14.12.1966
Efri deild: 26. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í B-deild Alþingistíðinda. (161)

84. mál, Iðnlánasjóður

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessar umr., sem hér hafa farið fram. Ég mundi fyrir það fyrsta vera reiðubúinn að lýsa því yfir, að ég skyldi styðja þá brtt., sem hér hefur verið borin fram, ef ég væri þeirrar skoðunar, að slíkt mundi auðvelda eftirlit með framtölum manna. Ég álít að svo sé ekki, og vil ég nefna þær tvær ástæður, sem ég að vísu mun hafa drepið á, þegar skyld mál því, sem hér er um að ræða, hafa verið til umr. hér í hv. deild, og ég á þar fyrst og fremst við umr., sem fóru fram, þegar heimilað var að gefa út hin vísitölutryggðu ríkisskuldabréf.

Það er í fyrsta lagi, að ég tel, að það sé lítið spor í áttina til þess að auðvelda eftirlit með skattframtölum, þó að vissar eignir, eins og t.d. verðbréf af því tagi, sem hér er um að ræða, séu framtalsskyld, því að menn verða að gæta þess, að það er svo ákaflega lítill hluti af tekjum manna, hvort sem þær tekjur eru sviknar undan skatti eða ekki, sem menn verja til eignaauka. Það er ákaflega lítill hluti af tekjum manna, sem menn verja til eignaauka. Og þó að svo væri, að þetta væri einhver verulegur hluti, eru til ótal leiðir til þess að fela slíka eignaaukningu aðrar heldur en sú að kaupa verðbréf af þessu tagi. Menn geta keypt önnur verðbréf, sem eru undanþegin framtalsskyldunni. Menn geta lagt þetta í fasteignir o.s.frv. En ef menn óttast það, að vitneskja um eignir þeirra verði skattayfirvöldum kunn, jafnvel þó að það væri tekið upp sem almenn regla, að mönnum bæri að telja allar eignir fram, er hægt að eyða þessum peningum, — ekki satt? Það er hægt að fara í ferðalag til Svartahafsins, það er hægt að kaupa sjónvarp o.s.frv., og það eiga skattayfirvöldin ekki svo auðvelt með að fá upplýsingar um.

Í öðru lagi vildi ég leyfa mér að benda á það, að mér er ekki kunnugt um, að til séu ákvæði í skattalöggjöf nokkurs lands um það, að verðmæti, sem ekki eru skattskyld, séu framtalsskyld. Og hvers vegna eru slík ákvæði ekki til, þannig að við mundum að mínu álíti innleiða algera nýjung með því að taka það upp hér? Það er vegna þess, að menn hafa eðlilega ekki verið reiðubúnir að svara þeirri spurningu, ef um er að ræða eignir, sem ekki eru skattskyldar eins og virðist vaka fyrir hv. flm þessarar till., hvernig þá sé hægt að meta það, að hve miklu leyti þeir hafa gert sig brotlega með því að telja þetta ekki fram til skatts. Telji menn ekki fram skattskyldar tekjur eða skattskyldar eignir, er það einfalt mál að ákveða slík viðurlög. Þá er miðað við þá skattalækkun, sem menn hafa fengið, vegna þess að þetta hefur ekki verið talið fram. Þeim er gert að greiða þann skatt, sem þeir hafa sparað sér með þessu, og stundum lagðar á sérstakar skattsektir, þar sem sú upphæð er margfölduð. En ef það hefur engin áhrif á skatta manna, hvort þetta er talið fram eða ekki, af því að nú virðast hv. flm. gera ráð fyrir því, að bréfin séu ekki skattskyld, hvernig á þá að ákveða viðurlögin við því að telja ekki þessar skattskyldu eignir fram? Þetta mál hefur ekki, svo að mér sé kunnugt, verið leyst neins staðar annars staðar, svo að þess vegna þekki ég a.m.k. ekki neinar undantekningar frá þeirri reglu, að ef um skattfrelsi er að ræða, eru viðkomandi verðmæti, hvort sem eru tekjur eða eignir, ekki framtalsskyld.