14.12.1966
Sameinað þing: 16. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 245 í B-deild Alþingistíðinda. (114)

1. mál, fjárlög 1967

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr., en vil þó aðeins skjóta hér að örfáum orðum.

Ég er satt að segja orðinn dálítið þreyttur á að heyra eilífar fullyrðingar manna um það, að allt böl stafi af einhverri útþenslu í starfsmannakerfi ríkisins. Ég skal ekki fara út í þá sálma, en aðeins benda á það, að ræðumanni stendur nú til boða að ljá kannske lið sitt til að fækka eitthvað starfsmönnum ríkisins. Það liggur hér fyrir Alþ. frv. um fækkun prestakalla, og það kynni að vera, að hv. þm. gæti þá lagt sitt lið til að stuðla að því að fækka þessu embættismannaliði, sem virðist vera ógæfa alls í þjóðfélaginu að hans dómi og reyndar ýmissa annarra. En nóg um það.

Ég taldi rétt að standa hér upp vegna þess, að hann vildi gera stórmál úr því, að það hefði verið sýndur sérstaklega lítill skilningur á málefnum vélasjóðs og þá um leið að vissu leyti á ræktunarmálum landbúnaðarins, og taldi, að þeir framsóknarmenn hefðu sérstöðu í því efni. Ég efast ekkert um góðan hug þeirra í þessu máli, en ég vil algjörlega mótmæla því, að það sé nein viðleitni frá hálfu ríkisvaldsins til að setja fótinn fyrir ræktunarstarfsemi í landinu.

Hitt er annað mál, sem við getum ekki fram hjá gengið, að fótunum hefur að verulegu leyti verið kippt undan vélasjóði, og gerir það að verkum, að það er óumflýjanlegt að taka mál hans til rækilegrar endurskoðunar, og það er einmitt það, sem nú er verið að gera. Það hefur aldrei verið ætlunin, að vélasjóður væri rekinn með halla, og aldrei verið ætlunin, að ríkið styrkti rekstrarkostnað vélasjóðs. Ríkið greiðir sín framlög til ræktunarframkvæmda, og það er rétt hjá hv. þm., að það er gert ráð fyrir, að það hlaupi undir bagga með vélakaup vélasjóðs, en ekki að greiða rekstrarhalla hans. Það, sem gerzt hefur síðustu árin og hv. þm. rakti alveg réttilega, er nákvæmlega það, að það eru svo margir aðilar í landinu, sem hafa fengið jarðræktarvélar og starfa með þær og velja sér að sjálfsögðu framkvæmdir, að það hefur leitt af sér síversnandi afkomu vélasjóðs og hann verður ekki rekinn áfram að óbreyttum aðstæðum. Það verður að endurskoða allt það kerfi. Það er ekki hægt að borga honum milljónahalla á hverju ári, og það getur vel verið, að það sé mun eðlilegri leið að stuðla að því meira en gert hefur verið, að ræktunarsamböndin sjálf geti eignazt sínar vélar. Hvaða vit er líka í því að vera að þeyta þessum vélum til og frá um landsbyggðina? Það er eðlilegt, að þær séu staðsettar í þeim byggðarlögum, þar sem þær eiga að vinna. Það hefur ekki verið dregið úr styrk til kaupa véla ræktunarsambanda, hvað magn þeirrar aðstoðar snertir, því að áður var útvegaður helmingur þess fjármagns, sem til þess þurfti, sem styrkur. Nú hefur styrkurinn verið 25% og þar að auki 30% lán, sem ekki var áður, þannig að samtals hefur verið greitt fyrir fjáröflun á sama hátt og áður var.

En ég skal ekki orðlengja um þetta, en láta það aðeins koma fram í tilefni af orðum hv. þm., að því fer fjarri, að það beri að líta svo á, að það, að ekki hafi verið tekin upp fjárveiting til að greiða rekstrarhalla vélasjóðs eða til nýrra vélakaupa hans, það beri að túlka svo, að menn vilji ekki standa að ræktun í landinu. (Gripið fram í.) Já, vélakaupin, það þarf líka að borga rekstrarhalla sjóðsins. Mér er vel kunnugt um það, því að forráðamenn hans hafa komið að máli við mig um það, að það er stórfelldur rekstrarhalli á sjóðnum að auki. Og það verður að gera sér grein fyrir því, hvort sjóðurinn á að halda áfram starfsemi sinni eða ekki og hvernig er þá hægt að leggja grundvöll að því starfi. Það tjóar ekkert að vera að kaupa nýjar vélar, nema gera sér grein fyrir þessu. Ég vil aðeins, að það komi fram, að þetta mál er í athugun, en alls ekki tímabært á þessu stigi að slá fastri niðurstöðu í því efni, því að það verður að sjálfsögðu að velja þá aðferð, sem er líklegust til þess að tryggja það, að hægt verði að vinna sem ódýrast að þessum ræktunarframkvæmdum. Um það er ég alveg sammála hv. þm.