11.04.1967
Neðri deild: 64. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1315 í B-deild Alþingistíðinda. (1156)

105. mál, orkulög

Frsm. meiri hl. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Það voru aðeins örfá orð út af ræðu hv. 3. þm. Reykv., Einars Olgeirssonar, þar sem hann átaldi mjög þá breytingu, sem nú hefur verið gerð á frv. í sambandi við kröfur til embættisgengis við þær tvær stöður, sem hér er um að ræða, rafmagnseftirlitsstjórastöðu og svo forstjóra rafmagnsveitna ríkisins. Ég held, að ég fari rétt með það, að í l. eins og þau eru í dag er ekki gerð krafa til þess, að þessir aðilar séu verkfræðingar, þannig að það, sem n. hefur lagt til, er að láta gilda um embætti þessara aðila sömu kröfur og gilda í dag. Það er hins vegar hægt að koma þá með þau rök eins og hv. þm. gerði og segja: Ja, það er töluvert mikill munur á því, hvort þessir embættismenn starfa sjálfstætt eða hvort þeir eru undirmenn embættismanns, sem er verkfræðingur. Þetta er út af fyrir sig sjónarmið.

Hitt vil ég svo láta fram koma, að nm. voru allir á einu máli um að fella þessar mgr. niður úr frv., og það var einmitt byggt á því, að t. d. í starf rafmagnseftirlitsstjóra gæti alveg eins verið ráðinn tæknimenntaður maður og hann ekkert síður kvalifiseraður í stöðuna en háskólamenntaður maður. Ég gat þess hér í minni framsögu, að á það hefði verið minnzt, að í stöðu rafmagnsveitustjóra væri ekkert síður hægt að skipa mann, sem lærður væri til fjársýslu, því að sjálfsögðu hafa þessar stofnanir meira og minna tæknimenntaða menn, verkfræðinga eða tæknifræðinga, í sinni þjónustu, og fyrirtæki eins og t. d, rafmagnsveitur ríkisins getur einfaldlega haft í sinni þjónustu menn, sem eru menntaðir til hagsýslu.

Ég vildi aðeins láta þetta koma fram út af því, sem hv. þm. gat um hér áðan og endurtek, að nm. voru allir á einu máli um að fella þetta niður, einmitt út frá því sjónarmiði, að það gæfi möguleika á því, að fleiri vel menntaðir aðilar gætu raunverulega átt kost á því að taka að sér þessi störf: