16.12.1966
Efri deild: 30. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 311 í B-deild Alþingistíðinda. (204)

88. mál, Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er ekki ástæða til þess að hafa mörg orð út af ræðu hv. 1. þm. Vesturl. Hv. þm. minnti á till., sem framsóknarmenn hafa flutt um framleiðnisjóð atvinnuveganna, till. með stórum tölum, miklum fjárhæðum. Og það er þetta, sem þeir minna á, þegar talað er um atvinnuvegi yfirleitt: vegna þess að tilllögur okkar hafa ekki verið samþykktar, þá er nú þetta allt saman smátt í sniðum, sem samþykkt er af hendi ríkisstj. — En það vill nú til, að flestir hafa gert sér grein fyrir því, að það er lítils virði fyrir atvinnuvegina að sjá prentuð þskj. með háum tölum, sem eru aðeins til þess að veifa framan í fólk og vitað er að enginn grundvöllur er til þess að samþykkja, eru aðeins yfirboðstill. Og menn hafa tekið eftir því yfirleitt, almenningur í þessu landi, að Framsfl. hefur alltaf fataskipti og klæðist sitt hverju eftir því, hvort hann er við völd eða í stjórnarandstöðu. Það væri ágætt, ef þessi hv. þm. vildi minna á einhverjar stórar till., sem hans flokkur hefur flutt til styrktar landbúnaði, meðan hann var í ríkisstj. Það væri fróðlegt að fá að heyra þær upphæðir, þær háu tölur, sem hann vildi nefna í sambandi við það.

Það gerðist í hv. Nd. undir meðferð þessa frv., að Hannibal Valdimarsson, hv. 5. þm. Vestf., flutti brtt. og lagði til, að stofnfé framleiðnisjóðs yrði ekki 50 millj., heldur 65 millj. Þessi hv. þm. var svo óheppinn, að hann flutti sína brtt. á undan framsóknarmönnunum, svo að hv. tveir framsóknarmenn í Nd. hugsuðu sem svo: Ja, við verðum að bjóða yfir Hannibal. Við verðum að sýna þó bændunum það, að við viljum betur en hv. 5. þm. Vestf., enda þótt hann sé nú orðinn að hálfu bóndi. — Og þess vegna fluttu þeir brtt., sem var aðeins hærri en till. hv. 5, þm. Vestf., að stofnféð skyldi vera 70 millj. Og þar með var það sýnt og lesið upp í útvarpi, að hv. framsóknarmenn vildu gera betur við framleiðnisjóðinn heldur en hv. 5. þm. Vestf. En hér í þessari hv. deild vildi hv. 1. þm. Vesturl. ekkert eiga á hættu. Hann gat nefnilega búizt við því, að hv. 4. þm. Norðurl. e., ef hann kæmi með brtt. á eftir, þá yrði hans till. jafnvel 5 millj. hærri en brtt. hv. framsóknarmanna. (Gripið fram í.) Ég er að segja, að hv. 1. þm. Vesturl. vildi ekkert eiga á hættu, ef það kæmi til, að flokksbróðir 5. þm. Vestf. vildi borga fyrir það, sem gerðist í hv. Nd. Og nú á hv. 1. þm. Vesturl. ekkert á hættu annað en það, að það sést, að hv. 4. þm. Norðurl. e. vilji gera eins vel við bændur og hv. 1. þm. Vesturl. Þetta fannst hv. 1. þm. Vesturl. betra en að það kæmi í ljós, að hv. 4. þm. Norðurl. e. hefði komið með brtt., sem gengi lengra.

En sleppum nú þessu. Aðalatriðið er nú það, og það er það, sem spurt er um, hvað er gert, og það er það, sem kemur að gagni, en ekki það, hvað er prentað á þskj. og hvað er sýnt og hverju er veifað framan í almenning, bændur eða aðra. Hv. 1. þm. Vesturl. var að tala um, að hann vænti þess, að hv. þm. sýndu þá framsýni að styðja till. hans og félaga hans. Hvað á hv. þm. við með framrýni? Á hann við það, að sú hætta gæti verið á því, að 1969–1971 væri Framsfl. kominn í ríkisstj. og þá væri ekki aðstaða til þess að afla fjár, sem nú er talið sjálfsagt að lögfesta. Það er hugsanlegt. Engu skal ég spá um það, hverjir hafa mest völd 1969 og 1971. Það veit enginn. Í lýðræðisþjóðfélagi veit enginn, hverjir fara með stjórn þetta og þetta kjörtímabil. En það gætu verið hyggindi að þessu leyti að eiga ekkert á hættu, því að enginn vafi er á því, að ef framsóknarmenn verða í stjórn, þá fer minna fyrir brtt. til hækkunar heldur en nú. En ég ætla að eiga það á hættu, að framleiðnisjóður, úr því að hann er til orðinn og stofnaður jafnmyndarlega og raun ber vitni, — þá ætla ég nú að eiga það á hættu og vona það, að við sjálfstæðismenn höfum áhrif á árunum 1969–1971 og getum stuðlað að því, að framleiðnisjóði verði þá einnig gert fært að starfa, ef það sýnir sig, að störf hans og það, sem honum er ætlað að vinna, reynist jafnvel og vonir standa til.

Lántökuheimild fyrir sjóðinn er vitanlega algjörlega óraunhæft að vera að fara fram á, um leið og verið er að setja sjóðinn á laggirnar og áður en hann er farinn að starfa og kominn í form. Ég vil aðeins minna á það, að enda þótt 20 millj. kr. verði varið á þessu ári að segja má til framleiðniaukningar og endurbóta á vinnslustöðvun landbúnaðarins, þá eru 30 millj. kr. eftir, sem sumir hv. framsóknarmenn telja lága og litla fjárhæð. Einn hv. þm. í Nd. taldi vafasamt, að það væri rétt fyrir bændur að taka við þessari upphæð, hún væri svo lítil. En ég vil nú minna á, að í septembermánuði, þegar viðtöl fóru fram milli fulltrúa bænda og ríkisstj., þá var ákveðið, að stofnframlag sjóðsins skyldi aðeins vera 30 millj., en síðar var samkomulag um að hækka það upp í 50 millj. Fulltrúar bænda, sem hafa bezta þekkingu á málefnum landbúnaðarins, líta raunhæfum augum á þetta og tala ekki um, að þetta sé smánarleg upphæð, heldur hafa þessir menn gert sér grein fyrir því, að það er mikils virði, að sjóðurinn er stofnaður og að hann hefur verkefni að vinna. Það er vitanlega höfuðskilyrðið, og því betra sem þau eru fleiri. Og ef það tekst vel með reynslunni að sanna gildi sjóðsins og sýna fram á, að sjóðurinn leysir hlutverk sitt eins og vonir standa til, er vitanlega því auðveldara að fá skilning Alþ. á því, að nauðsyn beri til að tryggja sjóðnum fé til frambúðar.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta, en það er almennt, sem menn brosa í kampinn, þegar hv. framsóknarmenn tala um, að þetta sé smánarlega lág upphæð og það sé á takmörkum frambærilegt að sýna frv. með þessari tölu.