08.12.1966
Neðri deild: 23. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 72 í C-deild Alþingistíðinda. (1755)

72. mál, skipun prestakalla

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég skal reyna í sem stytztu máli að gera nokkra grein fyrir frv. því, sem hér liggur fyrir til umr. á þskj. 84, um skipun prestakalla og prófastsdæma og um kristnisjóð.

Undanfarna öld hefur þrívegis farið fram allsherjarendurskoðun á skipun prestakalla. Árið 1880 var brauðum fækkað úr 181 í 141. Ástæður voru þá annars eðlis en síðar. Prestar tóku þó ekki laun úr landssjóði, heldur höfðu tekjur sínar af brauðunum eingöngu. Sum brauðin voru mjög fátæk og afkoma presta þar afleiðandi léleg. Var þá tekið það ráð til þess að drýgja tekjur presta að skipta þeim tekjum, sem féllu til frá 181 brauði, niður á 141. Önnur allsherjarendurskoðun á prestakallaskipun fór fram árið 1907, en það ár var framkvæmd allmikil lagasetning um kirkjumál almennt. Prestaköllum var þá fækkað í 106, en jafnframt var tekið upp það fyrirkomulag að greiða prestum laun úr ríkissjóði. Síðan fjölgaði prestaköllum aftur smám saman, fyrst og fremst í Reykjavík, og árið 1950 eru þau orðin 115, þar af 5 ný í Reykjavík. Þriðja endurskoðunin var framkvæmd af n., sem kirkjumrh. skipaði í maí 1951. Lagafrv. það, sem n. þessi samdi, var samþ. með mjög litlum breytingum, og var niðurstaðan sú, að bætt var við einu prestakalli, þeim fjölgað úr 115 í 116. Jafnframt voru sett í lög ákvæði á þá leið, að í Reykjavík skuli jafnan vera svo margir prestar, að sem næst 5000 manns komi á hvern að meðaltali, en í kaupstöðum utan Reykjavíkur skuli prestar vera svo margir, að sem næst 4000 manns komi á hvern. Samkv. þessu hefur prestsembættum í Reykjavíkurprófastsdæmi nú verið fjölgað í 18. Þá eru auk þess tveir prestar á Akureyri, tveir í Vestmannaeyjum, og um s.l. áramót var fjölmennasta prestakalli landsins, Hafnarfjarðarprestakalli, skipt í tvö köll. Þá hafa einnig síðan á árinu 1952 verið ráðnir nokkrir prestar á vegum þjóðkirkjunnar, sem gegna ekki tilteknum köllum. Er hér um að ræða æskulýðsfulltrúa, prest, er gegnir forfallaþjónustu, prest, sem gegnir þjónustu meðal Íslendinga í Kaupmannahöfn og annars staðar á Norðurlöndum, og sjúkrahúsaprest í Reykjavík.

Um frv. það, sem hér liggur fyrir, vil ég almennt vísa til grg., sem því fylgir, og til skýringa víð einstakar greinar þess, en þó vil ég að svo stöddu taka fram eftirfarandi varðandi nokkur einstök atriði málsins:

Núgildandi lög um skipun prestakalla, nr. 31 frá 4. febr. 1952, fela ekki í sér miklar breytingar frá því ástandi, sem var áður en þau voru sett. Í frv., sem hér liggur fyrir, er því í raun og veru um að ræða endurskoðun á skipulagi, sem verið hefur lítið breytt í marga áratugi. Meginstefna frv. er að samræma skipulag íslenzku þjóðkirkjunnar við þjóðfélagsástand það, sem nú er fyrir hendi, þannig að tryggt verði hvort tveggja, að allir landsmenn geti notið þjónustu kirkjunnar og starfskraftar og menntun presta nýtist sem bezt. Við þær skipulagsbreytingar, sem lagt er til að gerðar verði, sparast allmikið fé árlega, sem nú er bundið í mjög fámennum prestaköllum. En ég bið menn um að veita því athygli, að það er ekki ætlunin að skerða starfsfé hinnar íslenzku þjóðkirkju sem því nemur, heldur er lagt til, að það verði notað á sem hagkvæmastan hátt. Er ætlazt til, að það renni til kristnisjóðs, sem um ræðir í II. kafla frv., og tekjur kristnisjóðs geta væntanlega orðið um 4–5 millj. kr. á ári, og kemur sá sjóður í stað prestakallasjóðs, sem stofnaður var árið 1933 og hefur haft sem tekjur helming prestslauna í þeim prestaköllum, sem prestlaus hafa verið á hverjum tíma, en tekjur þessar hafa undanfarið verið rúmlega 1 millj. kr. á ári. Er þannig um að ræða mjög verulega hækkun á starfsfé því, sem kirkjuráð og kirkjuþing fá til ráðstöfunar, enda eru kristnisjóði ætluð margvísleg og veigamikil hlutverk, sem ég skal koma að síðar.

Um einstök atriði frv. að öðru leyti vil ég fara nokkrum orðum, og það er rétt, að ég byrji aftast á tveimur gr., 28. og 29. gr., en í aths. við þessar gr., minnir mig, að segi, að þær þarfnist ekki skýringa við. Það er nú réttara samt að láta fylgja þessum gr. nokkra skýringu.

Í 28. gr. segir: „Í lögum þessum merkir orðið kirkjustjórn kirkjumálaráðherra og biskup.“ Orðið kirkjustjórn kemur nokkuð víða fyrir í þessum l. og í allmörgum l. varðandi kirkjumál, og ég rak mig fljótt á það, eftir að ég tók við embætti kirkjumrh., og fannst nokkuð óljóst, hvað meint væri með þessu hugtaki: kirkjustjórn. Þess vegna taldi ég rétt að setja þessa lagagr. hér, að í l. þessum merkir orðið kirkjustjórn kirkjumrh. og biskup. En í þessu felst samkv. skýringum lærðra manna, lögfræðinga, t.d. Einars Arnórssonar, á kirkjurétti, og ég held það valdi engum ágreiningi, heldur hafi viðurkenningu frá þjóðkirkjunni, að ef ágreiningur verður á milli ráðh. og biskups, ráði ráðh. En það byggist á því, að framkvæmdavaldið er í höndum forseta Íslands, þjóðhöfðingjans, samkv. stjórnarskránni og ekki talinn þess vegna efi á því, að ef þarna yrði ágreiningur, væri það sá, sem fer með framkvæmdavaldið fyrir hönd forsetans, eða ráðh., sem skæri úr.

Í 29. gr. segir, að guðfræðingar megi ekki sækja um prestsembætti innan þjóðkirkjunnar, fyrr en þeir hafa gegnt aðstoðarþjónustu samkv. 1. tölulið 25. gr. í minnst 6 mánuði. Þetta er nýmæli, og það er sett þarna inn eftir eindregnum tilmælum biskups. Það er þannig, að með þessu móti mundu guðfræðingar nýútskrifaðir ekki geta sótt um prestsembætti innan þjóðkirkjunnar, fyrr en þeir hefðu sýnt með minnst 6 mánaða þjónustu, sem þeim er gefið rúm til nánar í þessum l., að þeir hafi vilja og áhuga á því að vinna fyrir hönd kirkjunnar. Ég hygg, að eitthvað í þá átt muni hafa vakað fyrir biskupi, að sumir guðfræðingar settust að í Reykjavík eða nágrenni og tækju upp önnur störf og biðu þess án nokkurra tengsla við þjóðkirkjuna að sækja um embætti, og þetta telji hann ekki heppilega þróun og vilji þess vegna bæta úr með þessu ákvæði, sem þarna er sett inn að hans ráði.

Ég skal svo víkja að aðalefni málsins, sem kemur að sjálfsögðu fram í 1. kaflanum, um skipun prestakalla og prófastsdæma, og 1. gr. Núgildandi lög um skipun prestakalla og prófastsdæma með breytingum hafa ákvæði um, að prófastsdæmi skuli vera 21 og prestaköll utan Reykjavíkur 109 og prestaköll í Reykjavík 18. Af 18 prestaköllum í Reykjavíkurprófastsdæmi er þó aðeins búið að skipa í 15 enn þá. En með lagafrv. því, sem hér liggur fyrir, er lagt til, að prófastsdæmum verði fækkað úr 21 í 15, en prestaköllum utan Reykjavíkur úr 109 í 89, þ.e.a.s. um 20. Þó ber hér að hafa í huga, að fækkunin er ekki svo mikil vegna ákvæða í 6.–11. gr., en þar er nokkur fjölgun á prestsembættum, sem ekki eru bundin við sérstök prestaköll. Samkv. 6. gr. er biskupi heimilt með samþykki ráðh. að ráða prestvígðan mann til sérstakra starfa í Skálholti. Það er nýmæli, og ef það yrði gert, mundi þar bætast við eitt prestsembætti. Í 7. gr. er biskupi heimilað að ráða tvo prestvígða menn til þess að gegna prestsþjónustu um stundarsakir í þeim prestaköllum, þar sem prestur er veikur eða prestakall er prestlaust af öðrum ástæðum, og skulu þeir taldir þjónandi prestar þjóðkirkjunnar. Hér er fjölgað um einn frá því, sem áður var. Hafa þeir stundum verið kallaðir farandprestar, en koma í forföllum, ýmiss konar forföllum annarra presta. Í 8. gr. eru ákvæði um æskulýðsfulltrúa, en í 2. mgr. þeirrar gr. er sagt: „Þá er og heimilt að ráða tvo aðstoðaræskulýðsfulltrúa til starfa með æskulýðsfulltrúa þjóðkirkjunnar.“ Þarna er fjölgað um tvo. Síðan er í 11. gr. heimilað að ráða prestvígðan mann til þess að annast og skipuleggja kristilegt starf meðal íslenzkra sjómanna og annarra þeirra, sem dvelja langtímum saman fjarri heimilum sinum á vertíðum. Þetta eru 5–6 prestsembætti, þannig að það eru í raun og veru ekki nema 15–16, sem um er fækkað.

Þá vil ég vekja athygli á því, sem ég minntist á áðan, að þrátt fyrir fækkunina er ekki ætlunin að skerða starfsfé þjóðkirkjunnar. Það kemur bæði fram í því, sem ég nú hef greint, að prestafækkunin er í raun og veru ekki jafnmikil og ætla mætti eftir 1. gr., og einnig í hinu, að það er lagt til, að beinn sparnaður, sem hlýzt af fækkun prestakallanna, renni til kristnisjóðs. En um kristnisjóð fjallar II. kafli þessa frv. Hann er saminn, eins og segir í grg., með hliðsjón af ályktun 4. kirkjuþings, sem háð var í Reykjavík 25. okt. til 6. nóv. 1964. Síðan hefur málið verið til athugunar í kirkjumrn., og milli okkar biskups hafa oft farið fram viðræður um þennan kristnisjóð, hvernig hann skyldi upp byggður og hvaða verkefni hann skyldi hafa. Hefur verið mjög gott samstarf á milli okkar í því sambandi, og nú þótti eðlilegast að tengja ákvæði um kristnisjóð við sjálft prestakallafrv., eins og gert er í II. kafla. En um hlutverk kristnisjóðs segir í 25. gr., og vil ég leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að vitna til þess, að það sé í fyrsta lagi að launa aðstoðarþjónustu presta og guðfræðinga í viðlendum og fjölmennum prestaköllum. Biskup gerir ráðstöfun um þessa þjónustu í samráði við hlutaðeigandi sóknarpresta og héraðsprófasta. Í öðru lagi að launa starfsmenn, sem ráðnir eru til sérstakra verkefna í þágu þjóðkirkjunnar í heild samkv. ákvörðun kirkjuþings. Slíkir starfsmenn skulu ráðnir af biskupi með samþykki kirkjuráðs. Í þriðja lagi að styrkja söfnuði, er ráða vilja starfsmenn til starfa á sínum vegum á sviði æskulýðsmála, líknarmála eða til að gegna öðrum mikilvægum verkefnum. Í fjórða lagi að veita fátækum söfnuðum starfsskilyrði, einkum á þeim stöðum, sem prestaköll hafa verið sameinuð og kirkjuleg þjónusta er sérstökum erfiðleikum háð. Í fimmta lagi að kosta búferlaflutning guðfræðinga, sem settir eru til þjónustu samkv. 1. tölulið. Í sjötta lagi að styrkja námsmenn til undirbúnings undir prestsstarf og önnur kirkjuleg störf. Í sjöunda lagi að styðja hverskonar starfsemi kirkjunnar til eflingar kristinni trú og siðgæði með þjóðinni, svo sem útgáfu á hjálpargögnum við safnaðarstarfið og kristilegu fræðsluefni, enn fremur félög og stofnanir, sem vinna að mikilvægum verkefnum á kirkjunnar vegum. En í grg. um kristnisjóðstill., sem lágu fyrir kirkjuþingi 1964, sagði m. a., að ein aðalforsendan fyrir slíkri sjóðsmyndun væri sú, að hann mundi veita kirkjunni nokkurt aukið svigrúm til starfa. Hann yrði vísir að dálitlum sjálfstæðum fjárráðum, er kirkjuþing bæri ábyrgð á og hefði ráðstöfunarrétt yfir og gæti notað til þess að örva og styrkja ný átök í kirkjulegri starfsemi, svo og til þess að launa menn til nauðsynlegra starfa í þágu þjóðkirkjunnar án þess að eiga um það undir löggjafarvaldið að sækja hverju sinni. Þetta mundi styrkja stöðu kirkjuþings og veita því allmiklu traustari fótfestu. Fjárráð sjóðsins yrðu að sönnu ekki svo mikil, að hann gæti lyft grettistökum, en þó væri honum samkv. till. þessari séð fyrir tekjum, er mættu nýtast til mikils góðs, ef vel væri á haldið. Munar þar mest um það opinbera framlag, sem gert er ráð fyrir, en þar er aðeins um fé að ræða, sem kirkjunni ber hvort eð er, og eru því ekki gerðar með þessu auknar kröfur til ríkissjóðs. Þessar aths., sem ég nú las, eiga við nokkuð aðra fjáröflun heldur en nú er, og ég tel, að sjóðnum sé með þessu frv. séð fyrir góðum tekjum. Og skoðun mín hefur verið sú, að með þessu móti, að endurskoða prestakallaskipun og prófastsdæma og taka í lög ákvæði um kristnisjóð, svo sem hér er lagt til, eigi það að verða verulega til þess að styrkja þjóðkirkjuna, gera hana lífrænni í þjóðfélaginu og gefa henni aukna möguleika fram yfir það, sem hún hefur áður haft, til þess að sinna sínu mikilvæga hlutverki.

Ég vil svo að lokum fara nokkrum orðum um undirbúning þessa máls, en hann hófst með því, að kirkjumrh. skipaði hinn 23. apríl 1965 5 manna n. til þess að endurskoða skipun prestakalla og prófastsdæma, og n. var afmarkað starfssvið með erindisbréfi, sem ég vil leyfa mér að vitna til, en þar segir:

„Verkefni n. er að athuga, hvort þörf er á að breyta þeirri prestakallaskipun, sem nú er ákveðin með lögum, og ef hún telur slíka þörf fyrir hendi, að gera rökstuddar og sundurliðaðar till. um nauðsynlegar breytingar. N. skal hafa í huga þau meginsjónarmið, að starf hinnar íslenzku þjóðkirkju nái til landsmanna allra, þannig að enginn maður verði afskiptur, að því er varðar kirkjulega þjónustu, og að hver einstakur prestur og prófastur þjóðkirkjunnar hafi nægilegt starfssvið í samræmi við menntun og starfsorku, að svo miklu leyti sem aðstæður leyfa á hverjum stað. N. skal gera till. um skipun prófastsdæma, er nauðsynlegar kunna að verða í sambandi við till., er n. kann að gera um breytingar á skipun prestakalla.“

Svo er gerð grein fyrir því í grg., sem ég þarf ekki að rekja nema að litlu leyti, að þessi n. hóf starfsemi sína um sumarið 1965 og lauk störfum í marzmánuði 1966. Hún var þannig skipuð: Ásgeir Pétursson sýslumaður var formaður hennar, séra Ingólfur Ástmarsson biskupsritari ritari, Ólafur Björnsson fulltrúi dóms- og kirkjumrn., Páll Kolka fyrrv. héraðslæknir og séra Sigurður Einarsson í Holti. N. var sem sagt skipuð lærðum og leikum, og ég vil nota tækifærið til að láta í ljós þakkir mínar til þessarar n. fyrir mjög rækileg og vel unnin störf, og kemur það fram í margvíslegum grg., sem n. hefur sent kirkjumrn., fyrir utan það, sem ráða má af grg. þessa frv. En hún ferðaðist um landið, átti viðræður við presta og prófasta og kynnti sér aðstæður sem allra bezt.

Þegar nál. lá fyrir, lét ég senda það þm., auk þess öllum prestum og að sjálfsögðu biskupi, sem fylgzt hafði með framgangi málsins, þar sem biskupsritari var í n. Biskup hafði svo forgöngu um, að málið var lagt fyrir prestastefnu á s.l. vori, og fjallaði hún um málið, gerði nokkrar brtt. við till. n. Síðan fjallaði kirkjuráð um málið og gerði einnig nokkrar breytingar á till. n. Það var svo ætlun mín að leggja sjálfur málið fyrir kirkjuþing í haust, en biskup gerði það fyrir mína hönd, þar sem ég var á sjúkrahúsi, meðan kirkjuþing hélt fundi sína hér.

Þetta mál hefur þess vegna sætt ýtarlegri meðferð, svo sem af þessu má ráða. Nú voru dálítið sundurleitar till. prestastefnu, kirkjuráðs, kirkjuþings og n., og áður en endanlega væri hægt að leggja málið fyrir Alþ., þurfti að ráða fram úr ýmsum ágreiningsefnum, og kom það þá í minn hlut sem kirkjumrh. með aðstoð minna embættismanna í kirkjumrn. að skera þar á nokkra hnúta. Nú er ekki alveg víst, að þar hafi alls staðar tekizt sem allra bezt til. Ég hafði þó einnig fullt samráð um það við biskup, og ég held, að það ætti ekki að þurfa að valda neinum verulegum ágreiningi. En að sjálfsögðu er rétt, að n. sú, sem fær þetta mál til meðferðar, geri aths. og till., ef henni sýnist, að í þessu efni kunni eitthvað að hafa missézt, og vildi ég biðja hana að hafa þá um það samráð við rn. og mig, eftir því sem hún telur ástæðu til. En miðað við þessa meðferð málsins vildi ég að lokum mega mælast til þess, að þetta frv. gæti gengið eftir atvikum nokkuð skjótt fram á þingi.

Ég tel, miðað við það, sem ég nú hef sagt, að það sé engin þörf á því að senda þetta mál til umsagnar, þar sem allir þeir aðilar, sem ég nú hef tilgreint, hafa um málið fjallað. Ég get náttúrlega ekkert sagt um viðhorf þm. til málsins, en ég legg megináherzlu á, miðað við undirbúning málsins, að málið hljóti afgreiðslu á þessu þingi. Þegar ég tala um nokkuð skjóta afgreiðslu, á ég ekki við, að það liggi neitt bráðan á, en málið fái mjög eðlilegan gang og afgreiðslu, áður en þessu þingi lýkur. Það er trú mín og von, eftir því sem ég hef bezt getað kynnt mér þessi mál, að sú breyt., sem hér er lögð til, eigi að verða til eflingar þjóðkirkjunni og til góðs, og þess vegna væri mikils vert að mínum dómi, að Alþ. það, sem nú fær þetta mál til meðferðar, gæti afgreitt það sem lög frá þinginu, áður en því lýkur.

Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. menntmn.