26.10.1966
Sameinað þing: 6. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í D-deild Alþingistíðinda. (2268)

12. mál, endurkaup Seðlabankans á framleiðslu- og hráefnavíxlum iðnaðarins

Flm. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Það mun hafa verið fyrir tæpum hálfum mánuði, að forsrh. birti hér í þinginu eins konar stefnuskrá af hálfu ríkisstj. Í þeim umr., sem fóru fram á eftir, játaði ráðh., að það væri nauðsynlegt að gera ráðstafanir vegna þriggja atvinnugreina, togaraútgerðarinnar, bátaútvegsins og frystihúsanna, vegna þess, hvernig afkomu þeirra væri komið. Ráðh. sleppti hins vegar að minnast á atvinnugrein, sem áreiðanlega býr við sízt betri afkomu um þessar mundir heldur en þessar þrjár, sem ég nú nefndi, en það er iðnaðurinn.

Hv. þm. hafa vafalaust lesið það bæði í blöðum og heyrt í útvarpi ýmsar frásagnir forustumanna iðnaðarins um það, hvernig málum hans nú er komið og hvernig að honum þrengir á margan hátt. Í sambandi við þá iðnaðarsýningu, sem hér var haldin á s.l. hausti, voru birtar margar slíkar lýsingar, og tel ég víst. að þær séu þm. enn í fersku minni. Það er þess vegna alveg víst, að það er ekki síður ástæða til þess nú að gera ráðstafanir til leiðréttingar iðnaðinum heldur en til þess að rétta hlut togaraútgerðarinnar, minni vélbátanna og hraðfrystihúsanna. Iðnaðurinn býr við mjög erfiða aðstöðu, eins og líka er meira að segja játað í skýrslu Efnahagsstofnunarinnar til Hagráðs, erfiða aðstöðu, sem hefur leitt af þeirri stjórnarstefnu, sem hefur verið fylgt í landinu á undanförnum árum. Það er ekki aðeins, að verðbólgan hafi þrengt að iðnaðinum eins og öðrum atvinnugreinum, heldur hafa til viðbótar komið stórfelld lánsfjárhöft og svo síðast, en ekki sízt stórfelldur innflutningur á erlendum iðnaðarvörum, án þess að iðnaðurinn væri undir það búinn að mæta slíkri samkeppni.

Ég álit það engan veginn óeðlilegt, að íslenzkur iðnaður sé látinn eiga í nokkurri samkeppni við erlenda framleiðslu, en það verður að gerast undir þeim kringumstæðum, að hann hafi aðstöðu til þess að heyja slíka samkeppni. En ég held, að það megi fullyrða, að íslenzkur iðnaður hefur aldrei haft erfiðari aðstöðu til þess að heyja slíka samkeppni en einmitt nú. Það er í fyrsta lagi að nefna hina miklu verðbólgu, sem hefur þróazt í landinu á undanförnum árum, það er að nefna hin stórfelldu lánsfjárhöft, sem iðnaðurinn hefur búið við, og síðast, en ekki sízt það, að íslenzk framleiðsla hefur á undanförnum missirum búið við stöðugt óhagstæðari gengisskráningu, sem hefur gert samkeppnisaðstöðu íslenzkrar Framleiðslu erfiðari og aðstöðu erlendrar framleiðslu betri. Undir þessum kringumstæðum átti ekki að byrja þessa samkeppni. Það átti að byrja á því að laga aðstöðu íslenzks iðnaðar til þess að mæta þessari nýju samkeppni, áður en erlendu iðnaðarvörunum væri sleppt eins mikið inn í landið og raun ber vitni um.

En þrátt fyrir það, þó að hag iðnaðarins sé nú þannig komið og hann sé áreiðanlega sízt betri en hagur togaraútgerðarinnar, minni bátanna og frystihúsanna, eru ekki boðaðar neinar ráðstafanir af hálfu hæstv. ríkisstj. til þess að rétta hlut þessa atvinnuvegar. Og skýringuna á því er að finna í þeirri ræðu, sem forsrh. flutti nýlega á flokksráðsfundi hjá sjálfstæðismönnum og birt var í Morgunblaðinu fyrir nokkrum dögum. Þar kemur það alveg hiklaust fram, að það sé skoðun forsrh., að íslenzkur iðnaður sé slíkur atvinnuvegur, að hann sé alls ekki samkeppnishæfur við erlendan iðnað. Forsrh. segir þar orðrétt, að það geti verið rétt að halda iðnaðinum við, en það kostar, segir hann, að hafa hærra verðlag en ella. M.ö.o.: það er hans úrskurður og vafalaust allrar ríkisstj., að það sé ekki hægt að viðhalda íslenzkum iðnaði á annan veg en þann, að það auki dýrtíðina í landinu, það geri verðlagið hærra en ella. Ég vil mótmæla þessari skoðun forsrh. og ríkisstj. Íslenzkur iðnaður hefur á undanförnum árum sýnt það á mörgum sviðum, ef rétt er að honum búið, að hann getur verið fullkomlega samkeppnisfær við erlenda framleiðslu. Og það má nefna fjöldamörg dæmi þess, og það mun ég gera, ef þessu verður mótmælt. Ég tel, að það sé að öllu leyti rangt að bera saman aðstöðu iðnaðarins, eins og hún er í dag, við erlenda framleiðslu og draga ályktun af því, að íslenzkur iðnaður sé ósamkeppnishæfur, því að það er ekki rétt að gera slíkan samanburð, eftir að búið er að þrengja að íslenzkum iðnaði jafnstórfelldlega með stjórnaraðgerðum og gert hefur verið á undanförnu ári. Það er ekki rétt að gera þennan samanburð á þeim tíma, þegar stórkostleg verðbólga þrengir að íslenzkum iðnaði, miklu meiri en iðnaði annarra landa. Það er ekki rétt að gera þennan samanburð, þegar miklu stórfelldari lánsfjárhöft þjaka innlendan iðnað heldur en erlenda framleiðslu sambærilega. Og sízt af öllu er rétt að gera slíkan samanburð undir þeim kringumstæðum, þegar gengisskráningin er jafnóhagstæð íslenzkri framleiðslu og hún er í dag. Ef allt þetta væri hins vegar með felldu, er ég alveg sannfærður um það, að á fjölmörgum sviðum gæti íslenzkur iðnaður verið vel samkeppnisfær við erlenda framleiðslu.

Það er þess vegna hin mesta falstrú, sem forsrh. og ríkisstj. er að boða, þegar þessir aðilar halda því fram, að það sé ekki hægt að viðhalda íslenzkum iðnaði öðruvísi en að þjóðin verði að búa við hærra verðlag en ella, meiri dýrtíð í landinu en ella. En það er einmitt þessi vantrú á íslenzkum iðnaði, sem hefur stjórnað öllum aðgerðum hæstv. ríkisstj. í afstöðu hennar til iðnaðarins. Það skal játað, að hún hefur verið að gera smáaðgerðir að undanförnu iðnaðinum til stuðnings, en svo litlar, að þær hafa ekki vegið neitt á móti þeim stórfelldu þrengingaraðgerðum, sem hún hefur gert iðnaðinum til óþurftar, eins og verðbólgustefnunni, eins og lánsfjárhöftunum og eins og hinni röngu gengisskráningu, sem íslenzk framleiðsla býr nú við og er afleiðing þeirrar efnahagsstefnu, sem ríkt hefur í landinu á undanförnum árum.

Ég er þeirrar trúar, og hún styðst líka við staðreyndir, að ef íslenzkur iðnaður hefur sambærilega aðstöðu við erlenda framleiðslu hvað snertir þau atriði, sem ég hef nefnt hér á undan, eins og verðbólguþróunina, lánsfjáraðstöðuna og gengisskráninguna, er hann fullkomlega samkeppnisfær. Og það er í þeirri trú, sem ég og nokkrir fleiri flytjum þá till., sem hér liggur fyrir. Sú till. gengur í þá átt, að íslenzkur iðnaður skuli njóta jafnréttis við landbúnað og sjávarútveg hvað snertir kaup á framleiðsluvíxlum hjá Seðlabankanum. Það, að iðnaðinum hefur verið meinað um þetta, stafar eins og margt annað af því, að núv. hæstv. ríkisstj. hefur minni trú á honum en öðrum atvinnugreinum í landinu og býr honum þess vegna lakari kjör. Það eru liðin 8 ár, síðan sú stefna var mörkuð hér samhljóða undir forustu vinstri stjórnarinnar, að iðnaðurinn skyldi í þessum efnum búa við sömu aðstöðu og landbúnaður og sjávarútvegur. En núv. ríkisstj. hefur vanrækt að framkvæma þetta, vegna þess að hún vanmetur iðnaðinn og telur þess vegna ekki nauðsynlegt að láta hann njóta jafnréttis við aðrar atvinnugreinar hvað þetta snertir.

Ég skal játa, að þó að þessi till. næði fram að ganga, er þar ekki um að ræða neina allsherjarlausn á málum iðnaðarins, en mundi þó styrkja hann talsvert frá því, sem nú er. Ég álít, að það sé ekkert mark, þó að það komi iðnaðinum að vísu til nokkurra hagsbóta, en í sjálfu sér er það hins vegar ekkert mark að ná í þessum efnum sömu aðstöðu og landbúnaður og sjávarútvegur, vegna þess að það er mín skoðun, að þótt þessar atvinnugreinar búi við betri aðstöðu hvað lánsfjármálin snertir en iðnaðurinn, sé hlutur þeirra stórkostlega fyrir borð borinn í þessum efnum vegna þeirrar lánastefnu, sem ríkisstj. hefur haldið uppi á undanförnum árum.

Eins og fram kom í umr., sem fóru hér fram fyrir viku, hafa af hálfu Seðlabankans, að sjálfsögðu vegna fyrirmæla ríkisstj., verið gerðar ráðstafanir til að koma á hinum stórfelldustu lánsfjárhöftum, sem hafa þrengt mjög aðstöðu atvinnuveganna á undanförnum árum. Það stendur að vísu svo í Seðlabankalögunum frá 1961, sem voru flutt og samþ. að frumkvæði núverandi ríkisstj., að það skuli vera eitt af meginverkefnum Seðlabankans að sjá atvinnuvegunum fyrir hæfilegu lánsfé, svo að framleiðslugeta þeirra nýtist til fulls. En hvernig hefur þetta orðið í framkvæmd? Til viðbótar þeim tölum, sem ég nefndi þá, ætla ég að nefna nokkrar fleiri, sem skýra þetta enn betur, hversu stórkostlega Seðlabankinn hefur vanrækt verkefni sitt í þessum efnum.

Árið 1960 nam verðmæti útflutningsframleiðslunnar 2541 millj. kr., og á því ári til jafnaðar námu endurkeyptir víxlar hjá Seðlabankanum 844 millj. kr. Á síðasta ári, 1966, eru þessar tölur hins vegar þannig, að verðmæti útflutningsframleiðslunnar, sem Seðlabankinn lánar út á námu á því ári 5563 millj. kr., en endurkeyptir víxlar Seðlabankans námu á því ári ekki nema 840 millj. kr. Í stuttu máli sagt: Verðmæti útflutningsframleiðslunnar hefur miklu meira en tvöfaldazt á þessu tímabili, en endurkeyptir víxlar hjá Seðlabankanum hafa hins vegar lækkað á þessu tímabili um 4 millj. kr. Það er með þessum hætti, sem Seðlabankinn hefur rækt það hlutverk, sem honum er á hendur falið í sjálfum Seðlabankal., að sjá atvinnuvegunum fyrir hæfilegu lánsfé, að á þeim tíma, sem verðmæti útflutningsframleiðslunnar miklu meira en tvöfaldast, verður samdráttur í endurkeyptum hráefnavíxlum hjá Seðlabankanum. Það er með þessum hætti, sem Seðlabankinn hefur rækt þetta verkefni sitt.

Ég held, að það sé erfitt að finna dæmi um það, að íslenzk stofnun hafi meira brugðizt hlutverki sínu en Seðlabankinn hefur gert í þessum efnum. Og sagan er ekki hér öll sögð, því að þetta er ekki nema hálf sagan. Síðari hluti sögunnar er sá, að Seðlabankanum hefur ekki þótt nóg að draga inn þau lán, sem hann hefur sjálfur veitt á þennan hátt, heldur hefur hann gert ráðstafanir til þess að þrengja stórkostlega aðstöðu viðskiptabankanna til þess að geta fullnægt atvinnuvegunum. Seðlabankinn hefur tekið upp þann hátt að binda verulegan hluta þess sparifjár, sem viðskiptabankarnir hafa fengið á þessu tímabili, með þeim afleiðingum að sjálfsögðu, að það hefur dregið úr möguleikum þeirra til að gegna þjónustustarfi sínu í þágu atvinnuveganna í landinu. Af þessu hafa að sjálfsögðu hlotizt ennþá stórfelldari lánsfjárhöft en ella. Því hefur verið haldið fram af hæstv. ráðh. í umr., sem hafa farið fram hér á þingi um þetta mál, að þessi binding hafi verið gerð til þess að koma upp gjaldeyrisvarasjóði. Þessu var þó ekki haldið fram á sínum tíma, þegar Seðlabankal. voru sett. Þá var því haldið fram, eins og glöggt kemur fram í grg. fyrir Seðlabankal., að það ætti með allt öðrum hætti að afla gjaldeyrisvarasjóða. Það var skýrt tekið fram þá af þeim talsmönnum ríkisstj., sem þá töluðu, að binding sparifjárins eða frystingin væri eingöngu tekin upp til þess að hafa taumhald á fjármagni því, sem væri í umferð í landinu á hverjum tíma.

Ég skal þessu til sönnunar aðeins lesa hér upp úr ræðu, sem viðskmrh. flutti þá, þar sem hann var að skýra og verja þetta ákvæði um sparifjárbindinguna. Ráðh. farast þar orð á þennan veg, með leyfi hæstv. forseta, — þetta eru orð viðskmrh.:

Hv. þm. spurði, hvers vegna slíkar reglur sem þessar væru settar“ — þ.e. reglurnar um bindinguna. — „Um það mætti margt segja,“ segir ráðh., en ég skal ekki um það fjölyrða. Ég skal aðeins láta þess getið, að til þess liggja tvær meginástæður. Annars vegar eru slík ákvæði nauðsynleg, til þess að Seðlabankinn geti haft vald á peningamagninu í umferð.“ Þetta er önnur ástæðan, sem sagt, til þess að Seðlabankinn geti haldið uppi sparifjárhöftum. Ráðh. heldur áfram: „Það er eitt af meginhlutverkum seðlabanka, um það er ekki ágreiningur, að tryggja, að peningamagnið í umferð og framboð lánsfjár sé hæfilegt miðað við það, að verðlag haldist stöðugt og framleiðslugeta atvinnuveganna sé hagnýtt á skynsamlegan hátt.“ Þetta er önnur meginröksemdin fyrir því, að slíkar reglur séu nauðsynlegar. Hin er sú, að þær eru settar til þess að tryggja öryggi innistæðueigendanna í þeim innlánsstofnunum, sem gert er ráð fyrir að eigi vissar innistæður í Seðlabankanum.

Lengra þarf ég svo ekki að rekja, því að hér eru taldar upp þær tvær meginástæður, sem hæstv. ráðh. færði á þessum tíma fyrir frystingunni. Önnur var sú, að hún væri nauðsynleg, til þess að Seðlabankinn gæti haft taumhald á fjármagninu, gæti framkvæmt lánsfjárhöft, og hin ástæðan var sú, að þetta væri eðlilegt til þess að tryggja innistæður í viðskiptabönkunum. Hér er hvergi minnzt á það, að frystingin sé tekin upp til að stofna til gjaldeyrisvarasjóða, enda, eins og áður sagði, tekið fram í grg. fyrir frv. um Seðlabankann eða l. um Seðlabankann, að ætlunin væri sú að gera þetta með allt öðrum hætti eða með þeim hætti að láta þá eðlilegu aukningu, sem yrði á seðlaútgáfunni á hverjum tíma, verða til þess að skapa gjaldeyrisvarasjóð. Þessi röksemd er fundin upp eftir á, algerlega eftir á að sparifjárfrystingunni eða lánsfjárhöftunum sé komið á til að tryggja gjaldeyrisvarasjóð, þegar það þykir ekki lengur heppilegt að vera eins hreinskilinn og hæstv. viðskmrh. var í sinni ræðu.

En ég verð líka að segja það, að ef til gjaldeyrisvarasjóðs á að stofna með þeim einum hætti, að það gengur út yfir atvinnuvegina í landinu, dreg ég það í efa, að sú framkvæmd sé rétt. Ég dreg það í efa, að það sé rétt, að í stað þess að efla íslenzka atvinnuvegi, í stað þess að auka framleiðni íslenzkra atvinnuvega, eigum við að fara að geyma sparifé erlendis, íslenzkt sparifé erlendis. Ég dreg það fullkomlega í efa, að það væri t.d. rétt framkvæmd að hafa sleppt því að byggja sementsverksmiðjuna og eiga heldur hliðstæða innistæðu erlendis. Ég dreg það líka t.d. í efa, svo að ég nefni eitt dæmi, að það væri hagkvæmara fyrir landið, að t.d. mannvirki þau, sem Einar Guðfinnsson og synir hans eiga í Bolungarvík, væru ekki til, en í staðinn ættum við hliðstæða inneign erlendis. Ég skal fullkomlega játa, að það getur verið gott og gagnlegt að eiga gilda gjaldeyrisvarasjóði. En ég álít hins vegar, að annar varasjóður sé miklu tryggari og miklu betri fyrir þjóðina en þó gjaldeyrisvarasjóður, og það er sá varasjóður að eiga trausta og blómlega atvinnuvegi. Ég held, að í því felist miklu meira öryggi fyrir íslenzku þjóðina en þótt við eigum gjaldeyrisvarasjóð til 1—2 mánaða. Ég held, að það sé það megintakmark, sem við verðum að keppa að, ef við ætlum að njóta sæmilegra lífskjara í landinu, að leggja sem mest fjármagn í atvinnuvegina, stuðla að því, að þeir geti verið sem blómlegastir og þeir geti stöðugt verið vaxandi. En það er skilningur, sem hæstv. ríkisstj. skortir alveg. Þess vegna hefur það gerzt á undanförnum árum, þrátt fyrir hið mesta góðæri, sem nokkru sinni hefur verið á landi hér, að framleiðni atvinnuveganna hefur sama sem ekkert aukizt á þessum tíma. Þetta er játað m.a. í þeirri skýrslu, sem Efnahagsstofnunin hefur nýlega sent Hagráði, að hinn mikli hagvöxtur á undanförnum árum sé ekki nema að sáralitlu leyti að þakka aukinni framleiðni atvinnuveganna, heldur stafi af mikilli síldveiði, hækkandi verðlagi á útflutningsvörum og lengri vinnutíma en áður. Ég held, að þótt verðbólgan sé mikið alvörumál, þá sé þetta mesta alvörumálið, sem við horfumst í augu við í dag.

Síðustu 10 árin hafa á vissan hátt verið meiri byltingatimi í sögu mannkynsins en allir tímar aðrir, og þetta liggur í hinni miklu tæknibyltingu og tækniframförum, sem hafa átt sér stað á þessu tímabili. Ég fullyrði alveg hiklaust, þó að það sé að vísu erfitt að benda á dæmi með áberandi rökum, að í þessum efnum hafa íslenzkir atvinnuvegir verið að dragast aftur úr öðrum atvinnuvegum hvað tækni og hagræðingu snertir. Tækniframfarir og hagræðingarframfarir hafa orðið stórfelldari í öðrum löndum á þessu 10 ára tímabili en nokkru sinni fyrr, svo stórfelldar, að við gerum okkur ekki grein fyrir því. En hins vegar er staðan hjá okkur þannig, að því er sjálf Efnahagsstofnunin játar, að hér hefur sáralítil eða engin framför átt sér stað hvað framleiðni atvinnuveganna snertir, og ég er alveg sannfærður um það líka, að næstu 10 ár munu verða miklu meiri byltingartími í þessum efnum en nokkrir tímar, sem mannkynið hefur áður lifað. Það verða stórfelldari framfarir hjá atvinnuvegunum, hvað snertir alla tækniþróun og hvað snertir aukna hagræðingu en nokkru sinni fyrr. Og sú mikla spurning, sem við stöndum frammi fyrir í dag, er sú, hvort okkur takist að halda þannig á okkar atvinnumálum, uppbyggingu okkar atvinnuvega, að við höldumst í hendur við þróunina, en höldum ekki áfram að dragast aftur úr, eins og átt hefur sér stað á undanförnum 10 árum. Og um það er ég sannfærður, að ef fylgt verður þeirri stefnu í lánamálum gagnvart atvinnuvegunum, sem gert hefur verið á undanförnum árum, munum við hiklaust dragast aftur úr. Þess vegna fullyrði ég, að þau lánsfjárhöft, sem ríkisstj. hefur tekið upp, eru þau verstu höft, sem hægt er að hugsa sér á tímum tækniframfara og hagræðingar, sem nú ganga yfir veröldina. Ég sé ástæðu til þess að ásaka, hæstv. ríkisstj. fyrir margt, en öllu öðru fremur ásaka ég hana þó fyrir það, að hún hefur ekki skilning á nauðsyn þess að auka framleiðni atvinnuveganna og styrkja grundvöll atvinnuveganna, svo sem mikilvægt er á þessum tímum, heldur lætur flest annað hafa forgangsrétt.

Mér fannst rétt að láta þetta koma hér fram almennt um atvinnuvegina, því að ég vil láta það koma alveg skýrt fram, að þó að ég telji það vissa leiðréttingu fyrir iðnaðinn, að hann búi við sama borð og sjávarútvegur og landbúnaður hvað endurkaup víxla snertir hjá Seðlabankanum, þá álít ég það engan veginn fullnægjandi lausn, því að ég tel, að það þurfi að gera víðtækar ráðstafanir til að bæta úr lánamálum allra atvinnuveganna frá því, sem nú er, og á meðan sú lánsfjárkreppa. ríkir, sem nú á sér stað, á meðan þeim lánsfjárhöftum er viðhaldið, sem nú er haldið uppi, þá séum við ekki aðeins í þeirri hættu, heldur sé það raunveruleiki, að við séum að dragast aftur úr öðrum þjóðum hvað snertir tækni og hagræðingu hjá atvinnuvegunum, og það álít ég að sé það hættulegasta af öllu, sem fyrir okkur getur komið, jafnvel hættulegra en sjálf verðbólgan.

Ég skal svo láta þessi orð nægja, en vil leyfa mér að leggja til, að að umr. lokinni nú verði henni frestað og málinu vísað til allshn.