08.02.1967
Sameinað þing: 22. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í D-deild Alþingistíðinda. (2364)

39. mál, kaupmáttur tímakaups verkamanna í dagvinnu

Ólafur Björnsson:

Herra forseti. Ég verð nú að segja það þegar í upphafi, að mér finnst þáltill. sú, sem hér liggur fyrir, með furðulegustu plöggum, sem útbýtt hefur verið á þingi því, sem nú situr, og jafnvel þó að lengra væri farið aftur í tímann, og undrar mig satt að segja á því, að svo góðir og gegnir menn sem flm. þessarar till. þrátt fyrir allt eru skuli leggja sig niður við áróður af þessu tagi. Í þessu felst þó ekki, að ég telji ekki eðlilegt, að hér á hv. Alþ komi fram óskir og till. um rannsókn á einstökum þáttum efnahagsmála, og væri ég reiðubúinn til þess að styðja hverja skynsamlega till, af því tagi, af hverjum svo sem hún væri borin fram. En þeirri till., sem hér liggur fyrir, tel ég ekki unnt að fylgja, nema þá í algerlega breyttri mynd.

Útreikningur á kaupmætti launa er vissulega mörgum vandkvæðum háður og koma þar til álita margvisleg matsatriði, sem erfitt er að skera úr þannig, að allir verði sammála um. En hvað sem öðru liður, verður ekki úr þessum vafaatriðum skorið með ályktun Alþ., svo sem hér er lagt til, að gert verði. Slíkt er ekki samboðið virðingu Alþingis og minnir óneitanlega á hina frægu Egilsstaðasamþykkt, sem gerð var um árið, þess efnis, að ekki væri halli á fjárl. En margt fleira fáránlegt felst í till. þessari og grg. með henni, svo sem nú skal nokkru nánar rakið, og skal ég þá fyrst víkja að almennum atriðum, sem fram koma í grg., en því næst að mjög ávandaðri meðferð þeirra talna um kaupmátt launa, sem hér er vitnað í frá Efnahagsstofnuninni.

Því er haldið fram, að þjóðartekjur hafi síðan á árinu 1959 aukizt um 40%. Þetta mun að vísu vera nokkuð vel í lagt. A.m.k. ef miðað væri við aukningu þjóðartekna á mann, mun hún varla vera meira en rúmlega 30% á þessu tímabili, en það er aukaatriði. En þá verður spurningin þessi: Ef það væri nú rétt, að þjóðartekjur á mann hafi aukizt um 40%, til hverra hefur þá þessi aukning þjóðarteknanna runnið? Það gefur auga leið, að sú aukning þjóðarteknanna, sem á sér stað, hlýtur þó að renna í skaut einhverjum aðilum í þjóðfélaginu, annaðhvort einstaklingum, opinberum aðilum eða félögum eða félagasamtökum, en samkv. skoðun hv. flm. á kaupmáttur verkamannalauna að hafa rýrnað, og vafalaust telja þeir einnig, eins og kom fram í framsöguræðu hv. 1. flm., að sama eigi við um aðra launþega, og ekki hefur lýsing hv. framsóknarmanna að undanförnu á afkomu atvinnuveganna verið með þeim hætti, að ætla megi, að þeir telji, að hinar auknu þjóðartekjur hafi komið fram í auknum gróða þeirra. En hvernig á að fá þetta dæmi til að ganga upp? Þess má í þessu sambandi geta, að hv. 3. þm. Reykv. gerði þó á dögunum tilraun til þess að fá dæmið til að ganga upp, þar sem hann benti á hinn óhóflega verzlunargróða. Í þessu er þó að því leyti nokkur sannleikskjarni, að það verður alltaf þannig, þegar þjóðartekjur aukast, að dreifingarkostnaður vex meira en í hlutfalli við aukningu þjóðarteknanna. Að mínu áliti eru þó ekki líkur á, að það sé nema lítill hluti hinna auknu þjóðartekna, sem fer í það, en þessi mál voru rædd svo mikið hér á hv. Alþ. fyrir jólin, að ég geri þeim ekki frekari skil hér, og eins og kunnugt er, hafa hv. framsóknarmenn alls ekki tekið undir kenninguna um hinn mikla verzlunargróða. En þá spyr ég aftur: Hvernig fá þeir dæmið til að ganga upp, hvert hefur þessi aukning þjóðarteknanna runnið, ef hún hefur hvorki runnið til launþega né atvinnurekenda? — og vænti þess, að hv. flm. séu reiðubúnir að gera nokkra grein fyrir þessu atriði.

Þá vil ég leyfa mér að leiðrétta þá blekkingu, sem í því felst, þegar gerður er samanburður á föstu kaupi verkamanna og útgjöldum samkv. þeim vísitölugrundvelli, sem notaður er, og þetta talin sönnun þess, hve óviðunandi hlutur verkamanna sé. Hér kemur í rauninni fram að mínu áliti alger misskilningur á því, hver er tilgangurinn með því að reikna út vísitölu framfærslukostnaðar. Það er stundum skrifað um þetta í hv. blöðum stjórnarandstæðinga á þann veg, að vísitölugrundvöllurinn gefi til kynna þær lágmarkstekjur, sem verkamenn þurfi til þess að geta lifað. Þetta er alger misskilningur. Hagstofan eða kauplagsnefnd, sem nú ber ábyrgð á útreikningi vísitölunnar, hafa mér vitanlega aldrei stofnað til neinnar rannsóknar á því, hvað sé það lágmarkskaup, sem verkamenn þurfa til þess að geta lifað á enda ógerningur að komast að nokkurri niðurstöðu í því efni. Ég býst við, að t.d. ef hér á hv. Alþ væri stofnað til skoðanakönnunar meðal alþm. um það, hvað fjölskylda af einhverri tiltekinni stærð þyrfti mikið kaup til þess að geta lifað, yrðu úrlausnirnar jafnmargar og hv. þm. eru, eða 60 alls. Slíkt er algerlega ógerningur, enda er sá ekki tilgangurinn með vísitölugrundvellinum, heldur eingöngu hinn, að fá viðmiðun eða úrtak, sem hægt er að leggja til grundvallar áætlunum um það, hvað meðalverðlag hafi hækkað mikið. Og í þessu sambandi má vekja athygli á því, að það þarf engan að furða á því, þó að laun verkamanna séu að jafnaði nokkru lægri en útgjöldin samkv. vísitölugrundvellinum. Það stafar af því einfaldlega, að þær athuganir, sem vísitölugrundvöllurinn byggist á eru upplýsingar um útgjöld ýmissa fjölskyldna úr mismunandi launþegahópum. Þar eru teknir með iðnaðarmenn, sjámenn, opinberir starfsmenn og ýmsir aðrir, sem hafa hærra kaup en verkamenn, og svo lengi sem sú aðferð er viðhöfð, gefur það auga leið, að það hlýtur alltaf að vera þannig, að tekjur verkamanna verða undir þessum heildarútgjöldum, þar sem ýmsir aðilar aðrir eru með, sem hafa hærri tekjur en verkamenn. Það leiðir aðeins af þeirri aðferð, sem er notuð við þennan útreikning, og segir ekki neitt.

Þá kem ég að því að rekja í örstuttu máli meðferð hv. flm. á þeim tölum, sem þeir nota um þróun kaupmáttar launanna. Í fyrsta lagi vildi ég nú á það benda, að að mínu áliti er algerlega óraunhæft í þessu efni að miða við árið 1959, bæði vegna þess að kaupmáttur launa var þá óeðlilega hár vegna þess mikla halla, sem þá var á viðskiptum við önnur lönd, sem var ástand, sem auðvitað gat ekki verið varanlegt. Í öðru lagi hlýtur það að mínu áliti að gefa réttari mynd af þróun kjara verkamanna að miða við núverandi vísitölu framfærslukostnaðar í heild, en ekki verðlagsvísitöluna. Það, sem gert var einmitt með efnahagsráðstöfununum 1960, var það, að lækkaðir voru skattar, hækkaðar fjölskyldubaetur o.s.frv., til þess að bæta upp á þann hátt að nokkru leyti a.m.k. þær verðhækkanir, sem urðu af völdum gengislækkunarinnar, þannig að þegar sýna á fram á þróun kjaranna, er það auðvitað fráleitt að taka eingöngu með verðhækkanirnar, en sleppa því, sem gert var til þess að bæta verkamönnum og öðrum þessar verðhækkanir upp.

Í öðru lagi vil ég leyfa mér að vekja á því athygli, vegna þess að það gefur nokkra mynd af þeim aðferðum, sem hér eru notaðar, að í grg. er nefnt, að samkv. töxtum Iðju í Reykjavík hafi kaupmátturinn þann 1. júní s.l. ekki verið nema 97.1%, en þessi tala er tekin úr skýrslu, sem Efnahagsstofnunin mun hafa látið í té á s.l. sumri, þegar samningar stóðu yfir. Ég hef nú þessa töflu fyrir framan mig. Það er rétt með þessar tölur farið, en það er langlægsta talan, sem fyrir kemur í þessari töflu. Maður skyldi nú yfirleitt ætla, að réttara væri að miða við meðaltöl en lægstu eða hæstu töluna, hvort sem er. En það er langlægsta talan, sem hér hefur verið tekin. Á það má benda, því að ég hef fengið upplýsingar um það, að þetta gefur þó algerlega ranga mynd af þeirri þróun, sem orðið hefur á kjörum iðnverkafólks á þessu tímabili, því að einmitt í þessari sömu töflu er það upplýst, að iðnverkakonur hafa aukið kaupmátt launa sinna um 25.2% á þessu sama tímabili. En samkv. upplýsingum, sem ég hef fengið frá stjórn Iðju, munu verkakonur vera um 3/4 meðlima þess félags. En ástæðan til þess, að þessi taxti er svo tiltölulega lágur, mun vera sú, að á árinu 1965 samdi Dagsbrún um allmiklar tilfærslur í flokkum, sem juku náttúrlega kaupmátt launa Dagsbrúnarmanna, svo að hann er allmiklu hærri en þetta, en í Iðju kom þetta ekki að sama skapi til góða. Þar hafa launabæturnar meira verið í annarri mynd, t.d. í aukinni akkorðsvinnu með hærri töxtum, en það kemur ekki fram í þessu.

Þá halda hv. flm. því fram, eins og segir í grg. þeirra, með leyfi hæstv. forseta, að tímakaup það, sem Efnahagstofnunin miði við, sé byggt á ákveðnum hlutföllum dag-, eftir- og næturvinnu og gefi því ekki rétta mynd af kaupmætti sjálfs dagvinnukaupsins. Ef það væri tekið eitt sér, segja hv. flm., sem réttara er, mundi rýrnun kaupmáttarins verða enn meiri. Um þetta hefur Efnahagsstofnunin látið hæstv. forsrh. í té nokkra grg., þar sem segir svo um þetta atriði, með leyfi hæstv. forseta:

„Í grg. er því haldið fram, að kaupmáttur dagvinnukaups hljóti að hafa þróazt óhagstæðar en þróun meðalkaups dag-, eftir- og næturvinnu í föstum hlutföllum. Þessu er þó engan veginn svo farið. Árið 1959 var eftirvinnuálag í samningum verkamanna 50% og næturvinnuálag 100%. En orlof á yfirvinnu miðaðist við dagvinnutaxta, þannig að með orlofi var álagið 47.2% og 94.3%. Árið 1961 hækkaði eftirvinnuálagið í 60% og skerðing orlofs var afnumin, þannig að með orlofi var álagið 60% og 100%. Með júnísamkomulaginu var álagið aftur fært niður, svo að álagið er 50% og 91%, hvort sem er með eða án orlofs. Niðurstaðan er sú, að tímakaup í dagvinnu befur hækkað svo til nákvæmlega jafnmikið frá 1959 og samvegnir taxtar. Miðað við 1959 sama og 100 voru Dagsbrúnar taxtar innifaldir í útreikningum Efnahagsstofnunarinnar orðnir sem hér segir hinn 1. marz 1965: Störf, sem eru í sama taxta í dagvinnu 166.4%, samkv. samvegnum töxtum 166.2%, það munar þarna 0.2%, en störf færð milli taxta voru í dagvinnu 175.8%, en samkv. samvegnum töxtum 175.6%, aftur munar þar aðeins 0.2%, svo að af þessu er ljóst, að það er röng ályktun, sem dregin er í grg., að það geri í þessu sambandi mun, hvort miðað er við dagvinnukaupið eitt eða hina samvegnu taxta.“

Þá er því haldið fram í grg. og vitnað þar í sérstaka skýrslu Efnahagsstofnunarinnar, að samkv. töxtum Dagsbrúnar hafi kaupmátturinn verið 106.6% hinn 1. júlí s.l. miðað við 100 á árinu 1960. Um þetta segir Efnahagsstofnunin: „Hér er beinlínis rangt með farið. Tilvitnaður útreikningur, sem birtur er í viðauka við töflu 8 í skýrslu Hagráðs frá því í sumar, á ekki við um kaupmátt tímakaups í dagvinnu, heldur eru, eins og þar segir, sýndar vísitölur kauptaxta Dagsbrúnarverkamanna og vísitölur kaupmáttar miðað við, að áhrif kauphækkunar svarandi til fullrar styttingar dagvinnutíma séu ekki meðtalin.“ M.ö.o. er stytting dagvinnutímans ekki talin með til kjarabóta., en það er allt annað mál en kaupmáttur tímakaups í dagvinnu út af fyrir sig. Eða m.ö.o., þær tölur, sem hér er um að ræða og vitnað er í, eru reiknaðar á þeim grundvelli, að vinnutími hefði raunverulega stytzt svo sem um var samið, en svipuð eftirvinna og áður, þá verður kaupmáttaraukningin þessi, 106.6%, en þá. er sleppt að taka tillit til þess, sem vissulega væru raunhæfar kjarabætur, að vinnutíminn hefði þá verið styttur sem samsvaraði þessum 3—4 klukkutímum, sem um var samið.

Með tilliti til þess, hve er orðið áliðið fundartímans, mun ég ekki fjölyrða öllu meira um þetta, en vil aðeins segja það að lokum, að þó að mál þetta sé samkv. því, sem ég tel mig hafa gert grein fyrir, lagt fyrir á mjög villandi hátt af hv. flm., sker það þó ekki úr um það, hvort ástæða væri til þess að framkvæma rannsókn þá, sem hér er gert ráð fyrir. Það mun þó vera erfitt — en það leiðir af því, sem ég þegar hef gert grein fyrir að framkvæma hana á þann veg, að von sé ótvíræðra og óumdeilanlegra niðurstaðna, og önnur spurning kemur auðvitað fram í sambandi við þetta, en hún er sú, hvort Alþ. getur út af fyrir sig sagt kjararannsóknarnefnd, sem er samstarfsstofnun vinnuveitenda og launþega, fyrir verkum í þessu efni. Að vísu má færa rök fyrir því, að ef verðbólgan hefði undanfarin ár verið minni en raun er á hefðu þjóðartekjur orðið meiri og verkalýðnum auðvitað borið sinn skerfur af því. En þá er komið inn á þá mjög umdeildu spurningu, sem of langt mundi auðvitað leiða að ræða hér, hverjir eigi sök á því, að verðbólguþróunin hefur átt sér stað. Álít ég, að rannsókn á því, hvað hægt sé að gera í framtíðinni í þessum efnum, sé raunhæfari en rannsókn á fortíðinni, þó að hið síðarnefnda geti vissulega átt rétt á sér.

Hv. flm. talaði mikið um það, hver bagi það væri launþegunum, að við völd sæti óvinveitt ríkisstj., eins og hann orðaði það. Slíkar fullyrðingar eru út af fyrir sig ódýru verði keyptar. En nokkurt ósamræmi er þó í því að telja annars vegar, að ríkisstj. ráði öllu í þessum efnum og geti gert það, sem henni sýnist til þess að bæta kjör launþeganna og allt slíkt hljóti að bera árangur, ef aðeins sé ekki til að dreifa illvilja af hennar hálfu, og svo hins vegar, þegar því er haldið fram, að sú aukning þjóðarteknanna, sem hafi átt sér stað, stafi einvörðungu af utanaðkomandi ástæðum, það sé hækkað verð á afurðum, góður síldarafli og fram eftir þeim götunum. Að mínu áliti liggur sannleikurinn þarna mitt á milli. Það er engin ástæða til þess að vanmeta þann þátt, sem það hefir átt í aukningu þjóðartekna okkar, að aflabrögð hafa verið góð og hagstætt verð á útfluttum afurðum fram á s.l. ár. En að mínu áliti hefði þó árangurinn í þessum efnum orðið til muna minni og vöxtur þjóðarteknanna minni, ef ekki hefði verið beitt þeim hagstjórnartækjum, sem beitt hefur verið einmitt fyrir forustu hæstv. núv. ríkisstj. Ástæðan til þess, að kaupmáttur launa óx lítið á tímum vinstri stjórnarinnar, var ekki sú að mínu áliti, að ríkisstj. væri launþegunum óvinveitt og hefði ekki viljað gera það, sem í hennar valdi stóð með góðu móti, til þess að bæta hag þeirra. Ástæðan var hins vegar fólgin í hinu, að það var beitt óskynsamlegum úrræðum í efnahagsmálum, sem voru framförum fjötur um fót frekar en hið gagnstæða