09.02.1967
Neðri deild: 38. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 590 í B-deild Alþingistíðinda. (353)

83. mál, samkomudagur reglulegs Alþingis

Frsm. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Eins og segir í aths. við lagafrv. þetta, segir í 35. gr. stjórnarskrárinnar, að reglulegt Alþ. skuli koma saman ár hvert 15. febr. eða næsta virkan dag, ef helgidagur er, hafi forseti lýðveldisins ekki tiltekið annan samkomudag fyrr á árinu, og þessu megi þó breyta með lögum. Ríkisstj. hefur lagt til, að reglulegt Alþ. skuli koma saman ár hvert 10. okt. eða næsta virkan dag, ef helgidagur er, hafi forseti Íslands ekki tiltekið annan samkomudag fyrr á árinu. Og eins og fram kemur um samkomudag reglulegs Alþ., hefur sú hefð skapazt, að Alþ. hefur komið saman í októberbyrjun og nú í seinni tíð 10. okt., og telur allshn. eðlilegt, að þessi breyting verði gerð, og leggur einróma til, að frv. verði samþ.