28.02.1967
Neðri deild: 47. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í C-deild Alþingistíðinda. (1961)

136. mál, sementsverksmiðja

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Vesturl. hefur gert grein fyrir frv. því, sem hann flytur hér, og sé ég ekki ástæðu til að rekja efni þess. Ég álít, að hér sé um mjög athyglisvert mál að ræða. Í þessu sambandi þykir mér eðlilegt að minna á, að ég hef tvívegis flutt þáltill. um svipað efni, og var hún svo hljóðandi:

Alþ. ályktar að fela 11 manna n. að undirbúa löggjöf um aukin áhrif verkamanna og annarra launþega á stjórn þeirra fyrirtækja, sem þeir starfa hjá. Skal löggjöf þessi vera fyrsti áfangi í áætlun til næstu tveggja áratuga um aukið lýðræði í íslenzkum atvinnuvegum. Ber sérstaklega að stefna að því í fyrstu lotu að veita launþegum ríkisfyrirtækja og þá einkum iðnfyrirtækja veruleg bein áhrif á stjórn þeirra, en starfsmönnum í einkarekstri víðtæk ráðgefandi áhrif. N. skal skipuð af ráðh., og tilnefna samtök vinnuveitenda þrjá menn, launþegasamtökin þrjá, þingflokkarnir fjórir tilnefna hver einn mann, en ráðh. skipar formann n. án tilnefningar.“

Í grg., sem fylgdi þessari till., var það tekið fram, að atvinnulýðræði mundi vafalaust ekki ná fram að ganga nema á löngum tíma og eftir margvíslegar tilraunir. Þarf því ekki að taka það fram, að ég fagna því, að fram kemur hugmynd um, að slíkar tilraunir fari fram. Till. þessi fékk því miður litlar undirtektir og hlaut þau örlög í bæði skiptin að sofna í n. eins og margar aðrar ágætar till., sem fluttar eru hér í þinginu. En nú hefur einn af hv. þm. ríkisstj.-flokkanna og meira að segja aðalritstjóri annars helzta málgagns ríkisstjórnarflokkanna vakið þetta mál til lífs á ný hér í þingsölunum, og þykir mér það mikil tíðindi og góð.

Frv. þetta er, eins og fram kom hjá hv. flm., með nokkuð öðru sniði og ólíku innihaldi heldur en sú till., sem ég gerði grein fyrir áðan og ég hef flutt hér hvað eftir annað. Ég sé ekki ástæðu til að leyna því, að ég tel, að það séu vissir ágallar á frv., eins og það liggur fyrir frá flm. Ég álít, að þessi tilraun sé slitin úr samhengi við málið í heild sinni. Það eru engin ákvæði um það í frv., hversu lengi þessi tilraun á að standa eða hver á að meta árangurinn af tilrauninni og hvernig framhaldið á að vera, ef árangur af tilrauninni er metinn sæmilegur. Ég verð að segja, að ef verið er að gera tilraun í þessa átt, hlýtur sú spurning að vakna, hvers vegna þessi tilraun er ekki látin ná til fleiri verksmiðja en einnar. Ef unnt á að vera að fá einhverja reynslu til að byggja á í þessum efnum, er ég hræddur um, að ekki nægi að gera slíka tilraun í aðeins einni verksmiðju. Í þessari einu verksmiðju geta verið sérstakar aðstæður, sem koma í veg fyrir, að sú tilraun gefi rétta mynd af þeim árangri, sem unnt er að ná við betri kringumstæður. Flm. frv. benti réttilega á, að fámenni íslenzkra vinnustaða er tvímælalaust helzta fyrirstaða í vegi þess, að lýðræði í íslenzkum atvinnuvegum fái blómgazt hér á Íslandi. Þó er það svo, að á meira en 50 vinnustöðum á Íslandi starfa yfir 100 manns. Mér virðist því, að svo sannarlega mætti gera slíka tilraun víðar en í sementsverksmiðjunni.

Ég endurtek, að ég fagna því, að þetta frv. skuli hafa komið fram. Mér virðist það sýna, að áhugi er að vakna á þessu máli. Ég hef ekki flutt þáltill. mína á þessu þingi, eins og þó hefði kannske verið ástæða til, en segja má, að ekki sé það orðið of seint enn. En það verða að teljast töluverð tíðindi, að áhugi skuli vaknaður á þessu máli jafnvel í ríkisstj.-flokkunum. Það er kannske rétt að sjá, hvernig viðtökur þetta frv. fær í n. En eins og ég hef tekið fram, álit ég það helzta ágalla frv., að þessi margumtalaða tilraun á aðeins að fara fram á einum vinnustað.