18.04.1967
Neðri deild: 72. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1173 í B-deild Alþingistíðinda. (1002)

183. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Jón Skaftason:

Herra forseti. Þar sem nú er komið að lokum þessa þinghalds, þá gefst enginn tími til langra umr. um frv. þetta, enda er það e.t.v. ástæðulítið, þar sem fullt samkomulag er um efni þess hjá fulltrúum BSRB og ríkisvaldsins, sem nú vinna að endurskoðun laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna, og mér vitanlega ríkir heldur enginn ágreiningur á hv. Alþingi um efni frv. En ástæðan til þess, að ég kveð mér hljóðs, er sú, að mér er kunnugt um, að viss hópur opinberra starfsmanna í BHM hefur við meðferð málsins nú og reyndar margoft áður eða allt frá því snemma árs 1962, er lögin um samningsrétt opinberra starfsmanna voru í undirbúningi, sótt það fast að fá samningsaðild um kjör háskólamanna þeirra, sem starfa í opinberri þjónustu, en allar þessar tilraunir hafa engan árangur borið enn þá, og mér er ekki fyllilega ljóst, hvað veldur þessum langa drætti á, að einhver úrslit fáist um þessa ósk BHM. Ég vildi því nú leyfa mér að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. ríkisstj., hvort skilja beri þennan langa drátt á úrslitum málsins þannig, að hæstv. ríkisstj. sé andvíg samningsaðild BHM til handa við þær aðstæður, sem nú eru fyrir hendi í þjóðfélaginu í þessum málum, og ef hæstv. ríkisstj. er þessu andvíg, þá vildi ég gjarnan óska þess, að helztu ástæðurnar fyrir þeirri afstöðu hennar yrðu hér upplýstar.