17.04.1967
Neðri deild: 71. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 1473 í B-deild Alþingistíðinda. (1293)

159. mál, skólakostnaður

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Áður en ég vík að efnishlið þessa máls, kemst ég ekki hjá því að lýsa megnri furðu minni á því, að svona máli skuli vera kastað hér inn í þingið alveg í þinglok, enda hefur allur ferill þessa máls verið ein hrakfallasaga og er ekki lokið enn. Þetta bætist ofan á það, að sú mynd er gefin af þingræðinu hér á hv. Alþ., að fjölda stórmála er hrúgað inn í þingið á síðustu dögum þess, og það er ætlazt til þess, að þau séu afgr. í skyndi, án nokkurrar verulegrar aðstöðu til að kryfja þessi mál til mergjar, þ.e.a.s. það er sjónarspil eitt, að þau fái þinglega meðferð. Flest þessara mála eru þó þannig vaxin, að hæstv. ríkisstj. liggur bara ekkert á að keyra þau í gegn á þessum seinustu dögum þingsins. Þau mættu gjarnan bíða til upphafs næsta þings og fá umsögn þeirra aðila, sem þessi mál varða mjög mikið. Í þessu tilfelli hefði t.d. varla verið forsvaranlegt að ganga frá löggjöf án þess að senda frv. fræðslu- og skólanefndum landsins, að ég nú ekki tali um einnig þá að láta einhverja skólamenn líta á þetta. Mitt mat á þessu frv. er það, að þetta sé kontórverk suður í Reykjavík, en ekki samið af sérfræðingum í skólamálum, og það álít ég vera mjög varhugavert, að því er þá hlið málsins snertir. Það má segja kannske, að fjármálahlið málsins snerti meira sveitarfélögin og ríkið beint, en það eru vissar hliðar þessa máls, sem sannarlega snerta skólana og skólastarfið og sem ekki hefði átt að flana til að lögfesta, án samráðs við skólamenn, og ég held, að það geti ekki neinni góðri lukku stýrt að keyra málið í gegn án samráðs við þá menn, sem um lengri eða skemmri tíma eiga svo við þetta að búa sem löggjöf.

Lítum svo á hina hlið málsins, sem einnig sýnir, hvernig þingræðið er leikið nú á þessum síðustu og verstu dögum, og hún er sú, að í bunkum og hrúgum liggja frv. og till. stjórnarandstæðinga, jafnvel frá því í þingbyrjun, og hafa ekki fengið þinglega meðferð. Það er andstæðan við þau vinnubrögð, sem við eru höfð um málefni stjórnarliðsins. Hvort tveggja er ósæmilegt og óframbærilegt við Alþingi Íslendinga, bein niðurrifsstarfsemi á áliti þess hjá þjóðinni. Þessi lagabálkur hefur svo sem ekki orðið til í skyndi. Það er upplýst, að n. er skipuð til að undirbúa þessa löggjöf. Það er auðséð af ferli þeirrar n., að henni hefur þótt málið vandasamt. En það liggur svo mikið á að hrifsa málið úr höndum n., sem er búin að leggja ársvinnu í það, að henni er ekki gefið tóm til að ljúka störfum. Önnur n. er sett í málið. Það segir ekki frá því, hvort hún hefur fengið frið til að ljúka störfum eða hvort það hefur bara verið málamyndanefnd, sem sett var í það, en tvær n. eru búnar að baksa við þetta mál á annað ár eða hátt upp í tvö ár og telja málið að síðustu svo vandasamt, að mörg atriði séu ókláruð í því, þegar þeir skila málinu frá sér.

Svo kemur málið inn í þingið og þá þykir nauðsynlegt að gera á því yfir 20 breyt. N. segir frá því, að málið hafi vakið þann gust meðal ýmissa aðila, sem það varðar mjög, að það koma á fund n, þrír skólastjórar heimavistarskóla og einnig barst n. erindi frá nokkrum skólamönnum víðs vegar að, ekki til að tjá n. þakkir fyrir ágætt verk, heldur til að láta í ljós, að þeir hefðu ýmislegt við það að athuga. Á þessum stutta tíma, sem þetta mál er í meðförum þingsins hér í þinglokasúpunni, streyma menn að til þess að gera aths. við frv. og vara við ýmsu, og það er lítt á þetta hlustað. Þetta er í nál. meiri hl. með frv. Þessir aðilar, skólastjórarnir og skólamenn víðs vegar að, töldu frv. vera til nokkurra bóta frá því, sem nú er, en bentu á atriði, sem þeir töldu, að breyta þyrfti. Það var sem sé úr öllum áttum látið í ljós, að frv. væri þannig, að á því þyrfti að gera miklar breytingar. Þær aths., sem teknar voru til greina, birtast á þskj. 482, í formi 22 breytingaratriða við frumvarpið.

Ég held, að þetta eitt sýni nú, að þetta frv. þurfti gaumgæfilegrar athugunar. En ekki nóg með það. Þegar menn hafa ræðzt við hér um málið um sinn, neyðist sjálfur menntmrh. til að koma með hverja brtt. á fætur annarri sjálfur, skrifl. breyt. með afbrigðum hér á Alþ., til þess að berja svolítið í brestina á síðustu stundu. Og það er vitanlega ekki gert af hæstv. ráðh. fyrr en hann sér, að þessi ákvæði, sem hann gengst inn á að breyta, eru alveg fráleit, enda voru þau það. Þau hefðu verið Alþ. til skammar, ef þau hefðu sloppið hér í gegn. Og það er ég alveg viss um að ef þessa undansláttar hefði þó ekki orðið vart og þetta fengizt fram, hefði það orðið Pyrrhusarsigur hjá hæstv. ríkisstj. að fá lögfestingu á. þessu máli, því að það hefði einhver þeirra þm. orðið fyrir skrámum í kosningabardaganum út af lögfestingu þessara atriða. Það er ég alveg sannfærður um.

En það eru eftir mörg atriði í frv. enn, sem þeir geta fengið skeinur af, og væri maklegt, að þeir fengju. Ég minnist þess bara ekki, að mál hafi verið afgreitt með neitt svipuðum hætti á hv. Alþ. þau 20 ár, sem ég er búinn að vera hér að störfum. Ráðh. kemur sjálfur af knýjandi nauðsyn fram með skrifl. brtt. við 3. umr. málsins til þess að lögfesta ekki ákvæði, sem hefðu kannske valdið uppreisnarástandi í sumum sveitum landsins sem ranglætisverk og gjörsamlega óhugsuð. En ég skal ekki fara vandlega út í frv., eins og það nú liggur fyrir. Það er til nokkurra bóta, að burt er nú numin 14. gr. frv. og breyt. gerð á 21. gr., nálega helmingur hennar felldur niður líka. En þar með er ekki búið að sníða öll vansmíði af þessu frv.

Ég felli mig illa við það, ef það er meiningin að fara að setja upp tæknilegar deildir í öllum rn. Það er a.m.k. víst, að það kemur til með að kosta ríkið ærið fé. Skv. 5. gr. þessa frv. á að setja á stofn í menntmrn. deild, sem hafi með höndum eftirlit með byggingu skólamannvirkja, og í deildinni skuli m. a. starfa húsameistari, verkfræðingur og byggingaeftirlitsmenn, heil sveit manna bara til þess að hafa eftirlit með skólabyggingum út af fyrir sig. Hvaða þörf er á því að hafa sérstakt eftirlit tæknifróðra manna með skólabyggingum? Þarf ekki líka að hafa það með öllum öðrum opinberum byggingum? Hefur ekki ríkið einmitt haft slíka eftirlitsmenn með opinberum byggingum almennt? Á að koma sérstök deild eftirlitsmannú og sérfræðinga í heilbrmrn. varðandi byggingu sjúkrahúsa? Á að koma sérstök deild tæknifróðra manna í dómsmrn. til þess að hafa eftirlit og undirbúa tæknilega byggingu sýslumannabústaða? Á að vera sérstök deild, tæknileg deild, í kirkjumálarn. til þess að undirbúa byggingu prestssetra? Og svona mætti lengi telja. Þessi starfsemi hefur hingað til farið fram á vegum húsameistara ríkisins og hans skrifstofu og sérstaks eftirlitsmanns af hendi ríkisins. Lengi var Björn heitinn Rögnvaldsson einn með þetta eftirlit allt saman og hafði þá menn í þjónustu sinni, ef hann ekki annaði því einn, en þetta var undir einni stjórn.

Þarna er eins og að þessum málum sé staðið þannig, að það sé bara um að gera að færa út ríkisapparatið og láta það kosta sem mest, en ég er viss um, að þetta gefst því verr, sem því er skipt meira upp. Ég er þess vegna alveg andvígur þessum ákvæðum í 5. gr., og sé a.m.k. enga sparnaðarviðleitni í því, og það, sem verst er, þetta mun koma að verra gagni en með því að hafa þetta á einni hendi hjá ríkinu. Það er lengi hægt að auka við stofnunum og ausa þannig út fé ríkisins, en það ber a.m.k. ekki að gera, ef það er líklegt til þess að spilla framkvæmd. Þessi gr. er alveg forkastanleg, nema því aðeins að það sé bara takmark í sjálfu sér að eyða og spenna að óþörfu. Það hefði kannske átt við þarna að hnýta því aftan við greinina, að þessi n. skyldi þó ekki sett á stofn af menntmrn. nema með samþ. hæstv. fjmrh., en þarna er því sleppt. Hins vegar stendur í niðurlagi 9. gr., að menntmrn. megi ekki leyfa að hefja framkvæmdir, sem búið er að samþ. á fjárlögum ríkisins, fyrr en að fengnu skriflegu samþ. fjmrn. Vitanlega er þetta alveg óþolandi fyrir menntmrn., og það er óþolandi fyrir Alþ. Íslendinga, að það sem búið er að samþ. á Alþ., skuli ekki ná fram að ganga, nema skrifleg staðfesting komi fyrst frá menntmrn., og menntmrn. má ekki hreyfa legg eða lið, fyrr en það er búið að fá skriflegt samþ. frá fjmrn. En þegar um eyðsluatriðin er að ræða út í loftið án tilgangs, þarf ekki slíkt samþykki frá fjmrn.

8. gr. er ákaflega lítt að mínu skapi líka, og ég hefði talið þörf á að fella hana niður. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta: „Kostnaðaráætlun skólamannvirkja skal miða við byggingarkostnað á þeim tíma, sem áætlunin er staðfest “

Við þann tíma á kostnaðaráætlunin að miðast. Síðan getur bætzt við þessa áætlunarupphæð vísitala byggingarkostnaðar, reiknuð út af Hagstofu Íslands. En hvað er verið að gera þarna? Það er verið að slá því föstu, að áætlun, sem gerð er, þegar staðfesting fæst, skal vera grunnurinn, og ríkið er losað við alla áhættu af því, að áætlun standist ekki, en fátæk sveitarfélög skulu bera byrðina, ef það skyldi henda, að áætlun haldi ekki, og eru menn nú ekki nokkuð kunnugir því, að áætlanir geta reynzt óáreiðanlegar, þannig að verulegu skakki? Þá skal ríkið vera laust allra mála, sveitarfélagið skal bera alla skekkjuna milli áætlunar og framkvæmda. Er þetta sanngjarnt? Ég held það ekki. Ég held, að það sé ekkert vit í þessu.

Við erum nýlega búnir að frétta af áætlun um höfnina í Straumsvík. Áætlun 69 millj. kr., og svo kemur tilboð, sem er búið að margfalda þá upphæð, allt upp í 220 millj. kr. (Dómsmrh. JóhH: Þetta er nú misskilningur.) Er það misskilningur? Það eru tvö lægri tilboð en ég nefndi og svo þetta hærra. Var hún ekki 69 millj.? Hæstv. dómsmrh. segir, að þetta sé misskilningur, en þó að þetta dæmi sé ekki svona krassandi eins og ég nú nefndi og tel mig þó hafa sannar tölur um, er það alkunna, að þó að menn gangi frá sérfræðilegum áætlunum, er það svo sem ekki alveg öruggt, að það verði í samræmi við raunverulegan kostnað.

Sveitarfélagið virðist mér, skv. þessu upphafi 8. gr., vera bundið við áætlunarupphæðina, og fari þar fram úr, verður það að bera mismuninn, en ríkið er sloppið, ríkið þarf ekki að greiða nema skv. áætlunarupphæðinni. M. ö. o. óvissubyrðina skal leggja á lítilmagnana, ríkið vill hafa sitt á þurru, skv. lagabókstafnum. Ég held, að þetta gæti bókstaflega í mörgum tilfellum orðið til þess að stöðva byggingar í miðjum klíðum, og það gæti orðið bæði sveitarfélagi og ríki dýrt. Ég held, að þessi gr. sé svo fráleit, að hæstv. ráðh., sem hefur gengið inn á að fella niður tvær óþurftargreinar úr frv., eigi að ganga inn á það, að þessi verði felld niður líka eða hinkra við með frv., þangað til það hefur fengið almennilega athugun í góðu tómi.

Ég kann líka illa 9. gr. frv., sem er um þessa flækju, að það má ekki hefja framkvæmdir á skólamannvirkjum, sem búið er að ákveða fjárveitingar til, skv. fjárlögum, skv. l. frá Alþ., fyrr en fyrir liggur skriflegt samþykki menntmrn., og ef sveitarfélag treystir sér nú til þess að fara út í að hefja bygginguna, hvað liggur þá við? Jú, það er að vísu ekki tugthússök, en þá verður bara byggingarkostnaðurinn ríkissjóði óviðkomandi, ríkið er þá bara sloppið við allar sínar skuldbindingar að lögum. Ég held, að það sé alveg ótækt, að ríkið geti nokkurn tíma sloppið frá sínum lögbundnu skyldum, eftir að búið er á Alþ. að samþykkja fjárveitingar til mannvirkis, hvort sem það er skólabygging eða annað. En ef út af er brugðið þarna um tímann, á meðan þessi bréfaskipti ganga á milli Heródesar og Pílatusar, á milli menntmrn. og fjmrn., og þangað til öll bréf eru komin, ef eitthvað hefur verið byrjað á byggingunni á meðan, er bara ríkið sloppið, sloppið við að greiða það, sem því ber skv. lögum. Þetta eru a.m.k. allharkaleg lagaákvæði, sem ég felli mig mjög illa við.

Ég vék frá áðan, en sú gr., sem ég felli mig þó einna verst við af þeim öllum, sem enn standa í þessu frv.-ræksni, er 20. gr., og ég heyrði, að hv. 3. þm. Vestf. var að tala um hana, þegar ég kom. Það er sagt frá því í grg. frv., að það séu ákaflega flóknar reglur núna í gildi varðandi kennslukostnaðinn í skólum. Og svo er sett hérna upp tafla í 20. gr. í mörgum liðum, þar sem segir, að á barnafræðslustigi skuli miða við 40 mínútna kennslustund og fyrir skóla með allt að 10 nemendum komi þá 9 stundir á hvern nemanda, með 11–20 nemendum komi 90 stundir, auk 8 stunda á hvern nemanda umfram 10, með 21–40 nemendum komi 170 stundir, auk 7 stunda á hvern nemanda umfram 20, með 41–80 nemendum komi 310 stundir, auk 6 stunda á nemanda umfram 40, með 81–160 nemendur komi 550 stundir, auk 5 stunda á hvern nemanda umfram 80, og fyrir skóla með 160–240 nemendur komi 950 stundir, auk 4 stunda á hvern nemanda umfram 160. Í skólum með fleiri en 240 nemendur komi jafnmargar stundir á hvern nemanda og í skóla með 240 nemendum. Og okkur er sagt, að þessar reglur séu nú settar upp til þess að gera þetta einfaldara, því að það sé alveg óheyrilega flókið núna. Hverjir af óskólafróðum mönnum skyldu nú skilja þetta? Ég hygg, að þeir séu fáir. Ég hef fengizt dálítið við kennslu og skólastjórn 15–20 ár, en ég botna lítið í þessu, og ég leit aftur í grg. til skýringar. Jú, þar stendur: Lagt er til, að fjöldi fastra kennara sé að jafnaði ekki meiri en svo, að skyldukennsla þeirra sé 70% af þeim stundafjölda, sem skólinn á rétt á. Sannleikur málsins er sá, að það eru vandræði fyrir skóla að hafa ekki fasta kennara til þess að inna allan meginstofn kennslunnar af hendi. Að þurfa að leita til stundakennara um allt að þriðjung kennslunnar tel ég vandræði í framkvæmd, og sums staðar mundi haga þannig til, að engir möguleikar væru til að fá aukakennslu. Það er kannske framkvæmanlegt í Reykjavík, en víða hagar svo til á landinu, að það er ekki hægt að drífa upp þessa aukakennslu, svo að vel fari. (Forseti: Ég bið hv. þm. afsökunar, ég vildi aðeins spyrja hann, hvort hann ætti mikið eftir af ræðu sinni. Áformað hafði verið, að fresta fundi eða slíta kl. 4.) Nei, það fer nú að síga mjög á seinni hlutann hjá mér. (Forseti: Treystir hv. þm. sér til þess að ljúka ræðu sinni á örstuttri stundu eða vill hann fresta henni? ) Ef ég ekki fer út í fleiri atriði en þetta, sem ég er nú að ljúka, mundi ég vilja verða við beiðni forseta eftir svona 5–7 mín. (Forseti: Hv. þm. heldur áfram ræðu sinni.) Jæja, takk fyrir.

En til hvers er þá þetta ákvæði? Jú, í skýringunni kemur það. Nauðsynlegt þykir að hafa slíkt hámarksákvæði, til þess að fastir kennarar eigi kost nokkurrar aukakennslu, og eins þess, að skólar geti ráðið stundakennara til sérkennslu. Þetta er þá bara gert til þess, að það sé hægt að leggja meiri kennslu en skyldukennsluna á herðar kennaranna, sem líka þykir vandræðaúrlausn hjá skólamönnum að þurfa að gera. Þegar þeir eru búnir að kenna allt að 40 nemendum 36–40 stundir á viku, er nóg á þá lagt með þeirri heimavinnu, sem því fylgir, a.m.k. í gagnfræðaskólum. Nei, en þá eru ákvæði um það, að ekki skuli vera fastir kennarar til þess að inna af hendi meira en 70% kennslunnar skv. þeim stundafjölda, sem skólinn á rétt á, til þess að hægt sé að tryggja þeim aukakennslu, til þess að hægt sé að leggja á þá meiri vinnu en forsvaranlegt er frá uppeldislegu sjónarmiði. Ef þetta er ekki vitlaust lagaákvæði, veit ég ekki, hvað er vitleysa í löggjöf. Og þetta er a.m.k. ekki samið af skólamönnum, það þori ég að fullyrða, þetta er gert af kontóristum suður í Reykjavík, sem ekki hafa vit á kennslu eða uppeldismálum.

Það er sannleikur málsins, að það er ekki mögulegt að setja fastar, ófrávíkjanlegar reglur um kennsluskyldu, sem á að hvíla á hverjum kennara. Það fer eftir eðli skólans. Tökum t.d. gagnfræðaskóla. Ef hann framkvæmir skólalöggjöfina, á hann að hafa allt að helmingi sinna nemenda við verklegt nám, að meira en hálfu leyti. Verklega námið er ekki hægt að framkvæma nema í hópkennslu, þar er ekki hægt að hafa 40 menn í bekk. Það verður að hafa 10 nemendur í einu, og má þó skólinn vera vel útbúinn að ytri tækjum til þess að geta það. En hér í frv. er sagt, að lágmarkið í hóp við verklega kennslu skuli vera 12. Það er of hátt. Lágmarkið er of hátt. Það verður ekki hægt að framkvæma það alls staðar. Ákvæðið, sem hér var minnzt á áðan varðandi húsmæðraskólana, byggist einmitt á þessu. Þar verður að framkvæma mikinn hluta kennslunnar í hópkennslu. Þar er ekki hægt að koma bekkjarkennslu við að neinu gagni. Þá væri kennslan ónýt með öllu, og það er ekki hægt að keyra allar tegundir skóla, bóknámsskóla og verknámsskóla, undir sömu reglu, það verða menn að sætta sig við, ef það á að vera nokkurt vit í því. En þetta er reynt að gera hér, og verður úr því hörmulegt missmíði, sem aldrei verður með neinum sóma í framkvæmdinni.

Ég lofaði hæstv. forseta að ljúka máli mínu, þegar ég hefði gert þessu atriði skil. Þetta er eitt versta ákvæðið í frv. og á ekkert skylt við raunverulega framkvæmdamöguleika. Og þó ekkert væri annað að frv. nú en það, að þessi gr. er óhæf, ætti að fresta því og bera þetta undir skólanefndir núna yfir sumarið og taka málið upp aftur í byrjun næsta þings. Það eru eindregin tilmæli mín til hæstv. menntmrh., að hann misstígi sig ekki svo að keyra þetta mál nú í gegn. Það er hvorki honum til sóma né uppeldismálum landsins til gagns, og ef litið er á fjárhagshlið þessa máls, liggur ríkinu ekkert á að keyra það í gegn, því að það hefur verið fullyrt af öllum, að byrðarnar leggist nokkurn veginn jafnt, þegar á heildina sé litið, á ríkið og sveitarfélögin, svo að það er ekki verið að spara neitt fyrir ríkið með því, enda á ekki að þyngja byrðarnar á sveitarfélögunum. Það er þó gert í mörgum tilfellum í þessu frv., sem sízt skyldi þó. Ef eitthvað á að þyngja byrðarnar á öðrum aðilanum, er það heldur á ríkinu. Það getur meira borið en hin fámennari og fátækari sveitarfélög, en í vissum tilfellum koma nú fátæk, lítilsmegandi sveitarfélög auknar byrðar með lögfestingu þessa frv. Og það er ekki heldur gott.

Ég skal svo, hæstv. forseti, láta máli mínu lokið. En ég endurtek það, að ég tel, að þrátt fyrir 22 breyt. við meðferð n. og þrátt fyrir það, að hæstv. ráðh. hefur gengið í að þurrka út tvær gr. úr frv., séu enn í því greinar, sem þyrftu að hverfa, og ef þær fást ekki teknar út nú, er betra að hugsa sig dálítið um og lögfesta ekki frv. núna í flaustri fyrir þingslit.