18.04.1967
Sameinað þing: 37. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 66 í D-deild Alþingistíðinda. (2211)

177. mál, ellefu hundruð ára afmæli byggðar á Íslandi

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Það var í tilefni af þeim útúrsnúningum, sem komu fram bæði í ræðu hæstv. forsrh. og hv. 3. þm. Norðurl. e., sem ég kvaddi mér hljóðs. Það má vel vera, að þetta þskj. sé verr unnið en venja er um þskj. hér á hv. Alþ. Þó held ég, að ef menn lesa það með réttum gleraugum, muni það ekki reynast. Og fyrir okkur í fjvn. í þessu máli fór forseti sameinaðs Alþ., og tel ég það nokkra tryggingu fyrir því, að sæmilega hafi verið að málinu unnið. Ég held líka, að það ætti að vera ljóst þeim, sem vilja sjá, að í grg. eða í nál. hv. fjvn. kemur það greinilega fram, hvað n. vill. Hins vegar finnst mér, að hæstv. forsrh. og hv. 8. þm. Norðurl. e. hafi viljað skilja það á annan veg.

Fjvn. tekur það skýrt fram, að hún er alveg mótfallin hugmyndinni um þjóðarhús á Þingvöllum. Það kom fram nú í ræðu hv. 3. þm. Norðurl. e., að hugmyndin um þjóðarhús á Þingvöllum er í raun og veru upphaf að því að staðsetja Alþ. á Þingvöllum, og þeir, sem skrifuðu ekki undir nál. með fyrirvara, eru mótfallnir því. N. tekur það líka fram, að hún sé hlynnt bókaútgáfu, en ekki í því formi, sem fram kemur hjá þessari hátíðanefnd. En hún leggur líka áherzlu á, að það eigi að gera út um alfriðun vissra svæða á Þingvöllum, það eigi að friða viss svæði á Þingvöllum, sem eigi hvorki með byggingum né öðru að breyta, Og það, sem fjvn. leggur sérstaka áherzlu á, er bygging alþingishúss. Það er hennar mat, að það eigi að ganga fyrir öðru og eigi að nota þetta afmæli til þess að hrinda því verki í framkvæmd. Það er nm. ljóst, að hér er ekki um það að ræða, að slíku stórverki geti verið lokið á landnámsafmælinu. En hitt er þeim jafnljóst, að með því að ákveða um byggingu alþingishúss og hefja verkið, er það mál leyst, og það leggur fjvn. áherzlu á, að þetta landnámsafmæli verði einmitt notað til þess að hrinda því nauðsynlega og merkilega verki í framkvæmd, og telur, að íslenzka þjóðin, sem býr við elztu löggjafarsamkomu í veröldinni, eigi að nota þessa hátíð til þess að minnast þess á verðugan hátt.