09.12.1966
Neðri deild: 24. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í C-deild Alþingistíðinda. (1763)

72. mál, skipun prestakalla

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það hefur nokkrum sinnum áður komið fyrir, að nokkrar deilur hafa orðið hér hjá okkur í sambandi við frv., sem lögð hafa verið fram til að breyta nokkuð um kirkjuskipunina í landinu. Það hefur nokkrum sinnum áður fallið líka í minn hlut að ræða þau mál. Það er svo, að það er mjög rík tilhneiging hjá yfirvöldunum í kirkjunni, sérstaklega yfirklerkdómnum, að taka valdið frá söfnuðunum í landinu og færa það á einn stað, sem sagt til sjálfs sín, yfirklerkdómsins hér í Reykjavík. Mér sýnist, að í þessu frv., sem hér liggur fyrir, gæti þessarar sömu tilhneigingar. Það er nú svo, eins og hv. 2. þm. Sunnl. kom hér inn á í umr. í gær, að ef það á að fara að láta það fé, sem kann að sparast við að leggja niður prestsembætti úti um land, renna í þann sérstaka kristnisjóð, sem hér er gert ráð fyrir, m. ö. o.: ef það á að svipta söfnuðina úti um land, þá evangelísk-lútersku söfnuði þar, réttinum til þess að hafa menn í sinni þjónustu, en láta t.d. biskupinn hér í Reykjavík eiga að ráða því að ráða jafnmarga presta í staðinn til þeirrar þjónustu, sem hann álítur heppilegt, álit ég, að við séum í raun og veru litlu nær, þá getum við alveg eins lofað söfnuðunum að hafa sína presta áfram, eins og þeir vilja. Mér lízt ekki á þessar tilhneigingar. Þær komu fram hér líka 1964 með frv., sem þá var flutt. Það frv. fór fram á að afnema rétt þeirra lútersku safnaða í landinu til þess að kjósa sina eigin starfsmenn, til þess að kjósa sína eigin presta, og færa þetta í staðinn ýmist í hendurnar á biskupnum eða í hendurnar á kjörmönnum, og ef ég man rétt, hafði kirkjuþing samþ. þetta. Maður hélt nú hálfpartinn, að kirkjuþing væri upphaflega til þess skipað að standa frekar vörð um lýðræðið í þessari kirkju, í þessum evangelísk-lúterska söfnuði á Íslandi, heldur en til þess að rífa það niður. En það reyndist vera öfugt. Kirkjuþingið lagði með því, að söfnuðirnir í landinu væru sviptir þessum rétti til að kjósa sína presta. Þann rétt, sem allur annar félagsskapur í landinu hefur, hvort það eru verkamannafélög, bændafélög eða önnur slík, til þess að kjósa sína eigin starfsmenn, hann átti þessi evangelísk-lúterski söfnuður ekki að hafa, vegna þess að það var svo rík tilhneiging hjá hans forustumönnum til þess að gerast fyrst og fremst embættismenn, til þess að gerast fyrst og fremst valdsmenn og til þess að einskorða og sameina það vald á einum stað í landinu, sem allra hæst í þjóðfélagsstiganum, í þessu tilfelli hjá biskupnum. Ég man ekki, hvort það voru margir, sem töluðu á móti þessu frv. þá. Ég talaði á móti því þá, og þetta frv. stöðvaðist hér og fór ekki lengra. Og ég held, að við eigum mjög vel að athuga okkar gang í þessu sambandi. Ég kann ekki víð þessa tilhneigingu, sem fram kemur bæði í 6.–11. gr. í þessu frv. og líka í 24.–25. gr. raunverulega, að færa valdið úr höndum þessara safnaða og yfir í hendur t.d. biskupsembættisins. Ég álit, að þetta sé rangt. Það hefur löngum þótt einn helzti kostur við íslenzka þjóðkirkju, að hún hefði verið nokkuð rúm. Það hefur stundum komið fyrir ýmislegt, sem að vísu hefur verið þar á móti og stefnt í öfuga átt, en yfirleitt hefur það þó verið kostur. Og eitt af því, sem veldur því sérstaklega, að kirkjan hefur verið þannig allrúm, það er einmitt þessi réttur safnaðanna til að kjósa sér presta.

Ég hef orðið var við það jafnvel, að það hefur þegar komið fyrir, að prestar t.d., sem hafa fallið víð kosningar hér í Reykjavík, það hafa verið búin til sérstök prestsembætti ofan frá handa þeim, og vafalaust, ef 24. og 25. gr. yrðu samþ. og 6.–11. gr. kæmust í gildi, er mjög mikil hætta á slíku. Ég skal ekki segja, að það gengi það langt að það yrði farið að senda presta t.d., sem biskupinn útnefndi, til einhverra safnaða, sem hefðu kosið sér, að því er klerkyfirdómurinn áliti, aðra presta en hann hefði velþóknun á, að það yrði farið að senda aðra presta til þess að prédika í þeim kirkjum. Ég hef að vísu ekki fylgzt mjög vel með safnaðarlífinu hér í Reykjavík, en eitthvað hef ég heyrt um það, að hér hafi verið af ýmsum yfirvöldum verið að samþykkja alls konar vantraustsyfirlýsingar á suma ágæta presta, bara vegna þess, að þeirra skoðanir hafa ekki fallið þeim í geð, þannig að við sjáum ósköp vel, hver hætta vofir yfir, svo framarlega sem það yrði farið að sameina valdið of mikið á einum stað hátt uppi í herrastiganum og valdstiganum í þessum efnum. Ég held þess vegna, að við eigum ekki að hjálpa til þess að draga úr því lýðræði og því valdi, sem söfnuðirnir hafa, til þess að auka að sama skapi biskupsvaldið í landinu á ný.

Hæstv. forsrh. kom hér inn á það í sambandi við það, sem ég hafði minnzt á klerkinn í Kaupmannahöfn, að hann hefði orðið var við það á sínum ferðum, að sá klerkur sýndi sig í því að aðstoða sjúka, og er það mjög vel, að menn, sem settir eru í embætti, sem á einhvern hátt er búið til, án þess að maður sjái beinlínis mikla ástæðu til þess, skuli vera það hugvitssamir og það góðir menn að finna sér upp önnur störf til þess að reyna að skapa því embætti einhvern tilverurétt. Ég verð hins vegar að segja, að það var aldrei sagt neitt frá því, svo að ég muni, þegar fyrst var verið að samþykkja það inn á fjárlög að stofna þetta embætti, að viðkomandi prestur ætti að hjálpa sérstaklega sjúkum, sem kæmu til Kaupmannahafnar. Ég veit ekki, hvort menn hafa yfirleitt vitað af því þá, að það væri nokkuð fyrirhugað. Satt að segja er það svo í okkar þjóðfélagi, að það er orðin mjög mikil þörf á, að það sé reynt að hjálpa mönnum á ýmsan máta, og í þjóðfélögum, sem standa á svipuðu stigi eins og okkar, er það ákaflega mikið farið að tíðkast að ráða sérstaka félagsmálaráðunauta, eins og þeir hafa verið kallaðir á Íslandi, það sem kallað hefur verið social workers á ensku, til þess að hafa slík störf með höndum og það fólk þá alveg sérstaklega þjálfað til þess. Og það eru miklar framfarir, að það hefur nú þegar nokkuð í þessu efni gerzt. Og ég gæti vel trúað, að það væri einmitt þörf á einum slíkum félagsmálaráðunaut t.d. í Kaupmannahöfn til þess að gegna svona störfum, miklu frekar en að setja þar prest. Það mætti gjarnan hafa slíkan félagsmálaráðunaut þá við sendiráðið, stúlku, sem sérstaklega væri þjálfuð í þessum efnum. Og ég býst við, að það mundi hafa alveg eins góð áhrif og hitt, að senda prest til sjúkra manna, því að það er nú einu sinni svo, að stundum tengja sjúkir menn allt annað við það, að presturinn komi til þeirra, heldur en þeim sé að batna. Og það kann vel að vera, að sú hugmynd, sem hæstv. forsrh. kom með, ætti við í fleiri tilfellum. Ég veit það t.d., þó að það sé smásaga aðeins, að sá prestur, og ætla ég sízt að lasta hann, sem gegnir hér því starfi að heimsækja sjúka á sjúkrahúsum, kom eitt sinn til konu, sem lá þar og var allveik og átti bráðum að fara að fara heim, og spurði hana, hvort hann gæti ekki eitthvað gert fyrir hana. Hún sagði, að það væri hugsað um sig hér með allt, sem hún þyrfti, en hún yrði vafalaust send mjög veik heim bráðum og þá þyrfti hún á hjálp að halda, t.d. að láta kaupa fyrir sig fisk og mjólk. Ég býst ekki við, að blessaður presturinn hafi álitið það í sínum verkahring að hjálpa konunni, þegar til slíks kæmi, að hún verulega þurfti hjálparinnar með. En þetta bendir mjög á einmitt út frá því, sem hæstv. forsrh. var að segja, að það mundi vera full þörf á því að fjölga félagsmálaráðunautum hér í Reykjavík, fólki, sem væri til taks til þess að hjálpa fólki í þessum efnum. Það er margt fólk, sem verður nú að fara heim af spítölunum, og sumt, sem kemst ekki á þá, mjög veikt og þarf á hjálp að halda og á erfitt með að fá hana. Það er nú einu sinni svo t.d. í okkar bæjarfélagi hér í Reykjavík, að það er mjög erfitt að fá slíka hjálp. Og það er ákaflega mikil þörf á einmitt slíku starfi eins og félagsmálaráðunautar vinna erlendis, ekki sízt í stórborgunum, og er slíkt orðin fyrirferðarmikil og nauðsynleg og vinsæl stofnun þar. Og það væri mikill misskilningur, ef menn héldu, að menn gætu komið slíku fyrir bara í sambandi við það að fjölga prestum eða gefa biskupi vald samkv. 6.–11. gr. að ráða ýmsa menn hér til starfa í Reykjavík. Ef ríkið álítur sig hafa efni á þessu, sem ég efast ekki um að það hafi, álít ég, að það eigi að nota þetta fé einmitt m. a. til þess að reyna að koma upp skipulagi, sem getur orðið til þess að hjálpa sjúkum og þeim, sem eru hjálparþurfi þannig.

Hv. 2. þm. Sunnl. talaði hér mörg hjartnæm orð, eins og hæstv. kirkjumrh. þegar hefur lýst, talaði sem sá góði og trúaði — mér liggur við að segja: saklausi sveitamaður, sem hann er. Hann prédikaði hér um, að kirkjan mundi alveg sérstaklega vera sá tilvaldi refsivöndur á Mammon og alla peningadýrkunina, og hélt, að við mundum þar eiga volduga stoð til þess að berjast á móti þeirri spillingu og peningadýrkun, sem grefur um sig í þjóðfélaginu. Ég er nú hræddur um, að hann dæmi þá eftir sínum sveitakirkjum þar uppi í Árnessýslu, en ekki eftir þeirri þróun, sem átt hefur sér stað í höfuðstaðnum. Hér í okkar þjóðfélagi hefur það þvert á móti verið að þróast nú upp á síðkastið, að peningadýrkun hefur farið alveg gífurlega í vöxt, og mér sýnist það svo fjarri því, að kirkjan hafi barizt á móti þeirri andlegu spillingu, að ég held, að það sé miklu nær að segja að hún dansi með. Dansinn í kringum gullkálfinn gengur vissulega af fullum krafti í okkar þjóðfélagi nú og eykst með hverju árinu. En ég held, að það komi enginn Móses frá þeim evangelísk-lúterska söfnuði á Íslandi til þess að brjóta neina gullkálfa eða neitt slíkt. Mér sýnist lítið fara fyrir því, að þrumað sé af prédikunarstólunum hér til þess að vinna á móti þeirri þróun, sem þarna á sér stað.

Ég þykist vita, að hv. 2. þm. Sunnl. hefur gengið út frá því gamla boðorði Jesús frá Nazaret og ráðleggingum, „að það kunni enginn tveimur herrum að þjóna“ — Guði og Mammon. En kristin kirkja hefur kunnað það furðuvel um aldirnar að þjóna bæði aðli og auðvaldi, og það hefur frekar verið tilhneigingin til hins, að þeir menn innan kirkjunnar, sem risu upp á móti slíku, hafa þá verið mjög nærri því að vera sviptir hempunni, svo að ekki hafi verið farið verr með þá. Ég held þess vegna, að einmitt sú lúterska kirkja á Íslandi megi alvarlega taka til sín þá áminningu, sem fólst í hans orðum. Við skulum bara aðgæta það, að raunverulega er öll siðgæðiskenning kristinnar kirkju í algerri mótsetningu við aðalhreyfiaflið í nútímaþjóðfélagi okkar. Hvað er það, sem allt okkar nútímaþjóðlíf fyrst og fremst byggist á? Það byggist á gróðanum og gróðalönguninni, og það er það, sem er álitið afl þeirra hluta, sem gera skal. Það er gínandi mótsetning á milli allrar kenningar kristninnar og þess þjóðfélags, sem við búum við, þó að það hafi á sér það yfirborð, að það þykist vera kristið. Var það ekki séra Hallgrímur, sem sagði í Passíusálmunum: „Undirrót allra lasta ágirndin kölluð er“? Nú á tímum mundi í staðinn fyrir „ágirndarorðið“ vera notaður „gróði“.

Og við vorum hér áðan meira að segja að tala um framtalsskyldu í sambandi við sölu á skuldabréfum og öðru slíku, og það þótti mjög óvarlegt að ætla að sleppa því úr, að skuldabréf væru ekki framtalsskyld. Það er meira að segja skattfrelsi á svo og svo miklu. Ég er hræddur um, að allur þessi „praxis“ sé í nokkuð mikilli mótsögn við sjálfar kenningar kristninnar. Ég er hræddur um, að séra Hallgrímur mundi hafa sagt, ef hann ætti að segja eitthvað um þetta: „Frómleika frá sér kasta fjárplógsmenn ágjarnir.“ Ég er hræddur um, að frá prédikunarstólunum hérna komi lítil prédikun á móti fjárplógsmönnunum.

Það hafa einstaka frambjóðendur reynt það stundum að prédika á móti slíkum fjárplógsmönnum og stundum orðið lítið úr því á eftir, en ég held, að prestarnir hafi yfirleitt látið það vera að koma inn á það, og vantar samt ekki, að þeir séu sífellt á það minntir, hvernig um þetta hafi verið hugsað af þeim mönnum, sem vildu telja sig kristna. Ég er hræddur um, að fjárplógsmenn nútímans mundu ekki vera með miklar áhyggjur út af því, sem séra Hallgrímur var að þylja yfir þeim í Passíusálmunum, að þeir höfnuðu þeirri andlegu blessun og settu sál í veð með því að safna fé. Ég held, að það sé nauðsynlegt öðru hverju, þegar menn tala þannig um kirkjuna og kristið siðgæði sem eitt og hið sama, að menn átti sig á því, í hvers konar þjóðfélagi þeir lifa. Það var víst Jón biskup Vídalín, sem sagði það í prédikuninni á 1. sunnudag í föstuinngang, þegar hann var að lýsa því, hverjir það væru, sem ynnu á móti guðs kristni í landinu og þjónuðu Satan, taldi þá m. a. upp þann, sem svíkur náunga sinn í kaupum og sölum og leggur agn ónauðsynlegra og skaðsamlegra hluta fyrir hans óframsýni og fáfræði. Mér dettur nú í hug, þegar menn eru að deila um tóbaksauglýsingarnar eða innflutning tertubotnanna, hvað Jón biskup Vídalín og slíkir mundu hafa sagt yfir t.d. öðru eins og því, að þegar frv. er lagt fram um að banna tóbaksauglýsingar á Íslandi hér á Alþ., skuli það frv. stöðvast, m. a. vafalaust vegna þess, að tóbakshringarnir, sem allt í einu tóku eftir því, að það var leyfilegt að auglýsa tóbak, fóru í það í ákaflega stórum stíl að auglýsa tóbak í öllum blöðum, bíóum og alls staðar annars staðar, og síðan hefur ekki einu sinni svo mikið verið gert sem vara við því á sígarettupökkunum, sem seldir eru, að þetta kunni að vera sérstaklega hættulegt vegna krabbameins.

Ég er hræddur um, að ef við ætluðum að fara út í þá hluti að fara að leggja kristilegan mælikvarða á okkar þjóðfélag, kæmumst við nokkuð fljótt að því, í hve gínandi mótsetningu það er. Og hv. 2. þm. Sunnl., sem enn þá trúir því, að það sé svona mikil mótsetning á milli kirkjunnar og Mammons, má vera alveg viss um, að það er rétt, sem Stephan G. komst að orði forðum daga í Díkonissu: „Mammon vor er alhreinn orðinn, kristindóms- og kirkjuþveginn.“ Það er því miður búið að gera hann að einum höfuðguðinum í nútímaþjóðfélagi. Og kirkjan virðist dansa þarna með.

Við verðum að gá að því, þegar við tölum um þessa hluti, hver uppruni kristninnar er. Frumkristnin var kommúnismi fornaldarinnar, og það gengur ósköp erfiðlega fyrir þá voldugu stofnun, þá kristnu kirkju, að losa sig við sinn uppruna, sérstaklega kenningar þess manns, sem hún er kennd við. Kristur var sjálfur uppreisnarmaður, sem hernámsyfirvöldin í Gyðingalandi með aðstoð klerkdómsins og yfirstéttarinnar í Gyðingalandi krossfestu fyrir að æsa upp lýðinn. Og hans kenningar hafa löngum verið kirkjunni fjötur um fót einmitt í hennar þjónustu við aðal og auðvald á undanförnum öldum. Það er þessi mótsetning, sem kirkjan sem stofnun líður undir. Um þann þátt, sem snertir beinlínis trúarlífið í henni og er af ýmsum öðrum uppruna, þar koma ákaflega mörg áhrif til frá öðrum trúarbrögðum og grískum og jafnvel rómverskum heimspekikenningum, eins og öllum þeim er kunnugt, sem eitthvað hafa lesið um þá hluti. En það, sem snertir siðgæðisneistann, bræðralagskenninguna, jafnaðarkenninguna í þeim upprunalega kristindómi, þá er það eitt af því, sem sú opinbera kirkja hefur orðið að kljást við um allar aldir og er að kljást við enn í dag. Þar á hún erfitt vegna síns uppruna. Ég býst við, að það hafi komið fyrir, að það hafi jafnvel í biskupsembættunum á síðustu öld verið nokkuð áberandi stundum, að þeir vildu þjóna Guði og Mammon nokkuð hastarlega báðum í senn. Og ég held, að það hafi stundum legið við þá, að þeim, sem sannastir voru í sinni kristni, hafi jafnvel sízt verið vægt innan kirkjunnar. Ég er hræddur um, að kenningin um, hvað gerðist, þegar Kristur rak fésýslumennina út úr musterinu, mundi ekki eiga beint upp á pallborðið hjá kirkju nútímans. Það hefur stundum verið nær því, að jafnvel beztu og þeir sem við nú teljum frægustu klerka okkar lands, t.d. séra Matthías, hafi verið nær því að missa hempuna fyrir það að hafa skoðanir, sem féllu ekki í geð höfðingjunum og afturhaldinu í kirkjunni, og það liggi jafnvel við, að slíkt sé til um þá presta, sem frjálslyndastir eru í sínum skoðunum enn í dag.

Við verðum þess vegna að gera greinarmun á því, þegar við tölum um þessa hluti, hvort um er að ræða kirkjuna sem stofnun og alla þá tilhneigingu, sem fram kann að koma þar hjá yfirklerkdómnum til alls konar drottnunar, valda, yfirráða yfir sjóðum, fjársjóðum og öðru slíku, ég meina hérna megin, og svo hins vegar á þeim boðskap, sem sú upprunalega kristni flutti. Og mér finnst satt að segja stundum smitunin frá peningaþjóðfélaginu í kringum okkur ganga nokkuð langt í þessum efnum. Jafnvel er ég ekki fjarri því, að einhvern tíma hafi ég heyrt í áróðri, t.d. fyrir Hallgrímskirkju, minnzt á — gott ef það var ekki hlutabréf eða hlutdeildarbréf eða eitthvað svoleiðis í sambandi við það. Eitthvað var það farið að vera ískyggilega nærri því, sem tíðkast í verzlunarmálunum hérna, þegar var verið að hefja mestan áróðurinn fyrir því, enda kannske eðlilegt, því að margir fésýslumenn komu þar nærri. Satt að segja fannst mér hitt öllu nær, sem ég rakst nýlega á í nýútkominni bók eftir Heiðrek Guðmundsson, sem hét: „Mig dreymdi séra Hallgrím í nótt“, þegar hann sá fyrir sér séra Hallgrím sem fátækan prest, þrammandi hér eftir Miklubrautinni í þeim búningi, sem hann mundi hafa verið í á sínum tíma, og það var verið að vígja Hallgrímskirkju og ekkert pláss fyrir hann þar. Við höfum stundum orðið varir við það, að þær hafa verið svo fínar kirkjurnar, þegar þær voru byggðar upp svo að segja að nýju, að það var raðað þannig í öll sætin þar, að þeir, sem mestan rétt áttu þó á því, safnaðarbörnin sjálf sum, gátu varla komizt inn.

Ég verð að segja það, að einmitt Hallgrímskirkja hefur orðið aðaltáknið, — ég á við hér í Reykjavík, — aðaltáknið um þá sýndarmennsku, sem orðið hefur æ meir og meir áberandi í sambandi við rekstur kirkjunnar hér á Íslandi. Það vill vera svo oft, að því meir sem slíkar stofnanir fjarlægjast sína upprunalegu kenningu, því meira sækjast þær eftir völdum og ytra prjáli og að láta bera á sér. Svo varð um kaþólsku kirkjuna, og mér sýnist þær tilhneigingar vera mjög ríkar hér líka.

Mér datt það í hug, þegar hæstv. dómsmrh. var að tala um það hér áðan, að við hefðum gert alveg nóg við aðra þætti íslenzkrar menningar, þannig að við mættum vel gera það fyrir þann evangelísk-lúterska söfnuð í landinu, sem hér er lagt til í þessu frv., að hægara hefur nú gengið hjá okkur að byggja handritastofnun en að koma Hallgrímskirkju upp, og skynsamlegra held ég það hefði verið og þýðingarmeira fyrir íslenzka menningu, að við hefðum ráðizt í það að byggja handritastofnun hér fyrir nokkrum árum, þegar það var lagt til, heldur en að hrúga upp þeirri Hallgrímskirkju, sem nú er að rísa á Skólavörðuholtinu.

Hæstv. ráðh. minntist á, að við hefðum alltaf verið að fjölga prófessorum við háskólann. Það er rétt. Það hefur verið aukið við prófessora við háskólann hvað snertir lækna, hagfræðinga, lögfræðinga, verkfræðinga. En það er ekki mikið gert að því að auka við í sjálfri norrænudeildinni, þeim hluta heimspekideildarinnar, sem á að fjalla um þá íslenzku menningu. Ég hef nokkrum sinnum á undanförnum árum komið fram með till. um slíkt hérna. Það hefur verið reynt líka af okkar hálfu í menntmn. að fá eitthvað slíkt fram. Það hefur hafzt í gegn með eitt prófessorsembætti. Þá var það svo meira að segja, að í 10 ára áætlun, sem útbúin var fyrir háskólann, var ekki gengið út frá neinni aukningu hvað snertir þann hluta háskólans, sem sérstaklega á að sinna þeim íslenzku fræðum, þannig að því fer fjarri, að það, sem hefur verið einmitt höfuðatriðið í okkar menningarbaráttu, eflingin á sjálfum þeim íslenzku fræðum við háskólann, hefur algerlega verið látið sitja á hakanum, og það var þess vegna, sem ég dró upp einmitt myndirnar af því, ef við værum reiðubúnir til þess að verja fé, eins og hér er lagt til í sambandi við kirkjuna, ættum við þó a. m. k. að sýna okkar íslenzku menningu öllu meiri rækt. En það hefur ekki verið gert, og það hefur ekki fengizt fram og var seinast verið að fella það núna við 2. umr. fjárlaganna að gefa menntmrh. heimild til þess að ráða 3 kennara við háskólann í íslenzkum bókmenntum og íslenzkri sögu. Það var verið að fella það, á sama tíma sem hér er lagt til að bæta við a. m. k. einum 6–8 starfsmönnum, sem biskupinn á að ráða, og útvega ótakmarkaðar heimildir í 24.–25. gr. til þess sama, þannig að það er alveg greinilegt, hvað það er, sem á að sitja á hakanum, en hins vegar ef yfirklerkdómurinn í landinu fer fram á eitthvað í þessum efnum, á að verða við því undireins.

Mér datt það líka í hug í sambandi við það, þegar verið var að tala um klerkinn í Kaupmannahöfn og verið að reyna að verja nytsemi hans, að fyrir nokkrum árum fór einn af okkar allra beztu fræðimönnum fram á það áð fá nokkurn styrk til þess að fara til Kaupmannahafnar til að fara þar í gegnum ýmis handrit, sem þar eru, en þessi sami maður hafði áður uppgötvað allmikið af því, sem t.d. Jón Sigurðsson hafði skrifað og við vissum ekki um áður. Það voru ekki til peningar til að veita í slíkt, að láta athuga og vinna að því, vinna úr þeim heimildum, sem til eru í dönskum söfnum, sem við komum ekki til með að fá hingað heim. Það voru ekki til peningar til slíks. Það voru fræðimenn, sem voru utan við kirkjuna og ætluðu að rannsaka það, sem snerti íslenzka stjórnmálasögu á nítjándu öld, og mikið af hennar heimildum liggur suður í Danmörku. Þá var ekki til fé. Þá átti að spara. En um leið og minnzt er á að gera eitthvað slíkt og skapa jafnvel ný embætti þegar klerkar eiga í hlut, er eins og þetta liggi laust.

Mér finnst þetta vera hræsni. Ég kann ekki við þetta. Við tölum mikið um, hve mikið við leggjum upp úr handritunum, hve mikið við leggjum upp úr okkar menningu, en samt er alltaf verið með eftirtölur og að skera niður, þegar um þetta er að ræða. Ég skal vissulega segja, að það má oft vel vera, að þeir menn, sem hafa forustuna fyrir þeim stofnunum, sem snerta íslenzka menningu, hvort sem það er háskólinn eða aðrir, séu ekki eins aðgangsfrekir gagnvart fjárveitingavaldinu og ráðh. og herra biskupinn. Það má vel vera, eins og ég held að ég hafi einu sinni komizt að orði hér áður, að þeir sýni kristilega undirgefni við yfirvöldin í þessu efni, en herra biskupinn sæki á með kapítalískri áfergju, og er það mjög slæmt, að þetta skuli skiptast svona. Ég held, að það væri þá tími til kominn, að við hér á Alþ. sýndum því meiri áhuga í þessum efnum.

Ég hef ekki orðið var við í þeim ræðum, sem haldnar hafa verið, að nein sérstök rök væru fyrir því færð að stofna þau nýju embætti, sem gengið er út frá í 6.–11. gr., og ég álít, að við eigum, þegar þetta mál kemur nú til menntmn., að athuga það alvarlega, ekki sízt af því að hæstv. ráðh. tók þannig á þessum málum, að hann væri vissulega reiðubúinn til umræðu um þau, — þá eigum við að athuga það alvarlega, hvort ekki beri að skera niður eitthvað af þessu, nema þá svo kunni að breytast veður í lofti, að Alþ. sýni sig hafandi ráð á allt öðrum viðbrögðum en það hefur sýnt hingað til í sambandi við aukin framlög til íslenzkrar menningar. Ég held þess vegna, að það sé rétt, að þetta frv. fái ýtarlega meðferð í n. Ég held, að það sé rétt, að söfnuðirnir á Íslandi séu líka sjálfir látnir segja til um það, hvað þeir álíta í þessum efnum, hvort þeim finnist nauðsynlegra t.d., þeir sem ættu að missa sína presta eftir þessu, ef þeir á annað borð hafa þá, hvort þeir vildu heldur halda sínum prestum eða það verði stofnuð ný prestsembætti, sem biskupinn ráði. Það er rétt að hafa lýðræðislegt háttalag í þeim efnum og spyrja þá, sem þetta snertir. Það er nú einu sinni svo, að með því að gera þá evangelísk-lútersku kirkju að þjóðkirkju í svipinn, eru það þessir söfnuðir, sem hafa verið veitt sérstök réttindi, og það er rétt, að þeir söfnuðir fái að segja til um það, hvort þeir vilji halda þeim. Hitt álít ég, að við eigum að sporna við þeirri tilhneigingu að færa valdið í þessum efnum meira og meira í hendurnar á yfirvöldunum hér í Reykjavík, það eigi að fá að haldast, að svo miklu leyti sem það sé til, áfram hjá þeim aðilum, sem fyrst og fremst hafa hingað til kosið sér sína presta, og þegar ekki er lengur álitið, að þeir þurfi á þeim að halda, eigi að leggja viðkomandi embætti niður, en ekki að fela biskupi að skipa svo að segja í önnur samsvarandi.