28.04.1966
Neðri deild: 80. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1009 í B-deild Alþingistíðinda. (937)

176. mál, Atvinnujöfnunarsjóður

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal reyna að lengja ekki umr. hér í þessari hv. d., og þó að freistandi væri að gera að umtalsefni ýmislegt af því, sem hefur komið fram, ekki hvað sízt hjá hv. 5. þm. Austf., sem kom inn á svo mörg atriði, sem fróðlegt hefð verið að ræða nánar, skal ég stilla mig um að. Ég sé hins vegar ástæðu til að þakka það, að öll hv. n., sem hefur haft málið til meðferðar, er sammála um það í meginefnum, að þetta frv. sé til bóta. Hitt er svo annað mál, sem ætíð vill verða, að mönnum finnst nokkuð misjafn um það, hvað gert er, hvort það sé nægilegt, og er ekkert að undra, þó að stjórnarandstaða afi stundum aðrar skoðanir á því efni og vilji láta lengra ganga.

Ég get að vísu ekki stillt mig um tilefni af ummælum hv. 11. þm. Reykv., sem annars flutti hér mjög hógvært mál, eins og hans er venja, að geta um það, þó að það auðvitað skipti ekki neinu máli varðandi þetta mál að vera að rifja upp fortíðina, að ég gæti kannske með nokkrum rétti snúið við ummælum hans um að, að því bæri að fagna, að ríkisstj. hefði tekið upp mál þeirra hv. framsóknarmanna, af því að það vildi svo til, að ég var meðal þm., sem höfðu fimm sinnum áður en hv. framsóknarmenn hófu sitt góða mál flutt frv. um þetta efni, bæði meðan samstjórn var á milli Sjálfstfl. og Framsfl. og einnig á tímum vinstri stjórnarinnar, og án þess að það frv. fengi áheyrn. Ég skal ekki nánar út í þá sálma fara, því að eins og ég segi, skiptir það ekki öllu máli um mál, þegar það liggur fyrir, að karpa um fortíðina. Það skiptir auðvitað mestu máli, að menn geti verið sammála um það, hvort stefnt sé í rétta átt með því, sem verið er að gera á hverjum tíma.

Ég vil svo aðeins segja örfá orð í tilefni af þeim brtt., sem hér liggja fyrir og eru þær sömu og komu fram í hv. Ed. Þessar brtt. eru nokkuð svipaðar að því leyti, að þar er gert ráð fyrir frá báðum minni hl. n. að taka hluta af ríkistekjum í þennan sjóð, sem nemur vissulega allverulegum fjárhæðum eða frá 50—80—90 millj. kr., fer að sjálfsögðu eftir atvikum hverju sinni. Vissulega væri það mjög ánægjulegt, ef þetta væri hægt að gera, en ég er ekki alveg víss um það, þegar að því kæmi, að fjmrh. þyrfti að fara að afla tekna til þess að mæta þessum útgjöldum, að það mætti alveg sama skilningi og óskirnar nú um að verja þessu fé úr ríkissjóði. Ég treysti mér því ekki til þess að mæla með því, að þessar till. verði samþ., þó að, eins og ég segi, það væri mjög ánægjulegt, að það væri hægt að hafa meira fé, því að vissulega hefur sjóður sjaldan eða aldrei yfir of miklu fé að ráða. En ég hygg nú raunar, að báðir hv. minni hl. n. geri sér fulla grein fyrir því, að hér sé ekki um raunhæfar till. að ræða, þó að þeim sé hreyft í framhaldi af fyrri málflutningi um þau efni.

Varðandi það í till. frá hv. 5. þm. Austf., þar sem hann leggur til, að 100 millj. kr. verði ráðstafað til sjóðsins af óafturkræfu framlagi Bandaríkjastjórnar 1960, er ekki heldur auðið að fallast á þá till., m.a. og fyrst og fremst fyrir þá sök, að það er gert ráð fyrir því, að það þurfi að nota það fé annars vegar til stofnfjárframlags vegna Búrfellsvirkjunar og hins vegar til byggingar kísilgúrverksmiðju, þannig að það yrði þá að leita a.m.k. annarra ráða til þess að afla fjár til þeirra framkvæmda, og það skal játað, að þau ráð verða ekki séð eins og sakir standa nú.

Varðandi það atriði að greiða til atvinnujöfnunarsjóðs allt framlag mótvirðissjóðs, þess sérstaka mótvirðissjóðs, sem greiða átti til Framkvæmdabankans, eða greiða sjóðnum það strax á árinu 1966, er það vitanlega formsatriði, en ég tel ekki, að það sé ástæða til að gera slíkt, m.a. vegna þess, að nú liggja ekki fyrir svo fullkomnar áætlanir, hvorki um heildarframkvæmdir í landshlutum né á sérstökum stöðum, að það sé ástæða til þess að halda, að á árinu 1966 þurfi á svo miklu fé að halda. Það þarf auðvitað að vinna skipulega að þessum málum, svo sem bæði hv. 5. þm. Austf. réttilega nefndi og fleiri hafa bent á og löggjöfin í rauninni byggist á, þannig að hér sé ekki um handahófskenndar aðgerðir að ræða, og ég er hv. 5. þm. Austf. algerlega sammála um það, að misvægi í byggð landsins verði ekki lagað með styrkjum, heldur þurfi skipulega að vinna að þessum málum, bæði á atvinnusviðinu og fleiri sviðum, til þess að forðast jafnvægisleysi. Ég tel því ekki ástæðu til þess að breyta þeim fyrirhuguðu áætlunum til þess að greiða þetta til sjóðsins á næstu 4 árum. Það er alveg rétt, sem hefur verið bent hér á, að tekjur af álbræðslu fari ekki að koma til fyrr en eftir þann tíma eða um 1970 og upp úr því, og einmitt af þeim sökum hafa verið gerðar hinar sérstöku ráðstafanir til að afla meira fjár til sjóðsins nú.

Till. hv. 2. minni hl. fjhn, um ákvæði til bráðabirgða tel ég ekki þörf á og í raun og veru ekki nema að nokkru leyti jákvætt. Ég tel, að það eigi ekki að slá því föstu, að það eigi að leysa viðfangsefnin nú á næstunni sérstaklega með því að nota verulegan hluta af fé sjóðsins til styrkveitinga, heldur eigi umfram allt að leggja áherzlu á að reyna að byggja upp arðbæran atvinnurekstur. Ég tel það svo sjálfsagt að öðru leyti, að stjórn atvinnujöfnunarsjóðs hljóti að gera þær áætlanir, sem lagt er til í bráðabirgðaákvæðinu, ella starfar hún ekki með þeim hætti, sem gert er ráð fyrir, þannig að að því leyti er um efnislega rétt mál að ræða, sem ég tel af þessum sökum ekki ástæðu til þess að lögfesta frekar en margar aðrar reglur um starfsemi sjóðsstjórnarinnar. En það hefur verið talið eðlilegt, að starfssvið hennar væri nokkuð rúmt, einmitt með hliðsjón af því, að hægt væri að þjóna þá þeim margþættu verkefnum, sem hv. þm. ýmsir hafa bent hér á, að þyrfti að þjóna.

Ég skal svo ekki lengja þessar umr. frekar, herra forseti, en endurtek aðeins að lokum, að ég tel það vel farið, að allir þeir hv. þm., sem hafa rætt um þetta mál, telja, að það horfi til verulegra bóta, og vonast ég því til, að hv. þd. geti fallizt á að tryggja framgang málsins, eins og það liggur nú fyrir.