07.04.1967
Neðri deild: 60. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1262 í B-deild Alþingistíðinda. (1139)

105. mál, orkulög

Frsm. 1. minni hl (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Nál. frá 1. minni hl. fjhn., þ.e.a.s. hv. 11. þm. Reykv. og mér, liggur fyrir á þskj. 339. Við viljum gera nokkrar breyt. á þessu frv. og flytjum till. um það á þskj. 340. Fyrst viljum við breyta 7. gr. frv. Við viljum, að einkaréttur ríkisins til að reisa og reka orkuver yfir vissa stærð haldist óbreyttur eins og hann nú er í lögum. Þess hefur ekki orðið vart, að þau ákvæði hafi orðið neinum aðila fjötur um fót í þessum efnum. Og við viljum láta haldast þá heimild handa ráðh., sem nú er í raforkulögunum um að veita sveitarfélagi, einstökum manni eða félagi leyfi til að reisa og reka raforkuver, allt að 2 þús. kw. að stærð til að fullnægja rafaflsþörf sinni, ef rafmagnsveitur ríkisins eða héraðsrafmagnsveitur geta eigi eða óska eigi að láta rafafl í té. Þetta er þannig nú í lögum og við viljum láta þessa heimild ráðh. haldast óbreytta, en að öðru leyti verði óbreytt einnig ákvæði um rétt ríkisins í þessu efni.

Gert er ráð fyrir því, að þegar þetta frv. verður að lögum, þá falli úr gildi raforkulögin, sem sett voru árið 1946. Skv. þeim l. hefur þingkjörið raforkuráð gegnt þýðingarmiklu hlutverki við meðferð raforkumála. Það er vitanlega úr sögunni um leið og raforkulögin verða afnumin. Verkefni ráðsins hefur verið að fylgjast með stjórn og framkvæmdum í raforkumálum, gera till. um þau efni og vera ríkisstj. til ráðuneytis í þeim málum. Skv. lögum hefur raforkuráðið fengið til athugunar og umsagnar till. um að reisa ný orkuver og orkuveitur, till. um gjaldskrá rafmagnsveitna ríkisins, reikninga og fjárhagsáætlanir þeirra fyrirtækja o. m. fl. Nú á að hverfa úr sögunni þetta ráð, en hins vegar er í þessu frv. í kaflanum um orkusjóð gert ráð fyrir, að Alþ. kjósi svonefnt orkuráð, en verkefni þess á að vera það eitt að fara með stjórn orkusjóðs undir yfirstjórn ráðherra. Hinu nýja ráði er því ætlað miklu þrengra verksvið og valdsvið en raforkuráðinu, sem nú starfar. Við getum ekki fellt okkur við þetta og flytjum því till. um, að inn í frv. verði bætt nýjum kafla um stjórn orkumála, sem kæmi í staðinn fyrir kaflann um stjórn raforkumála, sem nú er í gildandi l., og hliðstæðum honum. Og í þeim kafla verða að sjálfsögðu ákvæði um kosningu orkuráðs, eins og þau eru nú í ákvæðunum um orkusjóð, og verkefni orkuráðsins verði þar ákveðin, með hliðsjón af fyrirmælum gildandi laga um verkefni ráforkuráðs. Um þetta er 4. brtt. okkar, þennan nýja kafla um stjórn raforkumála, þar sem verði sett ákvæði í 5 greinum um kosningu orkuráðsins, óbreytt eins og þau eru í frv., en síðan í næstu greinum ákvæði um verkefni ráðsins, og er það eins og ég sagði áðan hliðstætt við verkefni raforkuráðs skv. gildandi l. Sumar þessar brtt., sem við flytjum, þurfa ekki skýringa við, en ég vil nefna hér eina og hún er við 71. gr. frv., þ. e. 11. brtt. á þskj. 340. Í 71. gr. frv. er ákvæði um það, að orkusjóði skuli heimilt að veita einstökum bændum eða fleiri saman lán til að reisa vatnsaflsstöðvar til heimilisnota utan þeirra svæða, sem héraðsrafmagnsveitum er ætlað að ná til, og megi lánin nema allt að 2/3 stofnkostnaðar viðkomandi vatnsvirkjunar og línulagna heim að bæjarvegg. Við leggjum til að í staðinn fyrir, að heimilt sé að lána allt að 2/3, komi allt að 4/5.

En síðasta brtt. okkar, sú 12., sem við teljum þýðingarmesta og viljum leggja mesta áherzlu á að verði samþ., er um það, að við frumvarpið bætist eftirfarandi ákvæði til bráðabirgða, sem ég vil, með leyfi hæstv. forseta, lesa:

„Á árunum 1967 til 1969 skal leggja rafmagnslínur frá rafmagnsveitum ríkisins til allra heimila, sem ekki hafa áður fengið rafmagn frá. samveitum eða sérstökum vatnsaflsstöðvum, þar sem meðallínulengd milli býla er 2 km eða minni. Skal framkvæmdunum skipt sem jafnast á árin. Rafmagnsveitustjóri skal gera kostnaðaráætlanir um raflínulagnir frá rafmagnsveitum ríkisins um þær byggðir, þar sem meðallínulengd milli býla er 2–2½ km og 2½–3 km. Einnig geri hann tillögur um uppsetningu dísilstöðva til rafmagnsframleiðslu á þeim heimilum, sem eru svo mjög afskekkt, að ekki þykir fært að leggja til þeirra raflínur frá samveitum og ekki hafa hagstæð skilyrði til vatnsaflsvirkjunar, og séu till. við það miðaðar, að notendur slíkra stöðva njóti ekki minni stuðnings af opinberri hálfu en þeir, sem fá rafmagn frá samveitum. Áætlanir þessar og tillögur verði gerðar og lagðar fyrir Alþingi eigi síðar en 1. nóv. 1967.“

Ég vil leyfa mér að fara nokkrum orðum um þessar brtt. okkar.

Um s.l. áramót munu rúml. 3800 sveitabýli hafa haft rafmagn frá samveitum og sérstökum vatnsaflsstöðvum. Má því áætla, að það séu nálægt því 1500 heimili, sem hafa hvorugt þetta. Miðað við þá áætlun, sem raforkumálaskrifstofan gerði árið 1964, má gera ráð fyrir, að um það bil helmingur af þessum 1500 býlum sé á svæðum, þar sem meðalvegalengd milli heimila er 2 km eða minni. En skv. till. okkar í 1. minni hl. eiga þau að fá raflínur frá samveitum á þessu og næstu 2 árum, þ. e. fyrir árslok 1969. Verða þá eftir sennilega 600–800 sveitaheimili, sem ekki hafa rafmagn frá samveitum eða sérstökum vatnsaflsstöðvum. Og við leggjum til í till. okkar um bráðabirgðaákvæði, að gerðar verði áætlanir nú á þessu ári um kostnað við að leggja raflínur til býla, þar sem meðalvegalengd er í fyrsta lagi 2–2½ km og í öðru lagi 2½–3 km. Þetta er áreiðanlega auðvelt verk fyrir raforkumálaskrifstofuna og það er nauðsynlegt að fá slíkar áætlanir, til þess að Alþ. geti tekið ákvörðun um, að hve miklu leyti raforkuþörf fólksins verður fullnægt með línum frá samveitum. En sjálfsagt er að ganga svo langt í því efni sem mögulegt þykir kostnaðar vegna, því að á þann hátt fá menn bezta og öruggasta þjónustu. En hvað sem ofan á verður í því efni, má gera ráð fyrir, að nokkur hundruð býli geti ekki fengið rafmagn frá samveitum vegna fjarlægðar, og þá er að leita að úrræðum fyrir þau. Trúlegt er, að eitthvað af þeim hafi skilyrði til sérstakrar vatnsaflsvirkjunar til rafmagnsframleiðslu, og þarf að aðstoða þau við að nota þá möguleika, ég nefndi þarna áðan brtt. okkar um að hækka lánin til þeirra. En þar sem þeir möguleikar eru ekki fyrir hendi, mun tæplega um annað að ræða en mótorstöðvar, og í till. okkar er rafmagnsveitustjóra ætlað að gera till. um uppsetningu þeirra. Allmörg býli hafa nú mótorstöðvar til raforkuframleiðslu. En ég tel þau ekki hér með rafvæddum heimilum, því að þar er í mörgum tilfellum um ófullkomið bráðabirgðaúrræði að ræða, á meðan beðið er eftir öðru betra. En eins og áður segir, leggjum við til, að gerðar verði áætlanir um uppsetningu slíkra stöðva fyrir þá, sem ekki eiga völ á öðru betra, þó að sú úrlausn sé mjög ófullkomin í samanburði við rafmagn fá samveitu. Tillögur þessar eiga að miðast við það, að notendur þeirra fái ekki minni opinberan stuðning en þeir njóta, sem fá rafmagn frá samveitum. Þar gæti komið til greina, að rafmagnsveitur ríkisins setji stöðvarnar upp og eigi þær og láni með sanngjörnum kjörum. Aðstoð í öðru formi getur líka komið til greina, ef hentara þætti, en þetta er rannsóknarefni.

Við leggjum áherzlu á, eins og ég sagði áðan, að till. okkar um bráðabirgðaákvæði verði samþ. Það má ekki dragast lengur að láta fólkið, sem enn er án rafmagnsins, vita, hvers það má vænta. Og ákvarðanir í þessu efni hafa þegar dregizt lengi. Það er ekki hægt, nú á síðasta þriðjungi 20. aldarinnar, að ætla fólki að búa á rafmagnslausum heimilum. Það er lítið fjárhagslegt átak að ljúka því verki að koma rafmagninu til allra landsmanna á allra næstu árum. Vilji er allt, sem þarf.