24.03.1966
Efri deild: 55. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 801 í B-deild Alþingistíðinda. (623)

11. mál, fuglaveiðar og fuglafriðun

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Ég hef ekki blandað mér í umr. um þetta mál til þessa, enda er aðeins örlítið atriði, sem mig langaði að koma að í sambandi við umr. um málið, áður en það er afgreitt héðan úr þessari hv. þd.

Ég hef að undanförnu lesið frásagnir tveggja gamalla sægarpa og sjósóknara, sem stunduðu sjó hér fyrr meir og reyndar annar þeirra allt fram til síðustu ára, og báðir þessir aðilar, sem eru kunnir aflamenn, fullyrða það, að ákveðnar tegundir fugla eyðileggi hér árlega mikið af ungviði, fiskiungviði við landið, sérstaklega á tilteknum, ákveðnum svæðum, þar sem um uppeldisstöðvar sé að ræða. Nú er það, að ég veit ekki hvernig n. hefur unnið að undirbúningi málsins, hvort hún hefur rætt við fiskifræðinga um t.d. skaðsemi ákveðinna fuglategunda eða hvort þeir telja, að svo sé. Þetta eru að vísu aðeins fullyrðingar, sem byggðar eru þó, að ætla verður, á mikilli reynslu þessara öldnu garpa, og ef það stefnir ekki málinu í neina hættu, mundi ég vilja leggja fram þá ósk, að n. frestaði nú um sinn endanlegri afgreiðslu málsins, ef tök væru á því að fá álit fiskifræðinga á því, hvert sannleiksgildi þessara fullyrðinga sé. Ef ákveðnar tegundir fugla reynast í þessu tilfelli jafnskaðsamlegar og þarna er fullyrt og þar við bætist svo sá skaði, sem þeir valda á landi, þá getur afstaða manna til tilveru þeirra æðimikið breytzt. Það er sem sagt í fáum orðum sagt ósk mín til n., ef hún vildi taka það að sér að eiga tal um þetta við fiskifræðinga, áður en málið hlýtur endanlega afgreiðslu, hvort þeirra álit sé, að um skaðsemi af þessum tilteknu fuglategundum sé að ræða fyrir fiskuppeldisstöðvar okkar.