15.04.1966
Neðri deild: 70. fundur, 86. löggjafarþing.
Sjá dálk 1151 í B-deild Alþingistíðinda. (991)

20. mál, verðtrygging fjárskuldbindinga

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég skal leitast við að vera stuttorður, enda er ekki þægilegt að tala hér um atriði, sem hæstv. ráðh. kom inn á, þegar hann er ekki viðstaddur, og er það mjög slæmt, að ráðh. skuli ekki geta verið við umr. um mál, sem þeir flytja sjálfir. En þó er þetta sá hæstv. ráðh., sem bezt, held ég, stendur fyrir sínu máli hér á hv. Alþ. En af því að þetta er 3. umr. málsins og enginn kostur á að ræða það frekar, — nú á að ljúka henni í kvöld, — sé ég mig tilneyddan að drepa hér sérstaklega á eitt atriði, sem hæstv. ráðh. ræddi um og ég beindi fsp. til hans um í gær.

Ég sýndi fram á það þá, að vísitöluálagið á húsnæðislánin væri gersamlega óviðunandi, og nefndi nokkrar tölur um það, hvernig þetta mundi verka, að vextir og afborganir af 280 þús. kr. húsnæðisláni nú án verðbólgu væru í kringum 18600 kr. á ári, yrðu komin upp í 30300 kr. eftir 5 ár, ef reiknað væri með 10% vísitöluhækkun á láninu, upp í 48.9 þús. eftir 10 ár og upp í 78.7 þús. eftir 15 ár o.s.frv. Svona er þetta allt að vaxa, ef maður gerir ráð fyrir þessari verðbólgu. Ef menn fá tvenn lán, annað frá húsnæðismálastjórn og hitt úr lífeyrissjóði, og gert væri ráð fyrir, að þau væru til samans 500 þús. kr., væri árleg greiðsla af slíku láni án vísitöluhækkunar í kringum 33 200 kr., en með þessari vísitöluhækkun, áætlaðri 10% á ári, yrði það komið upp í 53.6 þús. eftir 5 ár, 86.2 þús. eftir 10 ár og 138.9 þús. eftir 15 ár. Þetta er svo ör hækkun og svo stórkostleg, að það er gersamlega óviðunandi að sætta sig við svona byrðar á fólk, þó að það sé til þess að tryggja ágætan sjóð. Ég beindi þeirri fsp. til hæstv. ráðh., hvort hann teldi þetta viðunandi, hvort hann vildi sætta sig við þetta. Og hæstv. ráðh. svaraði þessu, og hann meira að segja endurtók svarið í umr. í dag, og efnislega var svar hans á þessa leið:

„Ef vísitala framfærslukostnaðar hækkar, fá menn vísitöluhækkun á laun, og þá geta þeir greitt þetta.“

Efnislega var það á þessa leið, og hann endurtók þetta hvað eftir annað, að það sé engin ósanngirni í því að leggja þessa byrði á húsbyggjendur, ef þeir fengju vísitöluhækkun á launin sín. Hitt viðurkenndi hann, að ef þeir fengju hana ekki, kæmi þetta ekki til mála. M.ö.o.: vísitöluhækkun á laun á þá að bjarga við eða mæta þessum byrðum, sem þannig geta komið á menn. En ég vil nú benda hæstv. ráðh. á það, að því aðeins fá menn vísitöluhækkun á laun, að framfærsluvísitalan hækki, annars fá þeir enga hækkun. Og af hverju hækkar framfærsluvísitalan? Af því að lífsnauðsynjarnar hækka í verði. Og þessi launahækkun, vísitöluhækkun á launin, er til þess að mæta verðhækkunum á lífsnauðsynjunum en ekki á lánum. Hvernig eiga menn þá að borga með þessari vísitöluhækkun á launin bæði hækkun lífsnauðsynjanna og líka hækkun á lánunum? Þetta er hrein hugsanavilla frá upphafi til enda. Þetta er alveg eins og hjá karlinum, sem vildi bæði éta jólagrautinn sinn og geyma hann til nýársins. Það eru ekki betri rök, sem þarna eru flutt.

Hæstv. ráðh. orðaði það, a.m.k. efnislega, á þessa leið: Ef vísitala framfærslukostnaðar hækkar, hafa menn fengið launahækkun. Þetta eru gömlu trúarbrögðin, að framfærslukostnaður hækki bara vegna launahækkananna. Þau eru enn við lýði, þessi trúarbrögð hjá hæstv. ríkisstj. Ég vil benda mönnum á tímabilið frá ársbyrjun 1959 fram til júlímánaðar 1961. Í ársbyrjun 1959 var það fyrsta verk ríkisstj. Alþfl. að lækka öll laun í landinu með lögum. hrátt fyrir þessa lögþvinguðu launalækkun, varð engin launahækkun í landinu allt þetta tímabil, þó nokkuð á 3. ár, ekki nein launahækkun neins staðar. Framfærslukostnaðurinn hefur líklega ekki hækkað. Jú, hann hækkaði um 18% á þessu tímabili, þrátt fyrir það að hvergi varð launahækkun. Það þarf víst ekki að leita að mörgum dæmum um það, að framfærslukostnaður getur hækkað án allra launahækkana. Hvað segja menn um rafmagnshækkanir, sem verið er að framkvæma, fargjaldahækkanir og söluskattshækkanir, svo að það séu nefnd nokkur dæmi? Ekki eru þetta launahækkanir. Allt veldur þetta hækkun á framfærslukostnaðinum.

Hv. 11. þm. Reykv. benti á það í ræðu sinni í dag, að vísitala framfærslukostnaðar væri að því leyti villandi, að húsnæðiskostnaðurinn væri reiknaður þar alveg óhæfilega lágur og þar af leiðandi kæmu ekki fram í vísitölu á laun neinar hækkanir, sem teljandi eru, vegna hækkaðs húsnæðiskostnaðar. Þetta viðurkenndi hæstv. ráðh., að væri rétt, húsnæðiskostnaðurinn í framfærsluvísitölu væri reiknaður of lágt. En hann sagði annað, og það hef ég aldrei heyrt fyrr. Hann sagði: Það eru aðrir liðir í framfærsluvísitölunni, sem eru aftur á móti of háir, svo að meðaltalið út úr þessu er nokkurn veginn rétt. — Þessa kenningu hef ég aldrei heyrt fyrr. Ég veit ekki, hvaðan hún getur verið komin. Framfærsluvísitalan er reiknuð út frá neyzlurannsókn, sem fór fram á árunum 1953—1954. Það var rannsakað hjá heilum hóp fjölskyldna, hvað þær notuðu mikið af hverri vörutegund yfir heilt ár. Þetta er grundvöllurinn að vísitölunni, sem við höfum núna, og hefur alltaf verið frá 1939, að vísitalan kom fyrst til. Nú eru liðin 12 ár, frá því að þessi rannsókn fór fram, en sú vísitala, sem á henni byggðist, byrjaði að vísu ekki fyrr en 1959, en á þessari rannsókn var byggt. Hvað ætli það sé þá í þessari framfærsluvísitölu, sem er of hátt reiknað? Er gert ráð fyrir of miklum matvælum, sem fólkið borði? Það er þó byggt á rannsókn og skýrslum fólksins sjálfs, hvað það notaði. Er þá skekkjan í því, að það noti of mikil föt? Það var líka byggt á því, hvað fólkið notaði í föt. Notar það of mikið rafmagn? Hvað ætli þetta sé? (Gripið fram í.) Ef þetta hefur aldrei verið reiknað of hátt, er ekki um neina hlutfallsskekkju að ræða. Þetta er hrein vitleysa út í loftið. Fólkið sjálft hefur lagt fram gögn yfir það, hvað það notar mikið af hverri einustu vörutegund yfir árið. Síðan gerir Hagstofan ekkert annað en reikna út verðið, þ.e.a.s. finna út verðið á þessu og reikna út, hvað þetta gerir mikið yfir árið. Þannig er vísitalan fundin. En húsnæðiskostnaðurinn á að vera rúmar 1000 kr. á mánuði og fyrir bragðið verður heildarupphæðin, sem fjölskyldunni er ætluð yfir árið samkv. vísitölunni, miklu lægri en hún raunverulega er. Þetta hefur breytzt svo á síðustu árunum, á 6 síðustu árunum, að í marz 1960 var þó húsnæðiskostnaðurinn reiknaður 15.3% af útgjöldum fjölskyldunnar, en í marz núna í vetur ekki nema 10.6%. Það fer alltaf lækkandi, húsnæðiskostnaðurinn hjá fólkinu á alltaf að fara lækkandi. Á sama tíma sem meðalíbúð hefur hækkað í verði um 1/2 millj. eða um 112%, þá fer húsnæðisliðurinn í framfærsluvísitölunni alltaf lækkandi.

M.ö.o.: framfærsluvísitalan er enginn mælikvarði á verðlagið í landinu, eins og hún er nú, og á meira að segja ekki að vera það. Þar er blandað inn í sköttum, fjölskyldubótum til frádráttar og svo húsnæðiskostnaði, sem er svona reiknaður. Þetta er enginn mælikvarði á verðlagsþróunina í landinu. Eini mælikvarðinn, hvað snertir neyzlu manna, er vísitala vöru og þjónustu, svokölluð neyzluvöruvísitala, en hún er ekki 184 stig núna, eins og framfærsluvísitalan, hún er 214 stig. Það er athyglisvert, þegar maður ber þetta saman, hvernig þetta var fyrir 6 árum, þegar viðreisnarstefnan er að byrja, þá er vísitala vöru og þjónustu nákvæmlega eins og framfærsluvísitalan, í marz 1960, báðar 101 stig. En núna er framfærsluvísitalan 184, en neyzluvöruvísitalan 214. Og í hverju liggur þetta? Það liggur í því, að hæstv. ríkisstj. er búin að láta breyta útreikningi á vísitölunni þannig að sýna hana miklu lægri en raunveruleg verðlagsþróun er í landinu. Og eftir þessari vísitölu fá menn svo kauphækkun vegna verðhækkananna, ekki eftir vísitölu vöru og þjónustu, heldur eftir framfærsluvísitölu. Sökum þess dugir ekki vísitöluhækkun á laun til að mæta verðhækkunum á lífsnauðsynjum, hvað þá að borga hækkun á lán.

Sem dæmi um það, hversu húsnæðiskostnaðurinn er vitlaust reiknaður í framfærsluvísitölunni, sem er þó notuð við þessa hluti, er það, að allur fjármagnskostnaður í íbúðinni, opinber gjöld, viðhald og fyrning, er núna reiknað í framfærsluvísitölunni 1.3% af íbúðarverðinu. Það er ríflegt það, 1.3% eða tæp 13 þús. af 967 þús.! Þannig er nú reiknaður húsnæðiskostnaðurinn í þessari vísitölu. Nei, það er ekki hægt að virða svona lagaða vísitölu.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri, en sá mig eiginlega tilneyddan að drepa á þessi atriði, því að þetta er síðasta umr., þrátt fyrir það að hæstv. ráðh. er ekki við. En ég vil ljúka máli mínu með því, að ég tel alveg óhjákvæmilegt, að vísitöluákvæðum á húsnæðislánum sé létt af, alveg óhjákvæmilegt. Ég tel, að íbúðalán eigi að koma síðust allra lána til þess, að þau séu með vísitöluákvæðum, — síðust allra lána, — í fyrsta lagi vegna þess, að allur þorri manna, sem er að byggja yfir sig, er tiltölulega efnalítið fólk og hefur ekki ráð á því að taka á sig byrðar, þótt það sé til þess að tryggja nauðsynlega sjóði. Það er í öðru lagi vegna þess, að íbúðarhúsin gefa engan arð, þau eru aðeins þjónustutæki fyrir fjölskylduna, en gefa engan arð. Og það er í þriðja lagi vegna þess, að hverja byrði, sem á þetta fólk er lögð, — hana verður það að bera, getur á engan hátt dreift þeirri byrði yfir á aðra eins og fjöldamargir aðrir aðilar geta, sem eru lántakendur.