15.02.1967
Sameinað þing: 23. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í D-deild Alþingistíðinda. (2351)

32. mál, réttur Íslands til landgrunnsins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. utanrrh. vék hér nokkrum orðum að okkur í Alþb. og fulltrúum okkar í utanrmn. og vitnaði líka nokkuð í það, sem ég hafði sagt á einum fundi. Mér skilst á hæstv. utanrrh., að hann vilji gjarnan taka upp eðlilegt samstarf, eins og vera ber lögum samkv., af hálfu utanrrh. við utanrmn., en það standi eins og kökkur í hálsi hans, að fyrrv. utanrrh. hafi, eins og hann nú hefur vitnað í, sagt vissa hluti 1964, og ég skil það vel, að hæstv. núv. utanrrh. á bágt með annað en trúa þeim utanrrh., sem áður var. En það, sem ég er hræddur um að komi í ljós, eins og hv. 5. þm. Reykv. nú þegar hefur nokkuð rakið, er, að það, sem fyrrv. utanrrh. hefur sagt í þessum efnum, hafi ekki við staðreyndir að styðjast Ég mundi skýra þetta þannig sálfræðilega, að árið 1964 hafi hæstv. fyrrv. utanrrh. verið orðinn svo taugaveiklaður út af alls konar meðferð á utanríkismálum, að hann hafi verið farinn að ímynda sér það og þyrfti þess vegna að fá einhverjar átyllur til þess að þurfa helzt ekki að hafa með utanrmn. að gera og hafi þess vegna slengt þessu fram. Hann segir það beinlínis, að fyrir nokkrum árum hafi stjórnarandstaðan tekið upp þau vinnubrögð í utanrmn. að bregðast trúnaði. Það er náttúrlega alveg gefið mál, að svo framarlega sem þetta hefði gerzt, hefði utanrrh. þá, þ.e. fyrir nokkrum árum, sem mun líklega eiga við árin 1960, 1961 eða frá 1959—1961, meðan landhelgismálin voru mest á dagskrá, því að það er vitnað í þau seinna, þá hefði hann auðvitað komið fram með þetta þá strax. Við skulum segja, að blað eins og Þjóðviljinn eða kannske blað eins og Tíminn hefði skýrt frá einhverju, sem hann hefði beðið fyrir sem trúnaðarmál, þá hefði utanrrh. náttúrlega komið fram með það undireins á þinginu og tilkynnt: Nú hafa þessi blöð brotið trúnaðarheit, nú get ég ekki haft svona samstöðu með utanrmn. — Það gerir hann ekki, heldur kemur hann nokkrum árum seinna, sem sé 1964, og fer þá að afsaka sig með þessu.

Hvernig hefur þetta raunverulega verið? Hér er búið að rekja nokkuð af hv. 5. þm. Reykv. einstök mál í þessum efnum. Sannleikurinn er sá, að fyrrv. utanrrh. vildi helzt aldrei hafa neitt með þn. að gera í þessum efnum, hann vildi sniðganga þingið að öllu leyti, og hann vildi hafa utanríkismálin sem sín einkamál svo að segja, og í hve ríkum mæli þetta var, skal ég færa nokkrar sönnur á.

Núna stendur svo í l., þ.e. í dögum um utanríkismálanefnd, eins og þau eru núna 1965: „Utanrmn. starfar einnig milli þinga, og skal rn. ávallt bera undir hana utanríkismál, sem fyrir koma milli þinga“. Þarna er alveg ótvíræð lagaskylda, sem ekki verður undan skorazt, nema eitthvað sérstakt liggi við, og skal rn. ávallt bera undir hana utanríkismál, líka á milli þinga. Það er bein fyrirskipun í l., svo að allt annað er lögbrot En svona var þetta í gamla daga líka, en eftir 1953 var þingsköpunum nokkuð breytt. Eftir hernámið 1951 var þingsköpunum breytt og það var þá gert vafalaust með tilliti til þingflokks Sósfl., af því að hann átti fulltrúa í utanrmn., að þáverandi hernámsflokkar vildu ekki hafa hann í þeirri n. Þá hljóðaði ákvæðið um utanrmn. svona:

„Til utanríkismálanefndar skal vísa utanríkismálum. Utanrmn. kýs úr sínum hópi með hlutfallskosningu 3 menn til ráðuneytis ríkisstj. um utanríkismál, enda skal stjórnin ávallt bera undir þá slík mál, jafnt milli þinga sem á þingtíma.“

Þetta var þessi svonefnda leyninefnd, sem átti að vera leyninefnd hernámsflokkanna og átti að geta fjallað sérstaklega um þau mál, sem snertu hernaðarleyndarmál eða eitthvað, sem við kom Íslandi vegna hernámsins. Ég hef tvívegis staðhæft það hér áður og því hefur ekki verið mótmælt, að þessi n. hafi aldrei verið kölluð saman, þessi undirnefnd hafi aldrei verið kölluð saman. Hvað sýnir það? Það sýnir, að utanrrh. á þessu skeiði og meiri hl. þess tímabils, sem um er að ræða, þ.e. frá 1956, er Guðmundur Í. Guðmundsson varð utanrrh., hefur hann ekki kært sig um að hafa neitt samband við kjörna fulltrúa Alþ., hve örugglega sem þar væri gengið frá því, að þeir menn væru honum sammála, í veigamiklum pólitískum málum. Hann hefur ekki viljað hafa neitt samneyti við þingkjörna nefnd í þessum efnum, ekki heldur þó að í gegnum alls konar krúsidúllur væri búið að útiloka þá menn, sem voru á annarri skoðun en hann. Það er alveg greinilegt, að það, sem þarna hefur verið um að ræða, er mótvilji þáv. utanrrh. að hafa nokkurt samband við þingkjörna n. Hann hefur viljað ganga fram hjá þessum n., og síðan 1964 fer hann að nota þetta sem átyllu, og þegar hæstv. núv. utanrrh. tekur við, segir hann þetta við hann. Þetta er orðið ástand, sem er alveg óþolandi. Utanrmn. var ekki svona áður fyrr. Frá 1942 var utanrmn. með mikilvirkustu n. Alþ. Þegar þetta kom fyrir 1964, — ég var mættur á þeim fundi, ég var þá víst orðinn aðalmaður frá hálfu Alþb. í utanrmn., og hæstv. ráðh. las upp fyrri partinn af því, sem ég hafði sagt, — ég ætla að leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta, að lesa það allt:

„Einar Olgeirsson sagði, að öll blöð reyndu að fá fréttir eftir þeim aðferðum, sem þeim væri mögulegt, og diplómatíið hefði þá ekki aðrar aðferðir en að dementera, en slíkt væri raunar oftast staðfesting á því, að fréttirnar í blöðunum væru réttar. Honum fannst það óþolandi ástand, að utanrmn. gæti ekki rætt þýðingarmikil mál í trúnaði. Áður fyrr hefði þetta alltaf verið gert, en svo hefði viðhorfið breytzt. Nú væri nauðsynlegt að innleiða á ný, að hægt væri að ræða þýðingarmikil mál í n. Hann vildi mjög gjarnan taka þetta mál til nánari meðferðar.“

Ég undirstrikaði þarna, að þetta væri alveg ófært, að utanrmn. væri sett í þessa aðstöðu, sem þáv. utanrrh. hafði bæði sett hana í og undirn. hennar, sem sé að sniðganga Alþ og sniðganga n. Alþingis. Hins vegar viðvíkjandi því, hvað kæmi í blöðum, er það vel upplýst, hvernig þau mál hafa legið fyrir 1960—1961, eftir því sem hv. 5. þm. Reykv, hefur upplýst hér úr fundargerðum utanrmn. Hitt aftur á móti er alveg vitað mál, að öll blöð reyna alltaf að fá upplýsingar um það, sem er að gerast í alls konar n. og líka bak við tjöldin. Og ég get sagt alveg hreinskilnislega, ég hef líka um skeið verið ritstjóri Þjóðviljans og líka. þegar við höfum ekki átt neina menn í utanrmn. Það hefur verið venjulega þægilegast fyrir okkur að geta sagt frá málunum, þegar okkur hefur ekki verið trúað fyrir neinu í trúnaði. Ef okkur hafði verið trúað fyrir einhverju, vorum við bundnir. En hitt gat maður verið nokkurn veginn öruggur um, að væru einhver leyndarmál á döfinni og maður kæmi hvergi þar nærri, síuðust þau þannig út, að maður næði þeim í snakkinu hér í bænum eftir nokkra daga, í hæsta lagi 1—2 vikur. Og það hefur líka sýnt sig. Þess vegna held ég og ég ætla nú, að hæstv. ríkisstj. hafi tekið upp á því, t.d. í sambandi við alúmínmálið, að hafa miklu heldur þann hátt á, að vígja stjórnarandstöðuna inn í málið, láta hana fylgjast með því. Hitt er vitað, að hér er það svo, að menn komast alltaf í þessa hluti. Ég skal bara minna á t.d., þegar Framsókn og Alþfl. voru hér í ríkisstj. 1935, þá var gerður samningur, sem átti að vera mikill leynisamningur, við Þýzkaland. Við birtum þennan samning þá í Verkalýðsblaðinu. Við náðum honum orðréttum. Við vorum ekki á þingi og höfðum enga aðstöðu, en við birtum samninginn orðréttan í Verkalýðsblaðinu nokkru seinna. Blöð reyna að ná í svona hluti. Það hefði verið erfitt, ef við hefðum átt sæti í utanrmn. og samningurinn hefði verið lagður fyrir sem trúnaðarmál, þá hefði maður ekki getað gert það. En með því að vera utan við var þetta sem sé hægt. Ég vil þess vegna taka fram, að það dugir ekki, þó að einn utanrrh., eins og fyrrv. utanrrh., sé eitthvað „irriteraður“ yfir því, að blöð í landinu reyni að ná sér í upplýsingar, það gera öll blöð í heiminum og birta þær. Hann hefði kannske getað komizt hjá ýmsu, sem hefði verið birt þannig, ef hann hefði trúað mönnum fyrir því. Þess vegna vil ég ítreka það, sem ég sagði á þessum fundi 1964: Þetta ástand er algerlega óþolandi. Ég álít, að hvorki við Alþb.-menn né aðrir fulltrúar hér á Alþ. hafi brotið neinn trúnað við fyrrv. utanrrh. Ég held miklu frekar, og það mætti gjarnan athuga það, þegar farið væri að rannsaka þessi mál öll saman betur, eins og nú kemur fram till. um, hvort sá hæstv. utanrrh. hefur ekki nokkuð oft brotið trúnað við Alþ. Og hitt er alveg ótvírætt, að um lagabrot hefur hann gerzt sekur 4 hverju einasta Alþ. með því, hvernig hann hefur gengið fram hjá utanrmn., fram hjá þeirri n., sem hann átti að leggja ýmis veigamikil mál fyrir.

Þetta var sem sé tilraun frá hálfu þess utanrrh. til að gera utanríkismál Íslands að sínum einkamálum, og það er óþolandi ástand. Utanríkismál Íslands eru mál þjóðarinnar og Alþ., og einn utanrrh., sem reynir að gera þessi mál að sínum einkamálum, er raunverulega að brjóta bæði lög og stjórnarskrá. Þess vegna held ég, að við ættum alveg að hætta því að deila um afstöðu þess utanrrh. nú meir og reyna hins vegar að taka upp það að hafa eðlilegt og sjálfsagt samstarf í þessum málum, eins og tíðkaðizt á þeim tíma, sem utanrmn. var einna mikilvirkust hér á Alþ., frá 1942—1949, og eins og ég þykist hafa hugmynd um, að hæstv. núv. utanrrh. vilji að sínu leyti gjarnan, og hefur raunar sagt, að hann vilji að sínu leyti mjög gjarnan taka þann hátt upp.

Við skulum í þessu sambandi alveg sérstaklega athuga eitt þýðingarmikið mál, og það eru öll þau mál, sem koma fyrir Sameinuðu þjóðirnar. Yfirleitt er ekkert af þeim málum þannig, að það séu einhver sérstök trúnaðarmál. Það eru mjög opinber mál, sem ber að athuga og undirbúa sem bezt hér á Alþ, og ég held, að við gætum haft forgöngu um svo margt fleira í þeim efnum en við gerum nú þegar á þingi Sameinuðu þjóðanna, og ég held, að það væri mjög lítils vandi fyrir hæstv. núv. utanrrh. að skapa mjög heilsteypt þing á bak við sig í ýmsum þeim málum, sem við þar gætum flutt. Og Sameinuðu þjóðirnar eru því, eins og ég held, að hann hafi einmitt sagt í ræðu sinni áðan, hæstv. ráðh., mjög ákjósanlegur vettvangur fyrir okkur, og ég held, að við ættum að hafa samtök hjá okkur um það að fara að gera þær að slíkum vettvangi og framkvæma þá um leið þær ákvarðanir, sem eru í þingsköpum, sem eru í l. um, að ráðuneytið skuli alltaf bera undir utanrmn. öll utanríkismál, sem fyrir koma milli þinga, og þá náttúrlega tala ég ekki um líka á þingum, öll þau mál skulu koma fyrir utanrmn. Öll þau mál, sem á t.d. að leggja fyrir Sameinuðu þjóðirnar, eru allt saman mál, sem á að ræða í utanrmn. Ég vildi því vonast til þess, að við gætum alveg brotið við blað í þessum efnum. Ég vil undirstrika, að það væri alveg sérstaklega nauðsynlegt, að það gæti gerzt nú á þessu ári. Það eru framundan einhver allra erfiðustu mál fyrir Ísland að ráða fram úr, sérstaklega t.d. á því ökonómíska sviði, þar sem er afstaðan til EFTA og til Efnahagsbandalagsins, og við skulum segja, ef það kæmi til t.d. um nánari norræna samvinnu á þeim sviðum, mál, sem fara að krefjast af okkur ákvarðana, en þær ákvarðanir krefjast í raun og veru áraundirbúnings, þar sem allir hinir beztu menn legðu sína þekkingu sem bezt fram. Sömuleiðis yrði kannske meiri hl. þingsins meira sammála, ég skal ekkert um það fullyrða. Sömuleiðis verður nú á næsta kjörtímabili afstaða tekin til, hvort við eigum að halda áfram í Atlantshafsbandalaginu eða ekki, þannig að þetta er hvert stórmálið á fætur öðru. Hvernig sem menn annars vilja líta á þau og á ýmsum þeirra munu menn ekki hafa mjög fastar skoðanir, þá geta menn ekki frá sjónarmiði þjóðarheildarinnar haft á móti því, að þessi mál verði rædd sem allra bezt og undirbúin, ekki aðeins í stjórnarráðinu sjálfu og utanrrn., heldur einmitt af hálfu Alþ. Ég vil þess vegna leyfa mér að vona, að einmitt þessar umr., sem nú hafa orðið, mættu verða til þess, að hér yrði alveg brotið við blað og Alþ gæti nú hafið þau samskipti við hæstv. utanrrh., sem bæði Alþ. og ríkisstj. er nauðsyn á og Alþ. og ríkisstj. höfðu áður, meðan bezt var ástatt fyrir okkur í þinginu.