09.11.1966
Sameinað þing: 8. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 472 í D-deild Alþingistíðinda. (2612)

202. mál, sjónvarp til Vestfjarða

Fyrirspyrjandi (Sigurvin Einarsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans, en ég harma það þó, að aðalsvarið liggur ekki fyrir enn. Hvenær eiga Vestfirðingar von á því að njóta sjónvarps? Þessu er nefnilega ósvarað, og það var þó aðalatriðið. Eins og ég sagði hér áðan, er það sýnilegt, að fjárhagsins vegna þarf ekki að draga þetta lengi, og ég vil spyrja hæstv. ráðh.: Hvers vegna þarf að reisa allar þessar stóru endurvarpsstöðvar fyrst og láta hitt allt bíða þangað til einhvern tíma, ef fjárhagsgrundvöllur er fyrir því að gera þetta allt samtímis? Hvað er það, sem hindrar það? Hvers vegna þarf fyrst að fara að byggja endurvarpsstöð í Stykkishólmi og aðra á Blönduósi o.s.frv.? Er ekki hægt að byrja samtímis á endurvarpsstöðvum víða annars staðar á landinu, t.d. á Vestfjörðum, sem á mjög mörgum stöðum munu kosta litla peninga eða rúmar 3 millj. hver? Er eitthvað í veginum með þetta tæknilega séð? Ef það er aðelns fjárhagsgrundvöllurinn, sem talinn er erfiður, fæ ég ekki séð það eftir .þeim upplýsingum að dæma, sem hér hafa komið fram, og jafnvel þó að tekjuöflunin dygði ekki, er enginn vandi að taka bráðabirgðalán til þess að koma sjónvarpi upp á skömmum tíma, ef vilji er fyrir hendi. Hitt kann að vera, þó að ég viti það ekki, að einhverjir tæknilegir örðugleikar hindri það. En það hefur a.m.k. ekki komið fram enn.