13.04.1967
Neðri deild: 65. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í D-deild Alþingistíðinda. (2247)

140. mál, rannsóknarnefnd á ásökunum um trúnaðarbrot utanríkismálanefndarmanna

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. komst þannig að orði í upphafi máls síns, að hann teldi, að hér væri ekki um stórmál að ræða. Það getur vel verið, að hæstv. ráðh. telji það ekki stórmál, að það sé borið trúnaðarbrot á þm., en ég tel það stórmál og það sé um mjög alvarlega ásökun að ræða og þeir þm., sem fyrir slíkum ásökunum verða, eigi fullan rétt á því, að það mál sé rannsakað til hlítar af Alþ. sjálfu og upplýst, hvað í slíkum ásökunum er hæft og hvað ekki.

Þetta mál, sem hér liggur fyrir, er að öðru leyti stórmál, vegna þess að núv. hæstv. utanrrh. hefur byggt þá afstöðu sína á afsökunum Guðmundar Í. Guðmundssonar, að hann hefur ekki viljað hafa þau samráð við utanrmn., sem þingskapalög Alþingis gera. ráð fyrir. Ég álit það mjög mikið stórmál, þegar svo er komið, að lög eru vísvitandi brotin, vegna þess að viss ráðh. fer eftir einhverjum ásökunum um það, að sá trúnaður hafi ekki verið haldinn, sem þessi lög hafa gert ráð fyrir. Að vísu er það svo, að í þessum lögum eru engin ákvæði um trúnað, en hins vegar álít ég, að bæði í utanrmn. og í öðrum n. hafi sú hefð skapazt, að þegar ráðh. eða einhver aðili óskar sérstaklega eftir því, að með viðkomandi mál sé farið sem trúnaðarmál, þá sé skylda manna að taka tillit til þess.

Ráðh. ræddi nokkuð mikið um, að það væri álit Guðmundar Í. Guðmundssonar, að utanrmn. væri lokuð nefnd. Ég held það sé eiginlega í fyrsta sinn; sem sú skoðun kemur fram, eftir að farið var að ræða þetta trúnaðarbrotsmál, að utanrmn. væri lokuð n. Ég held það hafi alltaf verið gengið út frá því, að utanrmn. væri opin n., nema það væri sérstaklega óskað eftir því, að með eitthvert ákveðið mál væri farið eins og trúnaðarmál. Ég hef fyrir mér um þetta efni ummæli flokksbróður míns í utanrmn., Hermanns Jónassonar, sem sennilega hefur haft lengur afskipti af þessum málum en nokkur maður annar, sem forsrh. á árunum 1934—1940, að þá var hann jafnframt utanrrh. raunverulega og átti þá þau skipti við utanrmn., sem ríkisstj. þurfti að hafa um þessi mál, og hann hefur oft síðan setið í utanrmn. sem nm. þar, og hann segir það hafa jafnan verið sína afstöðu og sína skoðun og hann hafi ekki heyrt getið um skoðun annarra á aðra leið en að utanrmn. væri opin n., nema það hafi verið sérstaklega óskað eftir því af ríkisstj. eða einhverjum öðrum aðila, að með mál, sem til meðferðar voru í n., væri farið sem trúnaðarmál.

Ég vitnaði hér áðan í dæmi þess, að t.d. fyrrv. formaður utanrmn., Gísli Jónsson, hefur litið á þetta á nákvæmlega sama hátt, vegna þess að hann hefur sagt frá ákveðnum atburðum, sem gerzt hafa í utanrmn., vegna þess að það var ekki óskað eftir því á þeim tíma, að með það mál væri farið sem neitt trúnaðarmál.

Ég vil enn fremur benda á það, að sú n., sem fjallaði nýlega um þingsköpin samkvæmt útnefningu Alþ. og hefur gert nokkra breytingu á ákvæðunum í þingsköpunum um utanrmn., hún er þessarar sömu skoðunar, og það kemur fram í hennar till., að utanrmn. sé opin n., nema ráðh. eða formaður n. ákveði, að um eitthvert mál skuli farið sem trúnaðarmál. Um önnur mál er nm. að sjálfsögðu frjálst að segja frá, enda gefur það auga leið, að svo hlýtur að vera um fjöldamörg mál, þar sem það er eitt meginverkefni utanrmn. að fjalla um till., sem eru lagðar fyrir Alþ. Hitt hefur alltaf verið talið sjálfsagt, þó að það hafi ekki verið í lögum og ekki lagt til, að það verði gert að lagaákvæði fyrr en nú, að ef ráðh. eða einhver viðkomandi aðili, t.d. formaður n., óskar eftir því, að með mál verði farið sem trúnaðarmál, þá yrði það gert. Mér hefur skilizt það og skildist það á síðasta fundi utanrmn., að ef því skilyrði yrði fullnægt, mundi ráðh. telja eðlilegt að taka upp samstarf í n., en það verði alls ekki krafa hans, að n. verði lokuð undir öllum kringumstæðum, heldur því aðeins að ráðh. legði þannig mál fyrir n., að hann teldi heppilegt, að með það væri farið sem trúnaðarmál, eða það hefðu farið fram slíkar umr. í n. um eitthvert ákveðið mál, að formaður n. teldi eðlilegt, að ekki yrði sagt frá þeim umræðum opinberlega, þá væri eftir því farið. Að öðru leyti hefðu nm. óbundnar hendur um það, hvernig þeir segðu frá störfum utanrmn., alveg eins og verið hefur hingað til.

Ég tel svo rétt að víkja nokkrum orðum að þessari skýrslu frá Guðmundi Í. Guðmundssyni, ef skýrslu skyldi kalla, vegna þess að hún upplýsti ekki neitt um þær ásakanir, sem hann hefur borið fram á hendur utanrmn: mönnum. Hann færði ekki rök að einu einasta dæmi um það, að utanrmn.menn hefðu gert sig seka um trúnaðarbrot, heldur vildi komast á þak við þá skýringu á störfum n., sem algerlega var röng, eins og ég hef nú rakið, að n. væri lokuð n. og þess vegna mætti ekki neitt frá neinum málum þar segja, jafnvel þó að fjallað væri þar um mál, eins og verið hefur á fundum n. á undanförnum árum, sem alls ekki eru nein trúnaðarmál í eðli sínu. Eins og ég hef rakið hér áður í þinginu, hefur a.m.k. síðan sumarið 1959, að ég tók sæti í n., ekki verið lagt eitt einasta mál fyrir n., sem hægt sé að kalla trúnaðarmál, vegna þess að það hafa ekki verið lögð fyrir n. önnur mál og ekki aflað annarra upplýsinga en þeirra, sem áður voru komnar í blöðum eða á þingfundum, og n. ræddi þess vegna ekki um neitt, sem hægt var að nefna því nafni að vera trúnaðarmál. Ég minnist þess ekki heldur, að af hálfu Guðmundar Í. Guðmundssonar hafi nokkru sinni á þessum fundum verið farið fram á það, að með þær upplýsingar, sem hann taldi sig vera að gefa, væri farið sem trúnaðarmál, enda alls ekki eðlilegt, að hann gerði það, vegna þess að hann hefur ekki skýrt frá öðru en því, sem þá var komið í blöðum eða annars staðar opinberlega á framfæri.

Hæstv. ráðh. vildi gera nokkurt veður út af því, að ég skyldi ekki strax veturinn 1964, þegar Guðmundur Í. Guðmundsson gerði þessi mál að umræðuefni í utanrmn., flytja slíka till. eins og þessa. Ég mótmælti þessu þá strax í n., og þar sem ráðh. hreyfði þessu máli ekki meir, taldi ég, að það væri nægilegt, að þar við sæti. En eftir að svo er komið, að núv. utanrrh. er farinn að leggja trúnað á þessi ummæli Guðmundar Í. Guðmundssonar og neitar að hafa þau samráð við n., sem lög gera ráð fyrir, vegna þess, finnst mér málið vera komið á það stig, að það sé óhjákvæmilegt að fá það nánar upplýst, og vegna þess að það er farið að ræða þannig um þessar fullyrðingar hæstv. fyrrv. utanrrh., eins og þar sé um einhvern sannleika að ræða. Það hefur ekki áður verið gert.

Um þau ummæli, sem Finnbogi R. Valdimarsson kann að hafa haft einhvern tíma á Alþingi, skal ég ekki segja, ég hef ekki haft aðstöðu til að kynna mér, í hvaða sambandi þau ummæli hans hafa fallið. En ég vil fullyrða það, að á þeim tíma, sem við Finnbogi R. Valdimarsson vorum saman í utanrmn., frá því sumarið 1959 og fram til kosninganna 1963, hafi hann ekki gert sig sekan um nein trúnaðarbrot í sambandi við utanrmn., vegna þess að í fyrsta lagi höfðu engin trúnaðarmál verið lögð fyrir n. á þeim tíma, því að hæstv. fyrrv. utanrrh. hagaði þar þannig sínum störfum, og í öðru lagi vegna þess, að ráðh. fór aldrei fram á það, að með þau mál, sem þar voru til meðferðar, væri farið sem trúnaðarmál, enda liggur það í augum uppi, ef utanrrh. Guðmundur Í. Guðmundsson hefði talið, að t.d. á árinu 1958 eða 1959, eins og nú er talað um, eða 1960 og 1961 hafi verið framin trúnaðarbrot, hefði hann að sjálfsögðu átt að gera aths. strax um það í n. og hreyfa málinu þar, en það er ekki fyrr en mörgum árum seinna, sem hann notar sér þetta til afsökunar.

Ég skal jafnframt segja það í tilefni af því, sem hæstv. utanrrh. sagði áðan, að ég hefði ekki gert eins mikið veður út af þessu máli 1964 eins og nú, að það er, eins og ég áðan sagði, í fyrsta lagi vegna þess, að ég hélt, að þáv. ráðh. hefði látið sér mótmæli mín nægja, og svo að öðru leyti, að ég taldi ástæðulaust að vera að fara fram á það í utanrmn eða hér á þinginu, að það væri komið á eðlilegu samstarfi á milli utanrmn. og ríkisstj., á meðan Guðmundur Í. Guðmundsson væri utanrrh. Ég taldi, að það væri komin margföld reynsla af honum á þann veg, að það væri útilokað, að það væri hægt fyrir Alþ. að ná nokkru samstarfi við hann. Ég hef hins vegar haft annað álit á hæstv. núv. utanrrh. í þeim efnum. Ég hef viljað álíta, að þrátt fyrir það, að hann hafi lagt svona mikið upp úr ummælum fyrirrennara síns, væri hann miklu nær því en Guðmundur Í. Guðmundsson að taka upp eðlilega samvinnu við Alþ. í þessum efnum, og ég vil vona enn, að svo sé.

En mér finnst það ákaflega einkennilegt af ráðh. að leggja til, að þessi till. sé felld, því að það hefur ekkert enn þá komið fram í þeirri grg. Guðmundar Í. Guðmundssonar, sem hann las hér áðan, sem staðfestir þær ásakanir hans, sem hann hefur haldið fram á hendur utanrmn.-mönnum. Og ég álít, að þeir eigi rétt á því og t.d. ekki sízt Finnbogi R. Valdimarsson eftir þau ummæli, sem eru látin falla um hann í grg. Guðmundar Í. Guðmundssonar, að þetta mál verði rannsakað til fulls og það væri þá t.d. skorið úr þeim málflutningi, hvort eigi að lita þannig á, að utanrmn. hafi verið lokuð n. að undanförnu eða ekki, og einnig, hvort nokkru sinni á þeim tíma, sem Guðmundur Í. Guðmundsson var utanrrh., hafi verið óskað eftir því, að mál í utanrmn. væri trúnaðarmál, og það hafi verið brotið. Ég held, að þessi afstaða hæstv. utanrrh., að vilja fella till, nú strax, sé því miður fólgin í því, að hann telur, að hæstv. fyrirrennari hans hafi hér haft rangt fyrir sér, hans ásakanir séu rangar og af hlífð við hann vilji hann ekki láta það koma fullkomlega í dagsljósið, að hann hafi hér borið fram rangar ásakanir um trúnaðarbrot á hendur alþm. Ég get vel skilið þá hlífð hæstv. utanrrh. við fyrirrennara sinn. Hún er kannske mannleg, en stórmannleg er hún ekki, því að þm. eiga rétt á því, þegar slíkar ásakanir eru á þá bornar, að þeir geri sig seka um trúnaðarbrot, að þeir fái það mál kannað til fullkominnar hlítar.

Ég vil þess vegna treysta því, að hæstv. utanrrh. breyti þessari afstöðu sinni og a.m.k. að hann verði ekki á móti því, að mál þetta fái að ganga til n. hér á Alþ. og athugast betur þar. Ég skal ekki ræða um þetta mál öllu meira að sinni, enda er nú komið að lokum þess tíma, sem fundur á að standa að þessu sinni. En ég vil segja það, að í lengstu lög treysti ég því, að þrátt fyrir það þó að utanrrh. hafi nú lagt til, að þessi till. verði felld, þá telji þm. það almennt svo mikilvægt, að alþm. haldi trúnaðarheit sín, að þegar þær ásakanir koma fram á slíkum vettvangi sem hér er um að ræða, að þeir hafi gerzt sekir um trúnaðarbrot, þá fáist það mál rannsakað til fulls.