vera mjög ánægðir með.

Hins vegar er ýmislegt, sem betur má fara. og ýmsir erfiðleikar til í okkar þjóðfélagi. Við erum mjög ánægð með mikinn hluta af fiskiskipaflota okkar. Það hefði ekki verið hægt að fiska alla þá síld, sem fiskuð hefur verið, ef þjóðfélagið hefði ekki gert útvegsmönnum kleift að fá lán til þess að byggja upp fiskiskipaflotann, og sem betur fer hefur meginþorra síldveiðiflotans vegnað vel á undanförnum árum og alveg sérstaklega nú á þessu ári. Hins vegar hvílir sá skuggi yfir, að minni útgerðin, sem stundar bolfiskveiðarnar, hefur ekki borið neitt nálægt því sama úr býtum, vegna þess að fiskverðið á bolfiskinum hefur hækkað hlutfallslega miklu minna en allar síldarafurðir. Það eru erfiðleikar, sem þjóðfélagið á við að stríða og verður ekki hægt að kenna ríkisstj. neitt um frekar en öðrum. Afurðir bolfisksins hafa ekki hækkað á erlendum markaði eins og útgerðarkostnaðurinn hefur hækkað innanlands, og það eru þeir erfiðleikar, sem nú er við að glíma og þarf að ráða bót á. En í heild verðum við að segja það, að meginþorra útgerðarinnar hefur vegnað vel, betur en nokkru sinni fyrr, nú síðustu þrjú árin. Það hefur orðið framleiðsluaukning í þessu landi, og uppbygging fiskiskipaflotans er auðvitað fyrst og fremst að þakka því, að einstaklingarnir og félagasamtökin í útvegsmannastétt hafa haft trú á þessum atvinnuvegi og þjóðfélagið hefur gert þeim kleift að eignast þessi skip með því að útvega lán fyrir 2/3 af kaupverði skipanna.

Ég ætla svo ekki að orðlengja þetta frekar. En mér þykir leitt, þó að ég hafi sagt hér í heldur gamansömum tón, að þeir ágætu félagar mínir í fjvn., þessir þrír, ættu að fá sér ráðskonu eins og þrjár nafngreindar söguhetjur í gamanleik, að þm. skuli hafa tekið það á þann veg, að ég væri að uppnefna hann og þá félaga. Ég hélt, að það hefði farið það á milli okkar í léttum tón, að hann kynni að taka því eins og það væri sagt, en bera sig ekki svo aumlega sem hann gerði í sinni ræðu yfir þessari tilvitnun minni, sem ég taldi ósköp saklausa og í gamansömum tón.