25.10.1965
Efri deild: 6. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 924 í B-deild Alþingistíðinda. (873)

13. mál, vélstjóranám

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég er sannfærður um, að hér er um hið þarfasta mál að ræða. Gildandi lög um vélstjóranám eru eflaust fyrir löngu orðin úrelt, eins og hæstv. ráðh. tók fram í sinni ræðu. Ég fagna því, að þetta frv. er fram komið, og það er ekki ætlun mín að gagnrýna það á nokkurn hátt, sízt á þessu stigi málsins. Það er aðeins eitt atriði, sem mig langar til að vekja athygli á eða nánast spyrjast fyrir um í sambandi við frv.

Hæstv. menntmrh. tók það fram, að hverju loknu námstigi eigi að flytja ákveðin atvinnuréttindi. Þetta er rétt hjá hæstv. ráðh. hvað snertir 1., 2. og 3. stigið. En það er ekki rétt að því er varðar 4. stigið. 4. stig vélstjóranámsins gefur út af fyrir sig engin réttindi til viðbótar frá 3. stigi. Það er fyrst, ef sveinspróf í vélvirkjun fylgir, þá veítir það réttindi. Mig langar til þess að vekja athygli á þessu. Mér finnst þetta í sjálfu sér ekki alveg sanngjarnt, að þessu 4. stigi skuli ekki fylgja aukin atvinnuréttindi, því að viðbótin, sem heimtuð er, er hreint ekki svo lítil, þar sem um er að ræða sveinspróf í iðn. E.t.v. liggja einhverjar sérstakar ástæður til þessa, ástæður, sem ég hef ekki komið auga á, og þá vildi ég gjarnan, að hæstv. ráðh. eða einhver annar upplýsti mig um það atriði.