14.04.1967
Neðri deild: 67. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1385 í B-deild Alþingistíðinda. (1235)

198. mál, síldarverksmiðjur ríkisins

Félmrh. (Eggert G. Þorsteinsson):

Herra forseti. Frv. þetta er flutt að beiðni fjögurra samtaka, L.Í.Ú., Sjómannasambands Ísl., Farmannasambands Ísl. og Alþýðusambands Ísl. Efni frv. er ákaflega einfalt, sem sé það, að útvegsmenn fái einn fulltrúa til viðbótar við þá, sem fyrir eru í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins, og að samtök sjómanna, sem eru innan hinna þriggja sambanda, er ég síðast nefndi, fái sameiginlega að kjósa eða tilnefna annan fulltrúa í stjórn Síldarverksmiðja ríkisins. Það er óþarft að skýra hv. þm, frá því, að mörg undanfarin ár hafa samtök sjómanna mjög eindregið óskað eftir því, og sérstaklega hafa þær kröfur komið upp í sambandi við ákvörðun um verðlagningu síldar árlega, að þeir ættu þarna atbeina stjórnaraðila. Nú nýlega hefur borizt formleg ósk frá þessum þrennum samtökum um, að við þessu verði orðið. Ákvað ríkisstj. að leggja þetta mál fyrir Alþ. svo fljótt sem frv. fengist úr prentun, og því var nú útbýtt í morgun. Mér er það fullvel ljóst, að frv. er það seint fram komið á starfstíma þingsins að lítil sem engin von er um afgreiðslu málsins, nema um það geti orðið allsherjar samkomulag. Ég hygg, að menn greini heldur ekki á um það, að eðlilegt sé, að samtök þessara aðila eigi þarna stjórnaraðild, hvort sem mönnum kann að þykja tilnefningin vera frá réttum aðilum eða ekki. Ég hef nú orðið þess var, að ýmsir telja þarna æskilega beina aðild hins nýstofnaða félags síldarsjómanna, en mér er tjáð, að það hafi verið form. þeirra samtaka, sem flutti þessa till. í stjórn Farmannasambandsins, en þaðan er till. komin, svo að ég verð að trúa því, að till. sé flutt í fullu samráði og samstarfi við þetta nýstofnaða félag, þótt fyrirhuguð sé aðild þessara þriggja samtaka. Ég tel, að ekki sé þörf á að rekja efni þessa frv. frekar en gert er í grg., en vænti þess, að sú n., sem málið fær til meðferðar, vinni skjótlega að afgreiðslu þess, því að það er, eins og ég áðan sagði, algjör forsenda þess, að frv. nái fram að ganga, að sem víðtækust samstaða sé um það og að samstarf takist með sjútvn. beggja d.

Ég óska þess, herra forseti, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.