16.12.1966
Neðri deild: 32. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í B-deild Alþingistíðinda. (289)

58. mál, verðjöfnun á olíu og bensíni

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það er aðeins örstutt aths., í rauninni til að undirstrika það, sem hv. 3. þm. Austf. sagði hér um þessi mál. Að mínum dómi virtist mér hann skilja miklu betur en hæstv. viðskmrh. þann grundvöll, sem verið hefur frá upphafi að þessu verðjöfnunarkerfi.

Hér hafa áður farið fram miklar umr. um það, þegar einstakir menn hafa verið að halda því fram, að þessi eða hinn aðilinn í landinu hafi verið að tapa á verðjöfnunarkerfinu og aðrir að græða á verðjöfnunarkerfinu. Það er í rauninni grundvallarmisskilningur að tala um þetta. Þegar verðjöfnunin fyrst var ákveðin, stóðu menn einmitt frammi fyrir því, að það voru að koma fleiri og fleiri aðilar upp í landinu sem sögðu: Við flytjum þá bara olíuna inn beint til okkar, innflutningshafnirnar verða þá margar, en ekki bara ein. — Og þá hefði þetta farið þannig, að fyrir þjóðarheildina hefði flutningurinn á olíu til landsins orðið óhagstæðari. Þá hefðum við ekki getað tekið þá stærstu farma, sem við höfum tekið til landsins, alla á einn stað og dreift svo olíunni út um allt landið frá þessum stað. Þá hefði sá staður, í þessu tilfelli Reykjavík, orðið að sætta sig við miklu minni farm til landsins, ef hún hefði aðeins átt að flytja inn til sín þá olíu, sem hér er notuð. Aðilar bæði á Austurlandi og Norðurlandi voru þá mjög farnir að gera kröfur um það, að þar yrði komið upp innflutningsstöðvum, og öll aðstaða var orðin þar til þess, og þá hefðu þeir flutt inn sína olíu og kannske í sumum tilfellum þá þurft að flytja olíu hingað suður. Það er rétt, að það bar á því í upphafi, að sérstaklega menn hér í Reykjavík töldu þetta vera svo fast, að Reykjavík væri eini innflutningsstaðurinn, að í rauninni væri Reykjavík, eins og þá var sagt, að borga með olíu til allra annarra í landinu. En ég hélt satt að segja, að þetta væri alveg liðinn tími og menn væru búnir að átta sig á því, að þetta er ekki svona, og eins og hv. 3. þm. Austf. benti réttilega á, er núna t.d. aðstaða á Austurlandi jafngóð og sú bezta í Reykjavík til þess að taka við. hinum stærstu olíuförmum erlendis frá og flytja olíuna þangað inn beint, og það er gert. Þá ættu Austfirðingar og aðrir að fara að reikna dæmið þannig að segja: Þegar olían er flutt þaðan, erum við að borga með olíunni til annarra. — Þetta er auðvitað alger hugsunarvilla. Það, sem menn komu sér saman um hér í upphafi, var þetta: Við allir landsmenn þurfum á olíum að halda. Við flytjum það inn sameiginlega, dreifum því út um landið á þann hagstæðasta hátt, sem við getum gert, og við ætlum okkur allir að búa við sama verð, þegar um sams konar olíu er að ræða. Og þannig hefur olíukerfið verið byggt upp.

Það er því hrein fjarstæða hjá hæstv. ráðh. að vera að tala um það, að síldarverksmiðjur á Austurlandi eða einhverjir aðrir hafi verið að græða á kerfinu. Hér er vitanlega ekki um neitt slíkt að ræða. Ef menn færu í það, eins og nú er ástatt, að brjóta kerfið niður, færi það alveg tvímælalaust þannig, að m.a. síldarverksmiðjur á Austurlandi yrðu líklega fyrstar af öllum til þess að komast í lægsta innflutningsverðið. En það er ekki það, sem ég álít að sé hið hagstæða í þessu. Það er hins vegar það, að við eigum að virða verðjöfnunarkerfið sem slíkt, halda því uppi sem hreinu verðjöfnunarkerfi. Það hefði vitanlega verið hægt, eins og hæstv. ráðh. sagði hér, að taka þessa olíutegund, fuelolíuna, algerlega út úr verðjöfnunarkerfinu. En út úr því hefðum við fengið þann óskapnað, sem ríkisstj. vildi ekki standa að, að þá hefði olíuverðið til togara hér í Reykjavík, á meðan Reykjavík var aðalinnflutningshöfnin, orðið miklum mun lægra en hjá togurum annars staðar á landinu, og vitanlega gert þeim leikinn miklu erfiðari, eða þá að þetta hefði leitt til þess, að þeir hefðu farið að flytja til sín beint erlendis frá það, sem þeir þurftu að nota, og Reykvíkingar einir til sín það, sem þeir þurftu að nota, sem hefði verið óhagstætt fyrir þjóðarheildina. Auðvitað komst ríkisstj. að raun um, að það þurfti að tryggja sama verð á togaraolíum um allt land. En þegar ekki á lengur að láta þá greiða í sjóðinn, verður einhver að greiða þetta fyrir þá, það er ekki nokkur leið að láta einn aðila græða 3–4 millj. kr. á ári, án þess að einhver borgi það. Og ég álít fyrir mitt leyti að þá sé það í rauninni brot á öllum meginreglum verðjöfnunarkerfisins að ætla að láta verðjöfnunarkerfið fara að borga þennan stuðning, sem þarna er um að ræða. — Svo skal ég ekki frekar þræta um þetta.