14.12.1966
Efri deild: 26. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 283 í B-deild Alþingistíðinda. (163)

84. mál, Iðnlánasjóður

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr., en af því að komið hefur fram í þeim virðingarverður áhugi á því að gæta hagsmuna ríkissjóðs, er mér skylt að segja nokkur orð.

Öllum hv. þdm. er kunn ástæðan fyrir því, að farið var inn á þá braut að veita sparifé sérstök hlunnindi varðandi framtal og skattfrelsi, en það var til þess að auka sparifjársöfnun og reyna að greiða fyrir því, að menn legðu fyrir fé sitt fremur en eyða því jafnóðum og teldu sig fá einhverja hvöt í því efni með þessum gerðum. Ég er ekki í neinum vafa um það, að þessar ráðstafanir hafa haft sína þýðingu, þó að aldrei verði sannað til hlítar, hversu mikla þýðingu það hefur haft. Og það stafar ekki endilega af því, að menn hafi farið að spara skattsvikið fé og það hafi veitt sérstakt frelsi eða aukna möguleika til að koma því undan skatti, heldur hefur þetta verkað vel á margt fólk og valdið því, að því hefur fundizt, að það væri viss hvöt fyrir það að spara, og ekki hvað sízt er það engum efa bundið, að framtalsskyldan eða frelsið undan framtalsskyldunni hefur haft allverulega þýðingu. Það er nefnilega einkennilegt, sem maður verður oft var við í bönkum, að fólki er mjög annt um það að láta ekki vita um fé sitt, ekki vegna þess, að það séu nokkur svik þar á bak víð. Ég hef þekkt það um fjölda manns, sem var vitanlegt, að töldu alltaf rétt fram, en lögðu mikið upp úr því, að þeir gætu verið í friði með sitt fé, menn vissu helzt ekki um það. T.d. hefur það verið eftirtektarvert, að það eru ýmsir, sem helzt ekki vilja fara inn í aðalbankann til að leggja inn peninga, heldur fara inn í minnsta útibúið, þar sem fæstir eru á ferðinni. Og þetta er ekki endilega fólk, sem er að svíkja undan skatti, heldur ýmsir góðir og gegnir borgarar, þar sem skattsvik hafa ekki komið til greina.

Þrátt fyrir þessa kosti varðandi sparifjáraukningu í landinu er ég þó þeirrar skoðunar, að hér sé um töluvert varasama hluti að ræða. Og ég er alveg sammála þeim hv. þm., sem hafa látið orð falla í þá átt, að það að losa skuldabréf og yfirleitt verðmæti undan framtalsskyldu er mjög varasamt. Ég er ákveðið þeirrar skoðunar, að það eigi að fara mjög varlega í því efni varðandi skuldabréfin, enda hefur það ekki verið gert nema í undantekningartilfellum, svo sem um ríkisskuldabréfalán, sem boðin hafa verið út síðustu árin, spariskírteinalánin, sem hafa verið boðin út með alveg sérstökum kjörum, má kannske segja með of góðum kjörum. Það eru mjög dýr lán, en hins vegar sjáum við á eftirspurn eftir þeim, að fólk sækir mjög í þessi bréf, auðvitað bæði vegna þess, að þau eru verðtryggð, og eins vegna þess, að þau hafa ýmis önnur hlunnindi, enda þótt vextir af þeim séu upphaflega ekki háir, þannig að þessi bréf hafa selzt samstundis og þau hafa verið boðin út. En ég er ákveðið þeirrar skoðunar, að það eigi að fara mjög varlega í að veita þessi réttindi og m.a. vegna þess, að það eigi að gera vissan mun á sparifjárhlunnindum og skuldabréfaútboðum almennt séð. En einmitt vegna þess, sem ég áðan sagði, að fólk hefur áreiðanlega lagt mikið upp úr þessum réttindum, hefur það vitanlega mikið að segja, hvort heimilt er að nota þau við útgáfu vissra bréfaflokka eða ekki. Og þau bréf, sem hér er boðið upp á, eru mun óhagstæðari en spariskírteinalán ríkissjóðs, þannig að það er ekki fyrir miklu að gangast, ef það eru ekki einhver sérstök hlunnindi, sem þarna eru veitt. — Ég verð því að segja það, að miðað við allar aðstæður og þar sem hér er ekki heldur um hátt lán að ræða í þessu tilfelli, hef ég fyrir mitt leyti fallizt á, að þessi háttur yrði á hafður, enda þótt ég taki það fram og telji rétt, að það komi skýrt fram, að ég álít, að það eigi að fara mjög varlega í að beita þessum hlunnindum. En ég tel sem sagt, að það mundi þá ekki vera mikið í boði umfram það að láta fé sitt liggja í banka óbundið, ef ekki væru veitt a.m.k. sams konar hlunnindi þeim, sem kaupa þessi bréf, eins og þeir nytu, ef þeir ættu peninga sína liggjandi í banka. Þetta held ég, að liggi nú alveg ljóst fyrir.

Ég er hins vegar ákveðið þeirra skoðunar, að það sé þörf á að íhuga þetta mál í heild við endurskoðun skattalaga, því að þótt það sé alveg rétt, sem hv. 8. þm. Reykv. sagði hér áðan, að það virðist í fljótu bragði lítils virði að vera að hafa framtalsskyldu varðandi réttindi, sem eru skattfrjáls, hefur sérstaklega einn vandi skapazt í þessu efni, og það er, þegar að því kemur, að menn fari allt í einu að leggja í miklar fjárfestingar með peningum, sem enginn veit, hvaðan eru, og er skýrt frá, að hafi verið skattfrjálst sparifé. Það er í rauninni höfuðvandinn, sem við stöndum andspænis, og er vandi, sem er þess eðlis, að með árunum verður hann töluvert mikill, og veldur því ekki sízt, ef það er útfært enn frekar, að það getur orðið þarna um að ræða verulega erfiðleika á skattaeftirliti.

Hitt er aftur á móti rétt að taka fram, að skattfrelsi sparifjár eða skuldabréfa hefur í rauninni engin áhrif varðandi tekjuskatts- eða tekjuútsvarsálagningu á hverju ári, vegna þess að það, sem er undanþegið skatti, er ekki stofn sparifjárins eða stofnfé skuldabréfsins, heldur aðeins vextirnir af því. Og það eru sjaldnast verulegar fjárhæðir, sem menn hafa þannig í tekjur. Varðandi skattaeftirlitið að þessu leyti til hefur þessi framtalsskylda ekki mikið að segja, því að það verður auðvitað að hafa önnur úrræði til að komast eftir því, hvaða tekjur maður hefur á ári hverju. En ég taldi aðeins rétt, að þetta kæmi hér fram, af því að almennt er verið að ræða um þessi mál, annars vegar, að ég tel eftir atvikum, eins og þetta mál liggur fyrir og eins og skattfrelsi sparifjár er nú, að þá séu ekki miklar líkur til, að menn leggi fé sitt í kaup á þessum bréfum, nema þau réttindi verði veitt, sem hér er farið fram á, en hins vegar jafnframt, að ég tel, að það þurfi að fara með mikilli varúð í að veita þessi réttindi, enda hefur það almennt ekki verið gert varðandi skuldabréf, og tel raunar, að það þurfi að taka til íhugunar, þegar skattalög verða endurskoðuð, að hve miklu leyti gerlegt er og heppilegt þjóðfélagslega séð að viðhalda þessum réttindum varðandi framtalsfrelsið.