22.04.1966
Neðri deild: 75. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 858 í B-deild Alþingistíðinda. (749)

182. mál, síldarleitarskip

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Mér þykir leitt að þurfa að leiðrétta þá ræðu hjá hv. 4. þm. Reykn., sem hann var hér að halda, en hann hefur áður sýnt sig áhugasaman um smíði hafrannsóknarskips. En ég fæ ekki betur séð af þeim lögum, sem hann vitnaði til, en hér sé um algeran misskilning að ræða af hans hendi. Síldarleitarskip og hafrannsóknarskip í þessu tilfelli eru alveg aðskilin mál. og það, sem 10. gr. umræddra laga, sem hann vitnaði til, segir um þetta efni, er svo hljóðandi:

„Útflutningsgjald af íslenzkum sjávarafurðum samkv. 1. gr. l. nr. 66 frá 1957 skal innheimt með 65% álagi. Álag þetta renni til Fiskveiðasjóðs Íslands að 11/13 hlutum, til fiskimálasjóðs að 1/13 hluta og að 1/13 hluta til haf og fiskirannsóknaskips, er ríkisstj. lætur byggja í samráði við fiskideild atvinnudeildar Háskóla Íslands.“

Nú hefur í öllum umr. fiskifræðinganna og þá ekki sízt Jakobs Jakobssonar verið lögð á það megináherzla og í vaxandi mæli undanförnum árum að aðskilja þessa tvenns konar starfsemi fiskirannsóknanna og nánast væri útilokað að hafa nema að örlitlu leyti að skip, sem til síldarleitar færi og síldarrannsókna, í þágu almennra hafrannsókna kringum landið. Þess vegna hefur á það verið lögð áherzla bæði af útvegsmönnum og öðrum, að sérstakt síldarleitarskip yrði smíðað, og það er sú niðurstaða, sem ég vitnaði til áðan í minni framsöguræðu, sem fram kom í samþykkt L.Í.Ú. Það er einmitt gert á þeirri forsendu, að þrátt fyrir tilkomu hafrannsóknaskipsins, sem umrædd lög gera ráð fyrir, muni það ekki fullnægja síldarleitinni. Þess vegna er lagt til, að sérstakt síldarleitarskip sé smíðað, og eins og kom fram einnig í minni framsögu, var það á þeim forsendum af hálfu útgerðarmanna og sjómanna, að nauðsynlegt sé, að síldarleit standi nú yfir árið um kring. Það er því alger misskilningur hjá hv. þm., að hér sé um eitt og sama málið að ræða. Útboðslýsingar, sem nú er verið að ganga endanlega frá varðandi hafrannsóknaskipið, munu verða birtar nú inna örfárra vikna, og er smíði þessa skips, sem u rætt frv. gerir ráð fyrir, algerlega óviðkomandi og nánast lítt skyld mál.