21.02.1967
Neðri deild: 44. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 600 í B-deild Alþingistíðinda. (398)

95. mál, varnir gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma

Frsm. (Gunnar Gíslason):

Herra forseti. Landbn. þessarar hv. d. hefur haft til athugunar og meðferðar frv. til l. um breyt. á 1. nr. 23 frá 1956, um varnir gegn útbreiðslu næmra sauðfjársjúkdóma og útrýmingu þeirra. Eins og segir í aths. við þetta frv., sem er stjfrv., eru þær breytingar, sem frv. gerir ráð fyrir á þessum l., gerðar í samræmi við þá reynslu, sem orðin er á framkvæmd þessara l. á undanförnum árum, enda má segja, að þessar breytingar snerti nær einvörðungu framkvæmd l., miði að því að gera ákvæði þeirra skýrari og öllu einfaldari.

Landbn. leggur einróma til, að frv. verði samþ., en leggur til, að á því verði gerðar smávægilegar breytingar, og eru brtt. n. prentaðar á þskj. 246. Í frv. kemur tvisvar sinnum fyrir orðið búferlaflutningur. Það kemur fyrir í 1. gr. og það kemur fyrir í 8. gr., og í 8. gr. frv. segir svo: „Til viðbótar við 14. gr. komi: Einnig er n. heimilt að banna búferlaflutninga innan sauðfjárvarnasvæðis“ o.s.frv. En í aths. segir svo aftur, að það sé lagt til, að n, verði heimilað að banna búfjárflutninga innan sauðfjárvarnasvæða. Við í landbn. gátum ekki fallizt á það, að það fælist það sama í þessum tveimur orðum: búferlaflutningur og búfjárflutningur. Það er allmiklu víðtækara, sem felst í orðinu búferlaflutningur, og við gátum sem sagt ekki mælt með því, að sauðfjársjúkdómanefnd væri gefið vald til þess að banna búferlaflutninga. Þess vegna leggjum við til, að í stað orðsins „búferlaflutningur“ komi „búfjárflutningur“ á þessum tveimur stöðum í frv. Að vísu mun það ekki hafa vakað fyrir þeim, sem sömdu frv., að sauðfjársjúkdómanefnd fengi þetta vald í hendur, en þeir áttu við það, að nefndinni væri gefin heimild til, ef svo vildi verkast, að banna flutning heilla fjárbúa eða kúabúa frá einum stað til annars innan þeirra svæða, þar sem veiki hefur verið.

Við flytjum brtt. við 7. gr., en þar er gert ráð fyrir, að sauðfjársjúkdómanefnd geti leyft flutning á kynbótafé yfir varnarlínur. Við lítum svo á í n. og vorum sammála um það, að við allar slíkar leyfisveitingar og allar slíkar undanþágur yrði að gæta fyllstu varúðar, og við leggjum því til, að slík leyfi verði ekki veitt, nema til komi samþykki yfirdýralæknis. Að vísu má segja, að þetta ákvæði sé í frv., en við viljum bæta þessum orðum við á eftir orðinu „sauðfjársjúkdómanefnd“ í 7. gr. til þess að taka af öll tvímæli um þetta.

B-liðurinn í brtt. okkar við 7. gr. er einvörðungu leiðrétting á máli, og aðrar brtt. flytur n. ekki, en eins og ég sagði, leggur hún einróma til, að frv. verði samþ. með þessum smávægilegu breytingum, sem ég hef nú gert grein fyrir.