15.04.1966
Efri deild: 64. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 907 í B-deild Alþingistíðinda. (842)

119. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það var aðeins í tilefni af fsp. hv. 9. þm. Reykv., hvort hefði verið leitað álits þeirra sveitarfélaga, sem þetta sérstaka mál einkum snertir. Og í sambandi við það get ég upplýst, að þetta mál er þannig til komið, að það var einmitt fyrir ósk þeirra sveitarfélaga, sem þetta mál einkum varðar, að það var tekið upp innan sveitarfélagasambandsins og viðræður hafnar við rn. um það, að gerðar yrðu breytingar á útsvarsl. til þess að bæta nokkuð aðstöðu þessara sveitarfélaga, og enda þótt ég viti ekki, hvort hafi verið haft beint samband við öll þau sveitarfélög, sem þetta varðar, er mér kunnugt um það, að í þeirri n., sem einmitt Samband ísl. sveitarfélaga skipaði til þess að hafa samráð við rn. um undirbúning þessa frv., voru fyrst og fremst bæjarstjórar eða sveitarstjórnaroddvitar einmitt úr þeim sveitarfélögum, sem málið varðar, og að því er mér er tjáð af sambandinu, hafi þetta verið endanlegt samkomulag þessara aðila um lausn málsins á þennan hátt, þannig að ég hygg, að það megi óhætt fullyrða, að málið er til komið fyrir atbeina þessara sveitarfélaga einmitt og efnislega sé frv. í samræmi við það, sem þau hafi talið a.m.k. viðunandi fyrir sig til lausnar á þessu máli, þá að sjálfsögðu með hliðsjón af þeim heildarhagsmunum, sem hér er um að ræða. Vitanlega snertir þetta öll sveitarfélög landsins að meira eða minna leyti, eins og hv. þm. raunar réttilega tók fram.