14.12.1966
Sameinað þing: 16. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 215 í B-deild Alþingistíðinda. (102)

1. mál, fjárlög 1967

Frsm. 1. minni hl. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Við 2. umr. fjárlagafrv. gerði ég grein fyrir afstöðu okkar Framsfl.-manna til frv. og lýsti stjórnarstefnunni í framkvæmd og fyrirheitum í sambandi við fjárlagaafgreiðslu. Ég þarf því ekki að fara mikið út í þau mál nú, en mun hins vegar víkja að því, sem fram hefur komið síðan, og þeim niðurstöðum og þeirri mynd af fjármálum ríkisins, sem fyrir liggur við lok fjárlagaafgreiðslunnar. En áður en ég vík að því, vil ég skýra frá því, að við höfum ekki, 1. minni hl., flutt aðrar brtt. við fjárlagafrv. en að taka upp aftur þá till., sem við tókum aftur við 2. umr. þess, þar sem ekki fékkst nein lausn á málinu á milli umr.

Þetta fjárlagafrv., sem hér liggur nú fyrir, er 4 milljarðar 711 millj. kr. Samkv. því, sem gera má ráð fyrir um tekjur ríkissjóðs á árinu 1966, má reikna með, að þær verði 4 milljarðar og 200–300 millj. kr. Það er því ljóst, þegar borin eru saman árin 1966 og 1967, að gera verður ráð fyrir því, að tekjur ríkissjóðs verði a.m.k. um 1/2 milljarð kr. hærri á árinu 1967 heldur en á yfirstandandi ári. Þetta segir okkur það, að verðbólga sú, sem verið hefur á þessu ári, þarf að haldast á næsta ári og gera betur þó til þess að skila ríkissjóði þeim tekjum, sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir. Máli mínu til sönnunar um það, að fleiri hafa þá skoðun en ég, að verðbólgan þurfi að haldast, til þess að ríkissjóður fái þessar tekjur, vil ég — með leyfi hæstv. forseta — tilgreina hér ummæli úr ræðu hæstv. fjmrh., er hann flutti við 2. umr. fjárlagafrv., en þar segir m.a. svo, þegar hann hefur rætt um tekjurnar, sem verða á þessu ári:

„Þá hefði að sjálfsögðu þessi tekjuauki ríkissjóðs ekki komið til,“ — þá var hann að tala um verðstöðvunina, — „þannig að menn mega ekki hugsa sem svo, að ef hefði tekizt að stöðva dýrtíðina nú, væri nú gott ár, því að þá hefði ríkið ekki haft þær miklu tekjur, sem það hefur. Það er ósköp einfalt mál, að þannig verður þetta alltaf, að samhengi verður að vera á milli hlutanna.“

Þetta voru orð hæstv. fjmrh., að ef verðstöðvunin hefði verið ríkjandi á þessu ári, hefði ríkissjóður ekki haft þann mikla tekjuauka, sem hann kemur til með að hafa nú. En samt gerir hæstv. ríkisstj. ráð fyrir því, jafnhliða því sem hún er að afgreiða hér frv. til í. um verðstöðvun, að hafa a.m.k. 500 millj. kr. meiri tekjur til ríkissjóðs á næsta ári en á yfirstandandi ári. Þetta sýnist mér, að sé ekki samhengi á milli hlutanna, sem hæstv. fjmrh. gat þó um, að yrði að vera.

En það er fleira, sem þarf að athuga í sambandi við þessa fjárlagaafgreiðslu, heldur en það, hvað tekjur ríkissjóðs þurfa að verða mun meiri á næsta ári heldur en yfirstandandi ári og að tekjurnar byggjast á verðbólgunni. Annar þáttur í þessu fjárlagafrv. er sá, að það er ekki gert ráð fyrir því, að ríkissjóður hafi tekjur samkv. fjárlagafrv. til þess að greiða niðurgreiðslurnar nema til 1. nóv. Þá á verðstöðvunin að vera búin og einnig sá þáttur ríkissjóðs að greiða niður verðlag í landinu. Hvað tekur þá við? Nú verðum við að gera ráð fyrir því, að lífið haldi áfram, þó að 1. nóv. komi 1967. Ef tekinn er meðaltalsmánuður á niðurgreiðslunum árið 1967, mun ríkissjóð vanta 100–120 millj. kr. tekjur til þess að mæta niðurgreiðslum þessa tvo síðustu mánuði ársins, en fjárlagafrv. gerir ekki ráð fyrir, að ríkissjóður greiði neitt í niðurgreiðslur. Ef þetta hins vegar færi á þann veg, að hætt yrði við niðurgreiðslurnar 1. nóv., mundi það þýða, að vísitalan hækkaði um 25 stig. Þegar þetta er haft í huga, ætti öllum að vera ljóst, hvers virði það frv., sem var verið að afgreiða hér í , hv. Nd. í gærkvöld, er íslenzku þjóðinni um verðstöðvun, þegar ekki er einu sinni gert ráð fyrir því að halda út um niðurgreiðslurnar samkv. fjárlagafrv., sem nú er verið að afgreiða. Og ef þeim yrði hætt, mundi það þýða hækkun á vísitölunni sem svarar 25 stigum. Hér er um mjög alvarlega atburði að ræða, og ég sé ekki, með hvaða hætti hæstv. ríkisstj. getur boðað þjóðinni trú á verðstöðvunarstefnu sína, sem hún hefur haldið uppi tali um síðustu daga, eftir að það er augljóst, að það er ekki einu sinni hægt að halda út árið 1967 um niðurgreiðslur, hvað þá lengur, og tekjuhlið fjárlagafrv. er byggð á því, að verðbólgan haldist og spennan í viðskiptalífinu.

Ég vil líka víkja að því, að í sambandi við þann málaflokk fjárlagafrv., er lýtur að ríkissjúkrahúsunum, er gert ráð fyrir því, að daggjöldin hækki um 50 kr. á dag frá 1. janúar. Fjármál sjúkrahúsanna eru byggð upp á þessu, og framlag ríkisins á 12. gr. er við það miðað. Nú er komin verðstöðvun í landinu, og það hefur áhrif t.d. fyrir bæjar- og sveitarfélögin. Ef þetta verður framkvæmt á þá leið, geta þau ekki komizt af með þá fjárhagsáætlun, sem þau hefðu að öðrum kosti getað komizt af með, ef daggjöldin hækkuðu ekki. Fjárlagafrv. gerir ráð fyrir 50 kr. hærri greiðslu á dag með hverjum sjúklingi á ríkissjúkrahúsunum, en verðstöðvunin bannar framkvæmdina, Hvernig hæstv. ríkisstj. ætlar að leysa þetta mál; er mér ekki alveg ljóst, en samhengi er ekki á milli hlutanna þarna frekar en í fyrri dæmum.

Ég vil líka benda á það, að á fjárl. fyrir árið 1965 er 10 millj. kr. greiðsla á 20. gr., sem er framlag Íslands til Alþjóðabankans, og í grg. fyrir fjárlagafrv. það ár er gert ráð fyrir því, að þessi greiðsla haldist næstu 5 árin. Nú mun hún hafa fallið niður á fjárl. fyrir árið 1966, og hún er ekki tekin upp heldur á fjárl. fyrir árið 1967. Það eru að vísu ekki stórar fjárhæðir í 5 milljarða fjárl., 10 millj. kr., en skemmtilegra hefði verið samt að hafa þær með á fjárlagafrv. því, sem nú á að fara að afgreiða.

Þá vil ég benda á það, að þetta fjárlagafrv. hefur ósköp svipuð einkenni og fjárl. fyrir árið 1959. Þá var farið inn á þá braut að taka inn á tekjuhlið fjárl. greiðsluafgang frá fyrra ári. Það voru 25 millj. kr., sem var áætlaður á tekjum fjárlaganna fyrir 1959 greiðsluafgangur frá 1958, og 30 millj., sem voru tolltekjur frá rafveitunum, sem einnig var reiknað með. Á þessu fjárlagafrv. er einnig farið að vísa á greiðsluafgang ársins á undan. Í sambandi við tæknisjóð landbúnaðarins, sem var verið að fjalla hér um í gær, er gert ráð fyrir því, að framlagið 1967 verði greitt af greiðsluafganginum 1966. Þannig er farið að í sambandi við fjárlagaafgreiðsluna nú að nota greiðsluafgang frá fyrri ári. Og í annarri heimildargrein er einnig vísað til annarra útgjalda, í sambandi við kalskemmdirnar, á greiðsluafganginn frá 1966. Um það gegnir þó öðru máli. En að nota 10 millj. frá tekjuafgangi 1966 þýðir það, að á fjárl. 1968 verða tekjur að koma til þess að mæta þeim 10 millj., sem er gert ráð fyrir að verði á fjárl. þess árs.

En það eru fleiri málaflokkar, sem vísað er til framtíðarinnar í sambandi við þessa fjárlagaafgreiðslu, heldur en þessir tveir, sem ég hef hér vitnað til, enda er þar um smáar upphæðir að ræða. En það eru málaflokkar eins og skólamálin, sem er stór og fyrirferðarmikill málaflokkur í okkar landi, sem ekki er að undra hjá ört vaxandi þjóð, sem eins og aðrar þjóðir gerir sífellt meiri og meiri kröfur til menntunar þegna sinna. Og nýlega hefur hæstv. menntmrh. gefið út tilskipun um það, að börn og unglingar skuli ljúka unglinganáminu innan veggja barnaskólanna. M.a. þessi ákvörðun hæstv. menntmrh. gerir það að verkum, að þörfin fyrir fleiri og stærri skóla vex og þörfin fyrir betra húsnæði í skólum vex að sama skapi. Við höfum á síðari árum byggt þó nokkuð mikið af skólum, en betur má, ef duga skal, því að hér er um framkvæmdir að ræða, sem ekki þola bið og verður að leysa jafnharðan, eins og þörfin krefur.

Samkv. þessu fjárlagafrv., sem hér liggur fyrir nú, mun vanta 60–70 millj. kr., til þess að þær skólabyggingar, sem þar er gert ráð fyrir að samþykkja, hafi þær fjárveitingar, sem lög gera ráð fyrir. Þá miða ég við það, að 5 ára greiðslutímabilið nái a.m.k. til raunhæfrar áætlunar. Upp hefur verið tekin sú regla nú að láta greiðslutímabilið ná til þeirra 5 ára eða þeirrar áætlunar, sem upphaflega er miðað við, en leiðrétta aftur og taka þá tillit til verðhækkana á næstu þrem árum. Þetta þýðir í framkvæmd það, að skólar eru að fá sínar greiðslur til framkvæmdanna í 8 ár í staðinn fyrir 5. Þetta þýðir í raun og veru miklu meira en það, vegna þess að ef þetta hefði eingöngu náð til verðhækkana, eins og í upphafi var gert ráð fyrir, hefði þetta ekki verið mjög stórt mál, eins og það er víða nú. Nú hefur það hins vegar sýnt sig, að í sambandi við undirbúning að framkvæmdinni hefur sá skóli, sem byggður hefur verið, kannske verið meira en tvöfalt stærri miðað við það, sem upphaflega var ætlazt til, og þess vegna sú framkvæmd margfalt meiri en gert var ráð fyrir. T.d. vil ég nefna það, að húsmæðraskóli, sem er verið að byggja austur á Laugarvatni nú, — það er gert ráð fyrir 16 millj. kr. framkvæmd, — sú framkvæmd er ekki fokheld, en hún mun ábyggilega vera komin í 16 millj. og vel það. Fleiri dæmi mætti nefna, sem sýna, hvað undirbúningur víða er fráleitur og hvað þær áætlanir, sem upphaflega var miðað við, eru fjarri öllu lagi. Og þeir aðilar, sem fyrir framkvæmdinni standa, geta ekki leyst þessi mál, svo að viðunandi sé. Það hefði því verið full þörf á því við þessa fjárlagaafgreiðslu að taka til endurskoðunar og breytingar þessar áætlanir og gera þær raunhæfar miðað við það, sem nú liggur fyrir. Hér er um stórmál að ræða, og ef áfram heldur á þeirri braut, að mismunurinn á milli áætlana og framkvæmdarinnar fyrir utan verðhækkun er svo mikill sem nú er, stefna þessi mál í mjög mikla tvísýnu.

Það hefur oft borið hér á góma og var mikið rætt af hæstv. fjmrh. við 1. umr. fjárlagafrv., hvað þessum undirbúningi væri ábótavant. Það er alveg ljóst, að hér þarf mjög að bæta um vinnubrögð, og það er ekki hægt að hugsa sér framkvæmdina eins og nú er, að ein ríkisstofnunin afgreiða þennan þáttinn, önnur hinn og svo, þegar komið sé til Alþ. og rn., sé í rauninni ekkert af því viðurkennt, sem búið er að gera. En þannig er það, að hjá húsameistaraembættinu eru margir skólarnir teiknaðir og undirbúnir, samþ. af fræðslumálastjóraembættinu, en þegar kemur svo til Alþ. og á að fara að afgreiða málið, hrýs mönnum hugur við þeirri breytingu, sem á hefur orðið.

Ég vil taka undir það, að þessi mál þarf að undirbúa betur en gert hefur verið, og það verður að hverfa að því að samþykkja á Alþ. raunhæfar áætlanir og miða fjárveitingar við það. Við komumst ekki hjá því að stórauka fjárveitingar til skólabygginga á næstu árum, hvort sem okkur líkar það betur eða verr. Þær skólabyggingar, sem nú eru í framkvæmd, krefjast þess, og þeir aðilar, sem fyrir þeim hafa staðið, geta ekki staðið undir þeim kostnaði, sem ríkinu ber að greiða, eins og þeir verða að gera nú. Þess vegna verður hér að verða á breyting, en það kostar nokkra tugi millj. að gera þá leiðréttingu.

Í sambandi við þetta fjárlagafrv. vil ég benda á það, að þar er engin fjárveiting umfram það, sem var í frv., þegar það var lagt fram í haust, til aðstoðar við atvinnuvegina, þó að mál atvinnuveganna hafi verið mál dagsins og mjög til umr. á yfirstandandi hausti. Hver ráðstefnan hefur verið haldin annarri meiri til þess að ræða ástand atvinnuveganna, togaranna, vélbátaflotans og frystihúsanna. Allar hafa þær lokið upp einum munni um það, að þessir atvinnuvegir gætu ekki haldið áfram starfsemi sinni án þess að fá aukið fjármagn til þess að leysa sín vandamál. Fjárlagafrv. gerir ekki ráð fyrir öðru en þeim 80 millj., sem eru á 16. gr., voru á fjárl. s.l. ár, og gert er ráð fyrir, að það verði það eina, sem ríkið kann að veita til aðstoðar við þessa atvinnuvegi. En þeim, sem hafa fylgzt með umr, um þessi mál, er ljóst, að vandamál þessara atvinnuvega verða ekki leyst með þessum 80 millj. Þegar þetta er haft í huga, til viðbótar því, sem ég hef hér sagt um niðurgreiðslurnar, um þá útgjaldaliði, sem vantar á fjárl., um ástandið í skólamálum, sjáum við, hvað þessi fjárlög eru fjarri raunveruleikanum. Verkefnið, sem þessi fjárlög þurftu að ná til, er miklu stærra og meira en hér er tekið til meðferðar. Það verður að bíða seinni tíma að leysa það eða annað fjármagn að koma til, ef um lausn á að vera að ræða.

Á þeim árum, sem hæstv. ríkisstj. hefur farið með fjármál í landinu, þ.e. frá 1960, — ég sleppi nú árinu 1959, — hefur ríkisstj. haft til meðferðar og ráðstöfunar hartnær 19 milljarða. Einhvern tíma hefði verið hægt að leysa mörg og mikil verkefni fyrir þær fjárhæðir. En þegar við lítum til þeirra verkefna, sem leyst hafa verið á þessum árum, og athugum fjármál þeirra, verður ljóst, að verulegar fjárhæðir eru geymdar til framtíðarinnar. Ég gat þess við 2. umr. fjárl., að það mundu vera um 65 millj. kr., sem vantaði, til þess að ríkissjóður hefði greitt sinn hluta af venjulegum hafnarframkvæmdum í árslok 1966. Samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef síðan fengið um landshafnirnar, þ.e. Rif á Snæfellsnesi, Njarðvíkurhöfnina og Þorlákshöfn þar með talin, er á 2, hundrað millj. kr. lán á þessum höfnum sem gert er ráð fyrir, að ríkissjóður verði að standa undir í framtíðinni. Það mun því láta nærri, að það séu 200 millj. kr. ógreiddar í hafnarframkvæmdum þeim, sem búið er að gera á síðustu árum og ríkissjóður verður að greiða með tekjum sínum eftir árið 1967. Ég benti á það hér áðan, að það mundi þurfa um 70 millj. kr. á ári, til þess að lögum samkv. væri fullnægt fjárveitingum til skólabygginga þeirra, sem inn á fjárl. eru komnar. Flugvellirnir munu skulda í framkvæmdir um 10 millj. kr. Og samkv. því, sem fram kemur í skýrslu vegamálastjóra, sem liggur hér fyrir hv. Alþ., munu skuldir vega í landinu fyrir utan smærri skuldir, sem oft hafa átt sér stað í sambandi við væntanlegar fjárveitingar, en hinna stærri vega, skuldir í þeim munu vera um 300 millj. kr. Keflavíkurvegurinn kostaði um 270 millj. kr., Siglufjarðarvegurinn 30–40 millj. kr. á þessum árum. Það mun því láta nærri um þau einu verulega stóru átök, sem gerð hafa verið í vegamálum, að það séu skuldir á móti þeim, svo að framtíðin verði að greiða þau átök, sem búið er að gera í vegamálum. Þetta sýnir, að þessir 19 milljarðar, sem hv. ríkisstj. hefur haft til ráðstöfunar til ársloka 1966, — það er ekki talið með árið 1967, — hafa ekki nægt til þess að leysa þau verkefni, sem leyst hafa verið á þessu tímabili, og sáralítið af þeim, því að stóru átökin, bæði í vega- og hafnarmálum, bíða framtíðarinnar. Ef þessir liðir eru teknir saman, sem ég hef hér gert, þá sýnist mér, að í þessum framkvæmdaliðum séu skuldirnar um 500–600 millj. kr. Auk þessa er svo það, sem ég tók fram í upphafi máls míns, sem vantar til þess að ráða við verðbólguna árið 1967, og þeir smáliðir aðrir, sem þar eru ekki greiddir af tekjum ársins. Það ætti því hv. þm. að vera ljóst, að verkefnin, sem framtíðin þarf að fást við í fjármálum íslenzka ríkisins, eru ekki lítil og arfurinn, sem viðreisnin skilar á góðu árunum, er sorglega lítill. Það er aukin verðbólga og útgjöld, sem framtíðin verður að leysa, af því að tekjur góðæranna dugðu þar ekki til.