09.11.1966
Sameinað þing: 8. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í D-deild Alþingistíðinda. (2626)

47. mál, úthlutun úr byggingarsjóði ríkisins

Fyrirspyrjandi (Einar Ágústsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera fram fsp. um það til hæstv. félmrh., hvenær megi vænta næstu úthlutunar úr byggingarsjóði ríkisins. Ég hygg, að ekki þurfi að eyða löngum tíma. í að greina ástæður þess, að slík fsp. kemur fram, svo mjög eru húsnæðismálin og lánveitingar til þeirra þýðingarmikil fyrir allan þorra fólks. En þó vil ég fylgja þessari fsp. úr hlaði með örfáum orðum.

Í reglum Húsnæðismálastofnunarinnar mun svo ákveðið, að lánveitingar skuli fara fram vor og haust. Nú er kominn 9. nóv. og ekki er enn farið að starfa að haustúthlutun fyrir yfirstandandi ár. Jafnvel þó að núna strax væri hafizt handa um skiptingu lánsfjárins, er meira en hæpið, að hægt verði að afgreiða öll lánin á þessu ári, og allir hljóta að sjá hvílíkt óhagræði leiðir af þessum drætti fyrir alla þá sem bíða eftir fjármagni til þess að geta tekið húsnæði sitt í notkun. Fjöldi manna kemst í hrein vandræði, ef ekki verður staðið við þær lánveitingar, sem lofað hefur verið, nokkurn veginn á réttum tíma. Alveg sérstaklega er slíkur dráttur bagalegur fyrir þá sem bíða nú eftir síðari hluta byggingarlánsins, fyrir það fólk, sem er að því komið að flytja inn, hefur þegar fest mikið fjármagn í húsum sínum og hefur þar af leiðandi .mjög miklar vaxtagreiðslur af húsunum meir en hálfbyggðum, en þó ófullgerðum. En hafi því hins vegar tekizt að fá bráðabirgðalán út á síðari hluta húsnæðislánsins, annaðhvort hjá bönkum, þeim, sem byggir húsið, eða á einhvern annan hátt, eru þau lán nú að lenda í vanskilum og voði fyrir dyrum hjá mörgum, ef ekki rætist úr hið bráðasta.

Ákvæðin um húsnæðismálastjórn gera ráð fyrir því, að lánin séu veitt í tvennu lagi, og ég ætla, að almennt sé það skilið svo, að þau séu afgreidd að fullu í tveim samliggjandi úthlutunum. Allir meðlimir húsnæðismálastjórnar hafa, eftir því sem ég bezt veit, jafnan verið sammála um það, að viðbótarlán skyldu ganga fyrir nýjum lánum, enda finnst mér það eðlilegt. Því tel ég í sannleika sagt einkennilegt, að ekki skuli nú þegar verið búið að úthluta þessum viðbótarlánum. Eftir þeim upplýsingum, sem ég hef, lágu fyrir hinn 1. okt. 370 umsóknir úr Reykjavík og 197 umsóknir .frá aðilum utan Reykjavíkur, eða samtals 567 umsóknir um slík viðbótarlán. Til þess að fullnægja þessum umsóknum þarf því rúmar 79 millj. kr., og það fjármagn mun þegar vera fyrir hendi í byggingarsjóði. Ég vænti þess, að hæstv. ráðh. leiðrétti þetta hjá mér, ef ég fer hér rangt með. Þess vegna tel ég, að þegar hefði átt að vera búið að afgreiða þessar umsóknir, og skil ekki, hvers vegna húsnæðismálastjórn hefur ekki gert það, og það því fremur sem kunnugt er, að till, þess efnis hefur þegar komið fram í stjórninni fyrir nokkrum vikum, án þess að fá nægan stuðning. Mundu það þó án efa vera heppileg vinnubrögð að afgreiða fyrst þær umsóknir, sem allir virðast sammála um, að forgang eigi að hafa, a.m.k.. að því leyti sem fjármagn er fyrir hendi, og létta þannig þeim, sem harðast eru keyrðir af húsbyggjendum, nokkuð róðurinn, og væri æskilegt, að hæstv. félmrh. vildi beita áhrifum sínum í þá átt.

Þá hef ég í 2. málsgr. fsp. innt eftir því, hvort hægt verði að fullnægja fyrirliggjandi lánshæfum umsóknum, og ef svo er ekki, þá hversu mikið fjármagn skortir til þess. Ástæðan til þessarar fsp. er sú, að margir, sem nú bíða eftir lánum úr byggingarsjóði, hafa fengið mjög óljós svör um það, hvort hægt væri að fullnægja allri eftirspurn að þessu sinni, miðað við þær reglur, sem í gildi hafa verið að undanförnu. Þær upplýsingar, sem ég hef fengið um ástand þessara mála, eru þær, að 1. okt. s.l. hafi legið fyrir umsóknir um lán að upphæð 180 millj. kr., sem skiptast þannig: 567 viðbótarumsóknir ca. 79 millj., 86 viðbótarumsóknir um verkalýðslán ca. 3 millj., 215 nýjar umsóknir um verkalýðslán ca. 16 millj., 310 nýjar umsóknir úr Reykjavík 86 millj., 288 nýjar umsóknir utan Reykjavíkur 80 millj. Alls nemur þetta 264 millj. kr. Frá þessu þarf að draga helminginn af nýjum lánsumsóknum, 83 millj., og kemur þá út talan, sem vantar, ca. 180 millj. En þá er við þetta það að athuga, að hér ber að draga frá einhverja fjárhæð vegna þess, hvað lífeyrissjóðsfélagar fá skert lán úr byggingarsjóði, en hins vegar þarf að bæta við hækkun lánanna vegna hækkunar á byggingarvísitölu, sem nú stendur fyrir dyrum. Þessi upphæð, sem ég nefni hér, er því ekki nákvæm, hún er vafalaust talsvert of lág. — Ég er alveg að ljúka máli mínu, herra forseti. Ef það er rétt, sem upplýsist væntanlega hér á eftir, að umráðafé byggingarsjóðs sé nú um 130 millj. kr., er ljóst, að hér vantar verulega á til þess að endarnir nái saman.

Með tilliti til hins mikla fjölda, sem hér á hlut að máli, þætti mér æskilegt, — og þess vegna ber ég fram fsp., — að heyra það frá hæstv. félmrh., hvort í ráði sé að afla viðbótarfjármagns til þess að mæta þessari vöntun eða hvaða ráðstafanir að öðru leyti séu gerðar í þessum málum.