10.03.1967
Neðri deild: 52. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 444 í C-deild Alþingistíðinda. (1980)

144. mál, Fiskimálaráð

Jón Skaftason:

Herra forseti. Ég vil láta í ljós ánægju mína yfir því frv., sem hér var verið að mæla fyrir áðan. Ég skoða það m.a. sem viðurkenningu, nokkuð síðbúna að vísu, af hendi flm. á nauðsyn heildaryfirstjórnar í uppbyggingu sjávarútvegsins, en einmitt spurningin um það atriði, hvort heppilegt sé fyrir þjóðfélagið að styðjast við heildarskipulag við uppbyggingu atvinnuveganna, er meginágreiningsefnið milli stjórnarflokkanna annars vegar og t.d. þess flokks, sem ég tilheyri.

Ástæðan til þess, að ég vil nota tækifærið til að segja hér nokkur orð, er sú, að mig langar að beina fyrirspurn til hæstv. viðskmrh. Frv. um fiskimálaráð gerir ráð fyrir, að meðal verkefna ráðsins sé að hafa forgöngu um markaðsrannsóknir og skipulegar aðgerðir til öflunar nýrra markaða fyrir sjávarafurðir, svo og um framleiðslu nýrra vörutegunda. Ég hygg, að það sé ágreiningslaust hér í hv. Alþ., og raunar meðal allra þeirra, sem um þessi mál fjalla, að á þessu sé hin mesta þörf og brýn nauðsyn um margra ára skeið. Ég hef því á undanförnum þingum þrívegis flutt þáltill. í þessa stefnu, og það gerðist á síðasta Alþ., að 23. febr. 1966 var samþ. þáltill., sem ég flutti ásamt 7 öðrum flokksbræðrum mínum, sem hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að skora á ríkisstj. að láta athuga í samráði við fulltrúa atvinnuveganna, á hvern hátt megi efla markaðsrannsóknir og markaðsleit í þágu útflutningsatvinnuvega þjóðarinnar, og verði niðurstöður þessara athugana lagðar fyrir næsta reglulegt Alþingi.“

Þessi till. var samþ. shlj. Eins og tillgr. ber með sér, er þar gert ráð fyrir því, að athugun þessari skuli lokið fyrir lok þessa þings. Nú mun komið að því, að þingi fari að ljúka, og enn hefur mér vitanlega ekki bólað neitt á því, að niðurstöður þeirra athugana, sem væntanlega hafa verið framkvæmdar í þessu máli, hafi verið lagðar fram á þinginu. Þess vegna finnst mér að gefnu tilefni í frv. þessu ástæða til þess að spyrja hæstv. viðskmrh., hvað hafi verið gert til þess að framkvæma þessa shlj. ályktun Alþ. frá í febrúar 1966.