12.04.1967
Sameinað þing: 34. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í D-deild Alþingistíðinda. (2533)

124. mál, endurskoðun stjórnarskrárinnar

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það var aðeins út af ummælum hv. 1. þm. Norðurl. e. í sambandi við þær nefndir, sem starfað hafa að stjórnarskránni, sem ég vildi fá að segja nokkur orð:

Í sambandi við stjórnarskrárnefndina frá 1942, sem samdi lýðveldisstjóraarskrána, var henni markaður bás af sjálfri stjórnlagabreytingunni, sem samþ. var 1942. Í þeim lögum segir:

„Þó er óheimilt að gera með þessum hætti nokkrar aðrar breytingar á stjórnarskránni en þær, sem beinlínis leiðir af sambandsslitum við Danmörku og því, að Íslendingar taka með stofnun lýðveldisins til fullnustu í sínar hendur æðsta vald í málefnum ríkisins.“

Við höfðum enga heimild, við sem vorum í þessari n. þá, til að gera neinar aðrar breytingar fyrir lýðveldisstofnunina. (Gripið fram í.) Við höfðum enga heimild þá, fyrir lýðveldisstofnun, til þess að gera neinar aðrar breytingar.

Síðan kemur sagan áfram, og þá er það aðallega starfssaga n. frá. 1947. Þegar sú n. byrjaði að starfa, er það kjördæmamálið, sem kemur upp undireins, og sú till., sem liggur fyrir þeirri n., er, að öllu landinu verði skipt upp í einmenningskjördæmi, og það, sem gerist, er, að sjálfstfl. og Framsfl. eru að ræða um þetta og það langan tíma. Og m.a. stendur þá sú deila, hvort eigi að skipta Reykjavík upp í 17 einmenningskjördæmi eða 21 einmenningskjördæmi. Sannleikurinn er sá, að öll endurskoðun stjórnarskrárinnar hefur alltaf strandað á þessu eina spursmáli, um kjördæmamálið. Og ég er hissa á hv. 1. þm. Norðurl. e. að koma nú, þegar hann kemur með till. hér, sem margt er alveg rétt athugað í, með kjördæmamálið inn í þetta. Ef maður ætti t.d. að fara að setja einmenningskjördæmi í dag og hafa jafnmarga kjósendur í hverju, býst ég við, að það mundi þýða, að það ættu að vera t.d. í Reykjavík og Reykjaneskjördæmi 34 af 60 þm. landsins. Ég veit ekki, hvernig mörgum hv. þm. hérna litist á slíkt — eða hafa bara t.d. 3 þm. í öllu Vestfjarðakjördæmi. Ég held, að svo lengi sem við blöndum kjördæmamálinu saman við endurskoðun á stjórnanskránni, fáum við ekki almennilega stjórnarskrá, sem við þurfum að fá. Við þurfum að ná samkomulagi um að geta tekið kjördæmamálið út úr og ræða það ekki, þegar við endurskoðum stjórnarakrána. Og ég er ákaflega hræddur um, þótt hv. þm. hafi þóttzt vera að hefja sig yfir flokkana og segja, að það nái ekki nokkurri átt að láta þessa flokka ráða svona miklu, og hafði vissulega margt satt að mæla í því, er ég hræddur um, að þarna sé flokkshyggja að verki, þegar verið er að hugsa um þessi einmenningskjördæmi og blanda því saman við þetta mál.

Ég held, að endurskoðun á stjórnarskránni sé aðeins hugsanleg með því máti að hafa kjördæmamálið alls ekki til umr. í sambandi við það.

Ég vil jafnframt minna á að eina breytingu gátum við gert, þegar lýðveldið var stofnað: Það var í sambandi við forsetaembættið. Það er deilt um það, hvort forsati ætti að vera skyldugur til þess að undirskrifa öll lög, eins og konungurinn raunverulega var, þó að hann væri það ekki lagalega. Sá danski konungur varð að undirskrifa okkar lög, annars hefðum við álitið, að hann væri að brjóta gegn þingræðinu og þess óskrifuðu lögmálum. En við urðum að taka fram í okkar nýju stjórnarskrá, hvaða vald forseti átti að hafa. Og ef mönnum fannst, að það kæmi til mála, að hann gæti gert eitthvað annað í þessum efnum, komum við okkur saman um á endanum að breyta hans aðstöðu. Fyrst var talað um að hafa hann bara kosinn af þinginu, og það var sérstaklega fyrir till. okkar sósíalistanna þá að n. gekk síðan inn á það að hafa hann kosinn af þjóðinni, vegna þess að við gáfum honum það vald að mega skírskota til þjóðarinnar öllum lögum og geta látið þjóðina dæma um hvaða lög sem var, hvaða frv. sem var. Hann gat neitað staðfestingu og látið fara fram þjóðaratkvgr. Þannig breyttum við aðstöðu forseta, og þetta gátum við gert, því að þarna vorum við frjálsir. En þetta vald hefur forseti aldrei notað. Hann var einmitt hugsaður af stjórnarskrárnefndinni sem eins konar vörður almennings, kosinn af þjóðinni, gagnvart flokksræðinu og gagnvart ríkisvaldi ríkisstj. En enginn forseti hefur nokkurn tíma notað þetta vald og ég álít það slæmt, vegna þess að það var hægt að skapa þarna það aðhald að flokksræðinu og flokksvaldinu, sem var nauðsynlegt.

Ég ætla svo ekki og ætlaði mér ekki að fara að ræða þetta. En þarna vorum við einmitt að reyna að skapa það, sem ýmsir mundu kalla beint lýðræði, milliliðalaust lýðræði með kosningu forsetans, sem þjóðin sjálf gat ákveðið og gat sjálf ákveðið síðar með þeirri þjóðaratkvgr., sem hann ákvæði, um lagagildi laga frá Alþ. En enginn forseti hefur notað þetta vald.

Annars vil ég geta þess, að við lögðum hér fram tveir þm. Alþb. frv. um breytingu á stjórnarskránni í 10 liðum, fyrst og fremst í sambandi við mannréttindi, og við álítum það eitt höfuðatriði, sem yrði að athuga í sambandi við þetta. Ekkert af þeim málum og engin mannréttindamál eru í því, sem hér er sérstaklega talað um. Hins vegar er talað um ýmislegt formlegt og ýmislegt gagnrýnt alveg réttilega, m.a. flokkssæðið hjá okkur. En þessu vildi ég aðeins skjóta, fram á þessu stigi, ef ekki yrðu meiri umr. um þetta mál, og hins vegar vonast til þess, að það gefist tækifæri til þess að ræða þessi mál betur í d. í sambandi við það frv., sem við höfum lagt hér fyrir.