05.04.1966
Efri deild: 61. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í B-deild Alþingistíðinda. (774)

181. mál, almennur frídagur 1. maí

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta er ekki mikið að vöxtum eða efnislega flókið. Um langt árabil barðist íslenzk verkalýðshreyfing fyrir því að fá hátíðisdag sinn, 1. maí, viðurkenndan sem almennan frídag í samningum, en án árangurs. Um síðir tókst þó að fá umrædda viðurkenningu, og kemur nú engum til hugar að brjóta þá hefð, sem um daginn hefur skapazt. Opinber viðurkenning eða lagaleg staðfesting hefur hins vegar til þessa ekki fengízt á því, að 1. maí skuli vera almennur frídagur þjóðarinnar.

Um þessar mundir eru merkileg tímamót í sögu verkalýðshreyfingarinnar á Íslandi, þegar heildarsamtök A.S.Í. hafa lokið hálfrar aldar starfi. Í tilefni þessara merku tímamóta verkalýðssamtakanna ákvað ríkisstj. að leggja þetta frv. fyrir Alþ. til lagalegrar staðfestingar á þessu atriði í baráttusögu verkalýðssamtakanna í þágu þjóðfélagsins í heild á liðnu 50 ára starfstíma.

Ég vænti þess, að frv. fái greiðan framgang hér í hv. þd. og að um það þurfi ekkí að vera deilur. Það er till. mín, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til hv. heilbr.- og félmn.