13.02.1967
Neðri deild: 40. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í C-deild Alþingistíðinda. (1842)

78. mál, áburðarverksmiðja

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Þetta frv. er gamall kunningi hv. þdm. Ég hef flutt það a.m.k. í rúman áratug, og innihald þess er í stuttu máli, eins og ég býst við að flestum hv. þdm. sé kunnugt, að slá því föstu, að áburðarverksmiðjan sé eign ríkisins. Að vísu finnst manni ekki, að það ætti að þurfa sérstaklega mikla baráttu hér á Alþingi til þess að slá því föstu, að það, sem sagt er í lögum, sé líka meint með þeim. Í lögunum um áburðarverksmiðju stendur í 2. gr., „að ríkissjóður leggur fram fé til stofnunar áburðarverksmiðju skv. ákvæðum fjárlaga, og er þetta fé óafturkræft. Ef fjárveitingar skv. fjárlögum hrökkva ekki til stofnkostnaðar verksmiðjunnar, er verksmiðjustjórninni heimilt að taka það fé, sem á vantar, að láni innanlands og utan, með samþykki ríkisstj. og á ábyrgð ríkissjóðs. Áburðarverksmiðjan skal standa straum af vöxtum og afborgunum þessara lána.“ Og í 3. gr. stendur, með leyfi hæstv. forseta: „Verksmiðjan er sjálfseignarstofnun, er lýtur sérstakri stjórn. Verksmiðjuna má hvorki selja né veðsetja, nema heimild sé veitt til þess á Alþingi.“

Áburðarverksmiðjan er m.ö.o. ríkisfyrirtæki, undir því formi að vera sjálfseignarstofnun, á sama hátt og t.d. Landsbankinn, Útvegsbankinn, Búnaðarbankinn eða aðrar slíkar stofnanir eru sjálfseignarstofnanir, stofnanir, sem ríkið hefur sett á stofn með lögum og ríkið á og ríkið ræður yfir með lagabreytingum. Það er í raun og veru hart, að það þurfi meira en heilan áratug að vera að berjast fyrir því að knýja það fram, að þessi lagabókstafur hafi gildi. Allan þann tíma, sem rætt var um að stofna áburðarverksmiðju, var eingöngu gengið út frá því, að áburðarverksmiðjan yrði ríkisfyrirtæki. En það, sem gerðist hins vegar á síðustu dögum þingsins 1949, því sögulega þingi, vordagana 1949, apríl–maí, þ.e. þegar búið var að samþykkja við þrjár umr. hér í Nd. lögin um áburðarverksmiðju ríkisins, óbreytt eins og ríkisstjórnin hafði lagt þau fram, búið að samþykkja þau síðan við tvær umr. í Nd., þá kemur fram brtt. þar um, að bætt sé við 13. gr. í lögin. Þessi brtt. kemur fram á síðustu dögum mjög annaríks þings. Hún mætti strax mótspyrnu á því þingi, enda var vitað, hvernig á því stóð, að hún kom fram. Það stóð þannig á því, að Alþjóðabankinn, sem þá eins og löngum síðan hefur reynt að skipta sér af íslenzkum innanlandsmálum og reynt að hafa í krafti síns fjármagns áhrif á íslenzka löggjöf og reynt að knýja íslenzk stjórnarvöld á ýmsum tímum til þess að gera það, sem var á móti vilja þings og þjóðar, — þessi alþjóðabanki er að skipta sér af þessu máli og segir, að það sé nauðsynlegt, að það sé reynt að láta líta þannig út eins og þessi áburðarverksmiðja væri þar a.m.k. rekin af hlutafélagi, þar sem einstaklingar ættu hlutafé í. Það er vitað, að þessi tilraun Alþjóðabankans hefur ekki aðeins komið fram í sambandi við áburðarverksmiðjuna. Þessi sama tilraun var gerð seinna meir í sambandi við sementsverksmiðjuna, nokkrum árum seinna. Og það má segja það þeirri stjórn til hróss, sem þá sat, þó að það sé stjórn, sem bæði ég og þeir, sem með mér störfuðu þá á þingi, og Alþýðuflokksmennirnir stóðu í andstöðu við, helmingaskiptastjórnin svokallaða, stjórn Íhalds og Framsóknar, stóð á móti því allan tímann, að látið væri undan þrýstingi Alþjóðabankans um að breyta sementsverksmiðjunni í hlutafélag. En vissir menn í Ed. komu við síðustu umræðu um áburðarverksmiðju ríkisins í Ed. fram með brtt., sem felst í 13. gr., að þrátt fyrir heimild 2. gr., — það er ekki tekið fram um 3. gr., það er engu breytt um, að verksmiðjan sé sjálfseignarstofnun, heldur að þrátt fyrir ákvæði 2. gr., þar sem ríkið á að leggja allt féð fram, megi reka þessa verksmiðju sem hlutafélag, ef það fáist viss upphæð, 4 millj. kr., af hlutafé. Og það, hve gersamlega þetta var bara sýndarmennska, hugsuð út fyrir þá, sem fluttu þetta, og þá, sem framkvæmdu það svo á eftir, sést á því, að ríkið lánað allt það fé, sem þurfti handa þessum einstaklingum og félögum, sem þarna eiga hlut að máli, bæði Sambandinu og einstaklingunum, lánaði það allt saman úr ríkisbönkunum. M.ö.o.: það var bara verið að fullnægja formlegri átyllu. Orðrétt stendur, að verksmiðjan skuli rekin sem hlutafélag, — „og skal verksmiðjan þá rekin sem hlutafélag.“

Nú er það algengt í verzlunarheiminum, að fyrirtæki sé eign eins aðila, en annar aðili reki það. Við þurfum ekki að taka annað dæmi en t.d. bara af Völundi h/f, þar sem er sérstakt félag, sem á eignina, og annað félag, sem rekur hana. M.ö.o.: það var ekkert í þessum lögum, sem gaf minnstu átyllu til þess að líta svo á, að nokkuð hefði breytzt í þeim ákvörðunum, sem fólust í 3. gr. 1., að þessi áburðarverksmiðja væri ríkiseign, að forminu til sjálfseignarstofnun. Hins vegar gerðist það nokkrum árum síðar, að það álpast út úr þáv. hæstv. landbrh., núv. 1. þm. Vestf., úr ráðherrastól, að hann líti þannig á, að þessi verksmiðja sé eign hlutafélagsins, og eins og menn vita, hefur stundum verið litið svo á, að ráðherraorð hefðu eitthvert gildi, og til þess að reyna a.m.k. að koma í veg fyrir, að þetta væri tekin sem einhver ótvíræð yfirlýsing, mótmælti ég þessu þá strax, — það munu nú vera ein 15 ár síðan, — þegar þetta kom fram, tók greinilega fram, að slík yfirlýsing ráðh. gæti engu breytt í lögum, og ef dómar færu að fjalla um þetta mál seinna meir, mætti ekki líta svo á sem þessi yfirlýsing hefði neina skaðabótaskyldu eða slíkt í för með sér fyrir ríkið. Það kom líka greinilega í ljós, þegar við sósialistarnir í Nd. fluttum frv. um þetta strax þar á eftir til að slá því föstu, svo að ekki yrði efazt um, að þessar yfirlýsingar og því síður 13. gr. hefðu í engu breytt eignaraðildinni að áburðarverksmiðjunni, — það kom í ljós, þegar það mál var rætt, að forsrh. þeirrar stjórnar, sem hafði samþykkt áburðarverksmiðjulögin, Stefán Jóh. Stefánsson, lýsti því greinilega yfir, að hann væri þeirrar skoðunar, að áburðarverksmiðjan væri eign ríkisins, það hefði ekkert breytzt í því efni. Sá maður, sem hafði forustu þeirrar stjórnar, sem hafði setið að völdum, þegar þessi lög voru samþykkt, lýsti því alveg skýrt og ótvírætt, hver hans skoðun væri. Þetta mál fór til fjhn., og núv. herra forseti lýðveldisins, Ásgeir Ásgeirsson, sem þá átti sæti í fjhn., tók einnig þá afstöðu, að þetta væri alveg ótvírætt, að áburðarverksmiðjan væri eftir sem áður eign ríkisins og ekkert hefði breytzt í þeim efnum við samþykkt 13. gr.

Síðan er búið að flytja þetta frv., lítt breytt, meira eða minna í 14—15 ár. Það hefur alltaf farið til n., og það hefur aldrei komið úr n. Það hefur verið legið á því að afgreiða það. Löngum hefur það verið svo, að Framsfl. hefur verið einna andvígastur því, að þetta frv. væri samþ., máske vegna þess, að það var hans ráðh., sem mælti svo öfugt þar um. Sjálfstfl. hefur allan tímann verið mjög skiptur í þessu máli. Hann hefur aldrei opinberlega tekið afstöðu gegn því, og ég man ekki eftir yfirlýsingum frá hans ráðh., sem tækju í sama streng og þáv. hæstv. landbrh., núv. hv. 1. þm. Vestf., hafði lýst yfir. En svo rammt hefur kveðið að, að í hvert sinn sem stjfrv. hafa komið fram um breyt. á 1. um áburðarverksmiðjuna, og hæstv. landbrh. hefur flutt einu eða tvisvar sinnum slíkt stjfrv., hafa þau líka stöðvazt í fjhn., vegna þess að n. hefur aldrei treyst sér til að afgreiða stjfrv. um þessi efni án þess að verða þá um leið að taka afstöðu um þetta frv. mitt, þannig að meira að segja þegar áburðarsalan var lögð niður og fyrst var lagt fram frv. um að gera það löglegt með því að flytja hér frv., kafnaði það frv. líka í d., og var beitt ýmsum lagabrögðum síðar til að koma því máli í gegn, að leggja hana undir áburðarverksmiðjuna, þannig að þetta mál hefur staðið eins og kökkur í hálsinum á þinginu í hálfan annan áratug.

Ég álít, að það megi ekki lengur við svo búið standa. Það hlýtur að vera skylda okkar þingmanna að standa vörð um eignir ríkisins, um eignir almennings í þessu efni, og ekki láta neinum aðila haldast það uppi að stela bókstaflega frá ríkinu stórum fyrirtækjum, sem það á. Ég vil bara benda á sem dæmi, hvernig fara mætti að með að stela jafnvel enn þá voldugri ríkisfyrirtækjum en áburðarverksmiðjunni. Við skulum bara segja, að Ísland ætti í miklum erfiðleikum með að fá lán, t.d. Landsbankinn ætti að taka lán og Alþjóðabankinn væri eitthvað erfiður í þeim viðskiptum, en léti svo orð falla: Ja, ef t.d. Landsbankanum væri breytt í hlutafélag, væri þetta allt í lagi, þá mundi Alþjóðabankinn vera reiðubúinn út frá sínum „prinsipum“ að lána slíku hlutafélagi, — og þess vegna kæmi fram í sambandi við frv. um lánsheimild til handa ríkisstj., — og Landsbankinn ætti að taka það lán, — kæmi fram frv. um, að Landsbankinn ætti að taka þetta lán, en á síðustu stundu í Alþingi kæmi fram viðbótartill. um, að eftir að þetta lán væri tekið, skyldi Landsbankinn rekinn sem hlutafélag, og þessu yrði skellt í gegnum þingið í miklu fáti á síðustu dögum annaríks þings, og þm. skildu þetta þannig og margir þeirra mætustu menn lýstu því yfir, að þetta snerti ekkert eignaraðildina, að Landsbankinn væri eftir sem áður sjálfseignarstofnun, það yrði bara að reka hann sem hlutafélag og einhverjir aðilar fengju að kjósa tvo menn í stjórn Landsbankans eða í landsbankaráðið þess vegna. En svo kæmi fram nokkrum árum seinna yfirlýsing frá einhverjum ráðh., sem væri mjög harðvítugur einkarekstrarmaður, um, að hann liti svo á, að þetta hlutafélag ætti Landsbankinn. Við skulum segja, að Landsbankinn eigi núna í skuldlausum eignum aldrei undir 7, 8 eða 9 hundruð millj. kr., ef hans húseignir eru metnar með, og við skulum segja, að þeir hafi lagt fram 5 millj. kr., þessir menn, sem hefðu fengið hlutdeild í rekstrarfélaginu Landsbankinn h/f. Og svo kemur fram yfirlýsing um, að þessir menn, sem höfðu lagt fram 5 millj. kr. til þess að nota í rekstur Landsbankans, væru meðeigendur í Landsbankanum. Það getur hver þm. reiknað út, hvað væri búið að gefa þeim mönnum með slíku og hvað búið væri að breyta okkar skipan allri. Ef til vill yrðu einhverjir seinna meir, ef slíkt skeði, til þess að mótmæla því og reyna að fá fram einhverjar breytingar, en aðrir mundu ef til vill kinoka sér við, vegna þess mikla valds Alþjóðabankans og slíks og vegna þess að einhverjir ráðh. hafa einhvern tíma talað af sér, að gera breyt. á lögunum.

En menn sjá, að það er fundin út mjög góð aðferð til þess að stela frá ríkinu öllum þeim stærstu fyrirtækjum fyrir ríkið, ef sú aðferð á að gilda, sem beitt var i áburðarverksmiðjunni. Ef nokkrir menn geta fengið að láni frá ríkisbönkunum 4 millj. kr., sett þetta i hlutafélag, sem á að heita rekstrarhlutafélag, og eignazt í krafti þess seinna meir 2/5 hluta fyrirtækis, eins og áburðarverksmiðjan er þarna eða eins og Landsbankinn eða einhver slíkur yrði seinna meir, það er algerlega ómóralskt að láta viðgangast, að svona hlutir geti gerzt á Alþingi. Þetta þýðir að lögleiða þjófnað. Fyrst er byrjað með því að smeygja inn tvíræðu orðalagi, síðan með því að skýra þetta orðalag og svo með því að standa á móti því, að úr því fáist skorið, hvað lögin meina, af þeim aðila, sem einn á að skýra þau, sem sé Alþingi.

Ég hef allan þann tíma, sem ég hef flutt þetta frv., viljað taka tillit til þess, að þessir menn, sem lögðu fram 4 millj. kr. 1949—50, eigi engu að tapa, þó að þeim hafi kannske verið talin trú um það, að þeir væru að eignast þarna einhverja eign. Ég hef álitið og allan tímann lagt til, að þeim væru bættar upp þessar 4 milljónir, þeim væru borgaðar þessar 4 millj., þannig að þeir fengju bæði bætt upp það, sem fé hefur fallið í gildi síðan, og vexti af þessu fé fyrir þennan tíma, og gert alltaf ráð fyrir því í sambandi við 3. gr. þessa frv., að það yrði fyllilega metið hjá þeim. Ég skal ekkert segja, hvað það yrði nú. Það yrðu áreiðanlega einar 15—20 millj., og það er þess vegna ekki að neinu leyti um það að ræða, að það eigi að hafa fé af þessum aðilum. Við vitum, að þarna er um að ræða annars vegar SÍS og hins vegar ýmsa einstaka fésýslumenn hér í Reykjavík, og þeir eiga vissulega kröfu á því, að ríkið bæti þeim upp, því að ég veit ósköp vel, að þeir hafa engan gróða haft af áburðarverksmiðjunni á þessum tíma, — að ríkið bæti þeim upp alveg það, sem þeir hafa lagt þarna fram, og fyrir því er ráð gert í 3. gr.

Nú er það svo, að raunverulega þolir þetta ekki lengur neina bið. Áburðarverksmiðjan hafði 15 ára samning við Sogsvirkjunina, þegar hún var stofnuð, samning um mjög ódýrt rafmagn. Sá samningur rennur út á næsta ári, 1968, og áburðarverksmiðjan mun ekki fá slíkan samning aftur. Það er alveg óhugsandi, að Landsvirkjun geri slíkan samning aftur við hana. Það rafmagn, sem áburðarverksmiðjan kemur til með að hafa á næsta ári, verður mun dýrara rafmagn en hún hefur haft hingað til, og hún hefur svo að segja eingöngu getað haft hagstæðan rekstur á þessum tíma vegna þess, hve sérstaklega ódýrt rafmagn hún hefur. Þá kemur að því, að það verður að ákveða, hvað gera skuli í þessum efnum og hvaða aðilar það eru, sem þarna er verið að semja við. Jafnframt stendur til að stækka áburðarverksmiðjuna. Það á að bæta heilmiklu við hana, og þegar á að bæta við hana nú, kostar það náttúrlega stórfé. Það er ekki lengi að fara í tugi milljóna, sem þarna verður bætt við. Þegar áburðarverksmiðjan hefur verið stækkuð, hvaða aðili er það, sem á hana? Þetta verða menn að vita fyrir fram. Það er alveg gefið, að sá, sem á að leggja féð fram, verður ríkið. Það verður ríkið, sem kemur til með að leggja féð fram til stækkunarinnar. Það verður líklega ekki farið fram á það við hluthafana í rekstrarfélaginu að leggja fram féð. En áður en gengið sé til þessara hluta, nýs raforkusamnings og stækkunar á áburðverksmiðjunni, þarf þetta eignarhlutfall að vera klárt. Menn verða að vita, við hvern þeir eru að eiga. Ætlar Alþingi að láta gefa þessu hlutafélagi verksmiðjuna, eins og tilhneigingar virðast hafa veríð til með þessum tvíræðu yfirlýsingum, eða ætlar Alþingi að slá því föstu, að þetta sé ríkisfyrirtæki og þeir menn, sem lagt hafa fram fé í rekstrarhlutafélagið, skuli fá sinn hlut bættan, en þetta skuli vera, eins og alltaf hefur verið, hreint og ótvírætt ríkisfyrirtæki?

Ég vil vekja athygli á því, að það hafa stundum komið hér fram frv., t.d. frá Framsfl., sem hafa gengið út á það, að því er Framsfl. hefur haldið fram, að breyta áburðarverksmiðjunni í ríkisverksmiðju. Ég álít þetta algerlega rangt. Það að koma með frv. eða till. um það að breyta áburðarverksmiðjunni í ríkisverksmiðju þýðir að slá því föstu fyrst, að hún sé ekki ríkisverksmiðja núna, heldur að hún sé eign hlutafélags. M.ö.o.: það er að slá því föstu, að það sé fyrst verið að gefa hlutafélagi áburðarverksmiðjuna og síðan eigi að kaupa hana fullu verði af þessu hlutafélagi aftur. Ef þannig væri farið að, eru þeir menn, sem gáfu þær ótvíræðu yfirlýsingar áður, búnir að fá sitt fram. Þá er búið að líta svo á, að hlutafélagið, þetta 10 millj. kr. hlutafélag, þar sem einstakir aðilar eiga 2/5, það eigi áburðarverksmiðjuna. Það er einmitt þetta, sem ég hef viljað fyrirbyggja allan tímann, og hef þess vegna flutt þetta mál á hverju þingi, að því sé haldið vakandi og því sé slegið föstu og það gleymist ekki, að samkv. lögum er áburðarverksmiðjan eign ríkisins og ríkisins eins. Og í það eina skipti, sem það hefur komið til úrskurðar hæstv. forseta Nd. að kveða á um þetta, — það var Jörundur Brynjólfsson fyrir meira en 10 árum, þegar Vilhjálmur Þór var kjörinn í stjórn verksmiðjunnar, að það var gerð aths. við það, að hann mætti ekki vera þarna sem landsbankastjóri, vegna þess að landsbankastjórarnir máttu ekki vera í stjórn einkafyrirtækja, — þá gaf forseti Nd. þann úrskurð, að áburðarverksmiðjan væri ríkisfyrirtæki og þess vegna mætti bankastjóri Landsbankans taka sæti í stjórn hennar. Allar þær upplýsingar, sem fram hafa komið, frá þeim, sem var forsrh. 1949, þegar lögin voru samþ., frá forseta Íslands og frá forseta Nd., hafa hnigið í það form, að þetta fyrirtæki væri ríkisfyrirtæki. Þess vegna álít ég, að það hafi þegar beðið of lengi og megi nú ekki bíða lengur að slá þessu endanlega föstu.

Ég skal ekkert gizka á, hvers virði áburðarverksmiðjan er nú. Seinast þegar eitthvað hefur verið fullyrt um það af minni hálfu, var talað um 350 millj. kr. Það breytist náttúrlega eins og allar aðrar tölur. En um það leyti sem hún yrði t.d. komin upp í 500 millj. kr. og ef þannig yrði þá af einhverjum óhlutvöndum valdaaðilum lítið svo á, að hún væri eign hlutafélags, væru þeir menn, sem lögðu fram 4 millj. 1950, búnir að eignast 500 millj. kr. eign fyrir þær.

Ég býst við, að öllum þm. hljóti að vera ljóst, hve fráleitt það er, að Alþ. afgreiði ekki þetta mál, Alþ. þori ekki sjálft að taka ákvörðun um, hvað það meinar. Það er æðsti dómstóllinn í þessum málum. Þetta er ekki mál til þess að reka fyrir dómstólum landsins fyrst og fremst. Þetta er mál til þess að útkljá hér á Alþ. Þess vegna vil ég vona, að þetta mál fái nú lokaafgreiðslu á þessu þingi, og í trausti þess vil ég leyfa mér að leggja til, að því verði vísað til 2. umr. og til hv. fjhn.