04.04.1966
Efri deild: 60. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 957 í B-deild Alþingistíðinda. (910)

176. mál, Atvinnujöfnunarsjóður

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það gæti verið næsta fróðlegt að gera að umtalsefni margt af því, sem kom fram í ræðum þeirra hv. tveggja þm., sem hér töluðu áðan, þó að ýmsir þættir af því, sérstaklega í ræðu hv. 4. þm. Austf. (PÞ), kæmu harla lítið málinu við, þó að það væru fróðlegar bollaleggingar og skipulega fram settar, eins og hans er von og vísa. En ég skal nú reyna að lengja ekki þessar umr. mikið á þessu stigi.

Það var sameiginlegt hjá báðum hv. þm., að þeir gerðu harla lítið úr þessu frv., sögðu, að það væri smásálarlegt, eins og hv. 4. þm. Norðurl. e. (BJ) orðaði það, og harla lítið í sniðum. Það var eitthvað á þá leið, sem hv. 4. þm. Austf. komst að orði, og sannast sagna, miðað við hans annars hógværa málflutning, þótti mér ræða hans nokkuð hvassyrt og ekki byggð algjörlega á þeirri rökfestu, sem hann er þó vanur að hafa í sínum málum.

Það verður auðvitað hver þm. að hafa um það sína skoðun, hvort hér sé um ómerkilegt mál að ræða eða ekki. Það stendur eftir, sem ekki er hægt að hagga, að hér er um að ræða mjög aukið fjármagn frá því, sem nú er varið til atvinnuaukningar í landinu eftir þeirri leið, sem fyrst var gert með svokölluðu atvinnuaukningarfé og síðan með fjármagni atvinnubótasjóðs, og látum við þá liggja á milli hluta hlutverk annarra sjóða, því að það er nokkuð annað mál, enda þótt, eins og ég áðan sagði, það skipti að sjálfsögðu miklu að því leyti til, að hér er um að ræða eingöngu viðbót við starfsemi annarra stofnlánasjóða, en ekki það, að það eigi að létta af þeim neinum skyldum með þessu frv., sem hér liggur fyrir.

Það er staðreynd málsins, að í stað þess, að verið hafa til ráðstöfunar 10—15 millj. kr. á ári, þá verða til ráðstöfunar skv. þessu frv. strax um 50 millj. kr., sem síðan hækkar á nokkrum árum upp í og síðan yfir 100 millj. kr. Það má vel vera, að mönnum þyki þetta lítið, og vissulega er það lítið miðað við það, eins og menn segja, að það eigi að verja 5 þús. millj. kr. í álbræðslu og til stórvirkjunar. En vitanlega er það gersamlega út í hött að ræða málin á þessum grundvelli, vegna þess að það hefur áreiðanlega engum manni dottið í hug, enda sjá allir, hve fjarstætt það er, að það sé hægt að nota að einhverju leyti það fjármagn eða þann mælikvarða varðandi möguleika til fjáröflunar í þennan sjóð. Þar er um sérstakar, afmarkaðar framkvæmdir að ræða, sem að meginhluta til eru unnar fyrir fé, sem lagt er fram af erlendum aðila og við höfum ekki um að segja annað en að fá af því, þegar tímar líða, vissan hagnað í sambandi við þennan sjóð og svo að sjálfsögðu margvíslegan hagnað að öðru leyti í sambandi við atvinnulega uppbyggingu í landinu.

Út í hugleiðingar og deilur um álbræðslu skal ég ekki að öðru leyti fara á þessu stigi. Það mál mun væntanlega koma til kasta þessarar hv. deildar síðar. En auðvitað verður lítið úr þessu máli, það er alveg rétt, ef það er borið saman við þær stóru fjárhæðir. Hitt er svo annað mál, að mér finnst það harla fánýtur samanburður að bera saman þetta frv. og frv., sem hv. framsóknarmenn hafa flutt hér þing eftir þing, sem að sjálfsögðu er gersamlega út í hött, það mál. vegna þess að þar er að venju, eins og er hjá þeim hv. flokki, ekki gerð nokkur tilraun til þess að leita úrræða til að afla fjár með neinum raunhæfum hætti, og það einkennilega við það mál, sem er ekki heldur fátítt um þeirra málflutning, er, að það mál er upp tekið eftir að þeir fara úr ríkisstj., og það er alltaf dálítið þægilegra um vik að flytja þá stórbrotin mál með miklum fjárkröfum. Munurinn á þeirra frv. og þessu frv, er nánast sá, ef hægt er að segja það í einni setningu, að þetta er framkvæmanlegt, en þeirra er það ekki og er alls ekki flutt með það í huga, að það sé framkvæmanlegt, því að þá hefðu þeir vafalaust sjálfir sýnt hug á því, meðan þeir réðu ríkjum, að koma þessu í framkvæmd, því að þótt þeir tali mikið um, hvað 15 millj. kr. hafi verið stórbrotið fé þá og mikið átak gert, þá held ég nú jafnvel, þó að það sé tekið tillit til dýrtíðaraukningar, að þá sé ekki hægt að segja, að það hafi verið ákaflega stórbrotið miðað við till., sem þeir síðar hafa flutt.

Það út af fyrir sig að tala um, að það sé nóg að setja í frv., að það skuli taka 200 millj. kr. lán á ári fyrir einhvern sjóð, það náttúrlega þekkja allir hv. þdm. að er gersamlega út í hött. Við getum auðvitað sett slíka tölu, hvort sem hún er 2, 3 eða 4 hundruð millj., svo að hún líti fallega út. En hvaða grundvöllur væri til þess að fá 200 millj. á ári í þennan sjóð eða annan án þess að skoða þá í heild þau lánsfjárvandamál, sem við er að fást hverju sinni? Það auðvitað er ekki hægt að ræða um sem raunhæfa till., því að auðvitað gerum við okkur öll grein fyrir því, ef við skoðum málið í nokkurri alvöru, að lánsfjáröflun þjóðfélagsins hverju sinni er auðvitað takmörkuð og það þarf að sjá fyrir líka þeim stofnsjóðum, sem eiga að sinna sinu mikilvæga hlutverki, og það er ekki minna atriði að leita lánsfjár til þeirra, því að þeir hafa sínu mikla uppbyggingarhlutverki að gegna einnig. Það lítur fallega út að tala um að taka 2% ríkistekna, sem muni nema 70—80 millj. kr. á ári. En hvernig á að afla þess fjár? Ég er ósköp hræddur um a.m.k., að það verði eitthvað farið að skella í tönnunum á annan hátt, ef það hefðu komið till. um það, sem hefði svo sennilega átt að lenda á ríkisstj. að koma með till. um, hvernig ætti að afla fjár aftur til þess að mæta þessum stórkostlegu nýju útgjöldum.

Nei, ég held sannast sagna, með allri virðingu fyrir hv. Þm. og þeim Framsfl.-mönnum í þessu máli, — ég efa ekki góðan hug þeirra til landsbyggðarinnar og að efla atvinnulífið þar, — en þá er það ekki leiðin að vera með svona glamurtill., sem þeir sjálfir vita, að eru algerlega óraunsæjar, gera enga tilraun til þess að afla fjár til. En hér er þó flutt frv., sem liggur ljóst fyrir, að er raunhæfur grundvöllur fyrir fjáröflun til. Að vísu skal játað, að það er ekki hægt að fullyrða, hvað mikið lánsfé er hægt að fá til þessara framkvæmda. Það verður að sýna sig á hverjum tíma, ef lántökuheimildir eru nægilegar, ef möguleiki er að öðru leyti til þess að afla þess fjár, sem nauðsynlegt er í þessu skyni.

Varðandi það, að hér sé um einhverja stefnubreytingu að ræða, þá er ekki um neitt slíkt að ræða. Það hefur verið alltaf fullkominn áhugi á því að vinna að þessum málum og á hverjum tíma auðvitað ekki aðeins hægt að dæma það út frá því, hve mikið fé er lagt til atvinnubótasjóðs, þar er um að ræða stórfelldar framkvæmdir á öðrum sviðum. Og ég held t.d., að hv. 4. þm. Austf. viti það mætavel, að aldrei hafa verið meiri framkvæmdir í hans kjördæmi en eftir að hans flokkur fór úr stjórn, með allan sinn mikla áhuga þó fyrir uppbyggingu víðs vegar um landið. Og við vitum, að nú fyrst er einnig í öðrum landshluta, þar sem hefur verið við mikla erfiðleika að stríða varðandi samgöngumál, á Vestfjörðum, unnið að því með kerfisbundnum átökum að byggja þar upp samgöngukerfi, og þó að það sé gert með erlendu lánsfé, þá sé ég ekki neitt forkastanlegt við það, við gerum það í mörgum greinum, og miðað við það, að það er jafnan átalið, ef verið er að þyngja álögur á þjóðina, þá sé ég ekki, að það þurfi að vera neitt fordæmingaratriði, þótt slíkir lánsfjármöguleikar séu notaðir.

Það mætti áreiðanlega sýna fram á það, sem ég skal ekki fara út í hér á þessu stigi, enda hef ég ekki fyrir mér tölur um það, en það hefur verið rætt í sambandi við fjárl. og annars staðar, að þrátt fyrir þann niðurskurð, sem hv. þm. var að tala um á framkvæmdum til ýmissa mála í fjárlögum í fyrra og í ár, þá hefur þó aukning í fjárveitingum til margvíslegrar uppbyggingar úti um landið verið miklum mun meiri en svarar verðlagshækkunum á þessum tíma.

Það getur náttúrlega verið skemmtilegt reikningsdæmi, sem stundum er tíðkað hér í Alþ., að setja það upp, hve stór hluti af fjárlögum þessi og þessi fjárveiting sé og hafi verið fyrir allmörgum árum. Ég veit, að hv. þdm. vita harla vel sjálfir, hversu fánýtur þessi samanburður er, vegna þess að hækkun fjárlaga stafar af margvíslegum ástæðum og þar eru til komnir aðrir stórfelldir útgjaldaliðir, þannig að það er auðvitað hverjum manni ljóst, að ef allir liðir fjárlaga til hinna ýmsu framkvæmda og þjónustu hefðu átt að hækka jafnmikið, eða hlutfallslega alltaf jafnmikil hækkun á öllum þessum liðum, þá hefði auðvitað ekkí verið nein leið að leysa þau vandamál, sem þó hafa verið leyst með hækkun fjárlaganna. Röskun á þessu varðandi hlutföll hlýtur alltaf að vera mikil frá ári til árs, þegar til koma algjörlega ný útgjöld, og þarf í rauninni ekki að ræða það mál, þó að það geti litið fallega út að taka út einstök dæmi og birta þannig útreikninga.

Það var eitt atriði, sem kom fram hjá hv. 4. þm. Austf., sem ég vil leiðrétta. Hann hélt því fram, að lántökuheimildirnar væru í rauninni fánýtar, vegna þess að með þeim væri aðeins verið að éta fyrir sig fram, þar sem væri getið um það, að lántaka ætti að vera örugg af því, hvað sjóðurinn hefði mikið eigið fé á næstu árum. Þetta veit ég, að hv. þm. við nánari athugun sér, að er á misskilningi byggt, vegna þess að það er alls ekki gert ráð fyrir því, að sé tekið lán út á það fé, heldur er tekið fram, sem eðlilegt er, að þar sem sjóðurinn er sterkur sjóður, — þegar tekjurnar af álbræðslunni fara að koma til, þá eru það mjög tryggar tekjur og árvissar, auk þess sem má segja, að þær séu gengistryggðar, vegna þess að þar er þó um að ræða gjaldmynt, sem er talin ein hin öruggasta í heiminum í dag, og það er reiknað í dollurum, — og af þeim sökum er að sjálfsögðu traust undirstaða sjóðsins, það skiptir því miklu máli upp á lánstraust hans. Hins vegar er það tekið skýrt fram, að það er gert ráð fyrir að nota lánsfé og settar þær hömlur einar á, að það skuli vera til arðbærra framkvæmda.

Ég held, að það hljóti að liggja öllum í augum uppi, að það væri auðvitað hrein fásinna og glapræði að fara að taka lánsfé, lán fyrir sjóð, og ætla að eyða því til styrktar eða einhverra framkvæmda, sem ekki væri traust undirstaða undir. Og ég held líka, að við verðum að gera okkur ljóst, að þó að það sé auðvitað nauðsynlegt að aðstoða við að halda byggð í landinu, þá hefur það aldrei komið til álita að minni hyggju, að það yrði varanlega farið að verja stórfé til þess að borga styrki og halda uppi byggð með þeim hætti, heldur yrði að undirbyggja arðbæran atvinnurekstur á hverjum stað. Það er því síður en svo, að það dragi úr gildi þessarar lántökuheimildar, að það er sagt, að það eigi að verja lánsfénu til framkvæmda, þar sem endurgreiðsla er örugg. Það á að vera nóg af slíkum framkvæmdum. Ég hef trú á því, að landsbyggðin hafi upp á að bjóða það margvíslega möguleika, að það sé enginn vandi að finna framkvæmdir, sem fullkomlega standa undir slíkum lánum.

Þá var því haldið fram af hv. þm., sem er að vísu formsatriði, að það væri ekki viðeigandi, að Efnahagsstofnunin annaðist áætlanagerð. Ég er ekki á sama máli. Í fyrsta lagi er það, að ég held, að í okkar litla þjóðfélagi verðum við að gæta þess að dreifa ekki kröftunum allt of mikið, og við höfum takmarkað magn sérfræðinga, takmarkaða tölu þeirra, og við getum ekki alltaf sett upp stofnun fyrir alla hluti, bara af því að það sé gert í öðru landi, og auk þess er þess að gæta, að Efnahagsstofnunin hefur fyrst og fremst það hlutverk að gera þjóðhags- og framkvæmdaáætlanir, og hefur alltaf verið hugsað, að hún gerði það. Henni er ekki beinlínis ætlað að ákveða um einstakar lánveitingar, heldur að gera áætlanirnar, sem sjóðsstjórnin síðan starfi eftir.

Þá sagði hv. þm., að atvinnuleysistryggingasjóðurinn væri ekkert nýtt mál og þess vegna kæmi það ekki þessu við. Þetta er ekki heldur rétt. Það er rétt, að sjóðurinn er ekki neitt nýtt mál, en það er nýtt mál út af fyrir sig, að það er veitt heimild til þess nú, sem ekki hefur verið áður, að veita áhættulán, sem jafnvel getur orðið í formi styrkja til ýmiss konar aðstoðar, þar sem annars atvinnuleysi vofir yfir. Þessi sjóður hefur hingað til lánað með mjög ströngum kröfum um veð, svo að hann hefur í rauninni verið að segja má harðari í því en jafnvel bankastofnanir, og það er því mjög veigamikið framlag til aðstoðar við hinar strjálu byggðir, þar sem við örðugleika er að stríða, að það skuli vera hægt að fá lán úr þessum sjóði, áhættulán. Þar tel ég vera um veigamikla breytingu að ræða, og það er a.m.k. mín skoðun, að það eigi að vera eðlilegt, að þessu lánsfé sé fyrst og fremst varið til styrkja og til þess að bæta úr bráðabirgðaörðugleikum, en að atvinnujöfnunarsjóðsfé sé fyrst og fremst hugsað til að byggja upp arðbær fyrirtæki.

Hv. 3. þm. Norðurl. e. vildi gera lítið úr þessu máli, sérstaklega lítið, sagði, að þetta væri smásálarlegt frv. Einhvern veginn hef ég grun um, að fyrst og fremst hafi það verið smásálarlegt vegna þess, að það væri tengt frv. um álbræðslu og þeim hugmyndum. Það skein alls staðar í gegnum hans málflutning, að það væri mjög fráleitt af þessum ástæðum, og jafnvel 4. þm. Austf. byrsti sig í lok ræðu sinnar og sagði, að það væri óhæfa að setja það sem skilyrði fyrir aðstoð til fólksins í strjálbýlinu, að það yrði að þola álbræðslu.

Ég tel nú ekki út af fyrir sig, — það er annað mál, — að það sé fyrir neinn landsmann neitt böl að fá álbræðslu, og það geti þess vegna hver og einn unað við það. Og ég sé ekki heldur, ef það á á annað borð að reisa hér álbræðslu, að það sé neitt við það að athuga, að ráðstafað sé tekjunum af þessari álbræðslu til þeirra hluta, sem hér er um að ræða, þannig að það sé heldur neitt hneykslanlegt, nema síður sé, því að það er auðvitað eðli málsins samkvæmt, að þegar um er að ræða stórframkvæmdir á einum stað, þá er heilbrigð hugsun að nota þá að einhverju leyti það fjármagn, sem skapast við atvinnuuppbyggingu þar, til þess að hjálpa til að byggja upp atvinnulíf annars staðar og koma í veg fyrir óeðlilega röskun byggðar.

Þetta er sú hugsun, sem hefur alltaf legið fyrir og verið nátengd þessu máli og aldrei veríð nein launung á því, og þegar menn eru að tala um, að það sé fjarstæða og ákaflega óviðkunnanlegt að tengja þessi mál saman við álfrv., þá er það ekkert launungarmál og hefur frá fyrstu tíð verið um það talað, þegar var rætt um endurskipulagningu þessa sjóðs, að tekjur af álbræðslu yrðu að meginefni til látnar renna til þessa sjóðs og uppbyggingar hans. Það hef ég persónulega sagt hvað eftir annað á fundum, m.a. í mínu eigin kjördæmi, sem hv. 3. þm. Norðurl. e. hafði miklar áhyggjur af, að 80—90% fólks þar væri á móti þessu máli og þá væntanlega á móti mér einnig. En ég hef ekki farið dult með það þar á ótal fundum, að þetta væri hugsunin, að byggja sjóðinn þannig upp. Og ég hef satt að segja ekki fundið nokkurs staðar hjá neinum manni neinn andróður gegn því.

Það er svo allt annað mál. hvort sú reikningskúnst, að 480 kjósendur á Norðurlandi eystra séu 90% kjósenda þar. Það er reikningsdæmi, sem ég er ekki alveg búinn að kingja, og það á kannske eftir að sýna sig á sínum tíma.

Hugleiðingar um það, að þetta væri einfalt að leysa með því að losa úr sparifjárbindingu það fé, sem yrði til úti á landsbyggðinni, — þetta lítur ósköp fallega út á pappírnum, en ég veit, að jafnglöggur maður og hv. 4. þm. Norðurl. e. veit, að svona er algjörlega út í hött, að það sé hægt að hafa einhverjar mismunandi reglur um það. Það vita jafnframt allir og skal ég ekki fara langt út í þær röksemdir, að sparifjárbindingin er bráðnauðsynlegt mál til þess að viðhalda og styrkja efnahagslegt jafnvægi í þjóðfélaginu, og það kemur í rauninni nokkuð einkennilega út, að þessir sömu menn, sem eru að deila á ríkisstj. fyrir það, að hún sé að missa allt úr höndum sér fyrir stórkostlega spennu í framkvæmdum og á öðrum sviðum, eru svo jafnhliða að koma með till. um, að það eigi að ausa út því fé, sem er bundið í Seðlabankanum, því að það veit náttúrlega hver einasti meðalgreindur maður, hvaða áhrif það kemur til með að hafa.

Það mætti margt fleira um þetta ræða, en ég skal spara mér það, nema frekara tilefni gefist til. Við getum, eins og ég áðan sagði, haft okkar skoðanir um það, hvort þetta sé fánýtt mál eða ekki. Það er engin leynd á því, hvernig það er uppbyggt, það getur hver og einn maður reiknað það næmi. Sumir geta sagt, að það skipti litlu máli og sé einskis vert að ferfalda framlög til þessa sjóðs nú þegar og síðan margfalda þau mun meira, eftir því sem árin líða. Það geta menn haft sinar skoðanir um, hvort muni koma að meira gagni slíkt frv., sem byggt er á raunhæfri fjáröflun, eða eitthvert fallegt pappírsplagg, sem hefur legið á borðum þm. ár eftir ár án þess að hafa nokkra raunsæja undirstöðu og fyrst kom áhugi á að flytja, eftir að viðkomandi aðilar misstu möguleika til að koma málinu fram. Það verða menn einnig að gera upp við sig, og ég óttast ekki þann samanburð. Ég skal játa, að hv. 4. þm. Austf. er mér miklu fróðari í þingsögu. En ég man nú ekki betur, úr því að hann vildi fara að ræða um forsögu í þessum efnum, að þá vildi það nú svo til á þeim tíma, þegar Framsfl. réð á Alþ., að hann stöðvaði mál um jafnvægi í byggð landsins og hindraði að það frv. yrði afgreitt, af hvaða ástæðu sem það var þá.

Ég tel því ekki ástæðu til, herra forseti, að færa fram neinar afsakanir fyrir þessu máli, hvorki hvernig það er til komið og að það sé tengt álbræðslumálinu né heldur, að þar sé um einhvern sérstakan ómyndarskap að ræða. Við hefðum gjarnan öll vafalaust viljað, að hér væri eins og á öðrum sviðum hægt að gera enn stærri átök. En það verður að skoða málin með raunsæi og reyna að halda sér innan ramma þess mögulega. Það er trú mín, að þessi sjóður geti átt sinn þátt í því að stuðla að margvíslegri uppbyggingu víðs vegar um byggðir landsins og það muni verða til verulegra bóta fyrir landsbyggðina, ef þetta frv. fæst lögfest, sem ég vil nú vænta að geti orðið, enda þótt menn af skiljanlegum ástæðum hafi margvíslegt víð það að athuga og eins og jafnan vill vera, að stjórnarandstaðan gjarnan vill gera lítið úr því, sem frá ríkisstj. kemur.