28.02.1967
Neðri deild: 47. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 410 í C-deild Alþingistíðinda. (1947)

126. mál, launaskattur

Eðvarð Sigurðsson:

Aðeins örfá orð, herra forseti. Ég vil endurtaka það, sem ég sagði hér áðan, að ég ætla ekki hér að fara að ræða um vandamál sjávarútvegsins sérstaklega. Það er ýmislegt í ræðu hv. 1. flm. þessa frv., sem ég er honum að mörgu leyti sammála um, en þau atriði ætla ég sem sagt ekki að fara að ræða núna. En ég vil endurtaka það, sem ég sagði áðan, að ef launaskatturinn hefði ekki komið til 1964, hefði ekki verið samið um sömu laun og þá var gert. Þetta er tvímælalaus staðreynd, sem ber að hafa í huga, og þá byggi þessi atvinnurekstur, sem hér um ræðir, við þeim mun hærra kaup en hann gerir núna. Þetta er það einfalda í málinu. Hvort svo það þykir rétt að létta þessum skatti af hjá þessum hluta sjávarútvegsins og bæta þá byggingarsjóði það upp á annan hátt, það er í rauninni aðrir hlutir. En þá auðvitað hefði það þurft að fylgja með í þessu frv., og sannarlega mundi ég ekki fallast á það, fyrr en ég sæi, á hvaða hátt ætti þá að afla byggingarsjóðnum tekna.

Hv. síðasti ræðumaður, 4. þm. Reykn., sagði, að ég hefði haldið því fram, að þetta frv. væri brot á lögum. Það auðvitað sagði ég aldrei, mér datt það ekki í hug, og held ég, að hann hafi frekar mismælt sig heldur en meint þetta. Að sjálfsögðu er hægt að gera breytingu á þessum lögum eins og hverjum öðrum lögum. Það er út af fyrir sig ekki lögbrot að gera breytingar á lögum. Ég sagði hins vegar, að ég teldi, að mörg samningsatriði, sem höfðu verið felld inn í lög eða sett lög um, ef þau væru afnumin án samráðs við hinn samningsaðilann, teldi ég það jafngilda samningsbrotum, — jafngilda því.

Manni eru ákaflega mismunandi kær ýmis atriði í samningum. Stundum neyðist maður til að gera nauðungarsamninga. Þeir eru líka til. Hér var minnzt á eitt atriði úr júní-samkomulaginu, vísitöluna á lánin, vísitölubindinguna á lánum. Ég var aldrei hrifinn af því atriði, og það er nú svo, að þegar teknir eru upp samningar að nýju, venjulegir kaupgjalds- og kjarasamningar, viljum við gjarnan fá út úr samningum atriði, sem við áður höfðum samið um. Á sama hátt er með þetta atriði. Ég mundi mjög gjarnan vilja fá það út úr lögunum, eins og það er nú.